Aron Pálmarsson var ekki með íslenska landsliðinu á dögunum vegna meiðsla en var hins vegar orðinn heill heilsu þegar lið Álaborgar sótti Kolding heim í úrslitakeppni dönsku deildarinnar í kvöld.
Leikurinn var jafn og spennandi en heimamenn voru með 14-13 forystu í hálfleik. Gestirnir frá Álaborg náðu hins vegar frumkvæðinu í síðari hálfleik og komust þremur mörkum yfir í stöðunni 21-18 þegar fimmtán mínútur voru eftir.
Þá forystu létu þeir aldrei af hendi og unnu að lokum tveggja marka sigur, lokatölur 28-26. Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk fyrir Álaborg í kvöld og gaf þar að auki eina stoðsendingu. Með sigrinum er Álaborg öruggt í undanúrslit þar sem leikið verður um danska titilinn en ekki er ljóst hverjum þeir mæta þar.
Halldór Jóhann Sigfússon og lærisveinar hans í Holstebro tryggðu veru sína í efstu deild að ári þegar liðið lagði Lemvig á heimavelli sínum í kvöld. Lokatölur 25-23 en Daníel Freyr Andrésson var í marki Lemvig sem er í vondri stöðu í neðsta sæti umspilsins um sæti í efstu deild að ári. Daníel Freyr varði sjö skot hjá Lemvig í kvöld en hann gengur til liðs við FH að tímabilinu loknu.
Arnór Atlason tekur við þjálfun liðs Holstebro í sumar og getur nú farið að undirbúa liðið fyrir tímabil í efstu deild.
Elvar Ásgeirsson skoraði sex mörk þegar Ribe-Esbjerg tapaði 29-21 fyrir Skjern. Ágúst Elí Björgvinsson varði sex skot hjá Ribe-Esbjerg en lið Skjern tryggði sér sæti í undanúrslitum með sigrinum.