Það er breska götublaðið The Sun sem fullyrðir þetta og slær því upp að báðir séu þeir Healy og Alwyn frá London borg. Áður hefur komið fram að söngkonan og Healy hafi farið í sitt hvora áttina sem perluvinir eftir sex ára samband.
Healy er fæddur sama ár og söngkonan, árið 1989 og er því 34 ára gamall. Hann er söngvari og lagahöfundur hljómsveitarinnar 1975. Slær The Sun því upp að hann sé vanur lífstíl tónlistarmanna og því henti það söngkonunni einkar vel að vera með honum í sambandi.
Hefur breska götublaðið eftir ónefndum heimildarmanni, sem sagður er vera náinn söngkonunni, að hún sé einkar hamingjusöm með hinum nýja manni. Þau séu raunar þegar orðin ástfangin.
„Það er ekki langt liðið á sambandið, en þeim líður báðum vel. Þau voru fyrst saman fyrir einhverjum tíu árum síðan í stuttan tíma en tímasetningin gekk ekki upp,“ segir ónefndi heimildarmaður breska götublaðsins.
Bætir hann í og segir að Swift hafi í raun verið einhleyp frá því í febrúar, þrátt fyrir að það hafi ekki verið greint frá því fyrr en í síðasta mánuði. Hún og Healy hafi verið í mismunandi tónleikaferðalögum en verið dugleg að tala saman í gegnum FaceTime.
„Þar sem þau eru bæði alþjóðlegar stjörnur þá gera þau sér vel grein fyrir pressunni sem fylgir starfinu og öllum tímanum sem fer í þetta. Þannig þau styðja hvort annað í þessu og eru bæði afar spennt fyrir þessu sambandi.“
