Á vef Veðurstofunnar segir að það verði fremur hlýtt í veðri yfir hádaginn með hita allt að fimmtán stigum þar sem sólar nýtur.
„Vestlæg átt og skýjað að mestu á morgun, skúrir á víð og dreif, en bjart með köflum suðaustantil.
Við Nýfundnaland er vaxandi lægð á hægri hreyfingu norður, en úrkomusvæði hennar mun líklega koma yfir vestanvert landið á fimmtdagskvöld með tilheyrandi rigningu á þeim slóðum. Helst þó væntanlega þurrt á austurhelmingi landsins til föstudags þegar rignir í flestum landshlutum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Vestlæg átt, 3-10 m/s, skýjað að mestu og stöku skúrir, hvassast og jafnvel dálítil slydduél norðaustanlands. Hiti frá 3 stigum við norðurströndina, upp í 15 stig á Suðausturlandi.
Á fimmtudag: Hægt vaxandi suðaustanátt, 8-15 m/s og fer að rigna á vestanverðu landinu undir kvöld. Hægari og bjart með köflum eystra. Hiti 8 til 13 stig, hlýjast fyrir norðan.
Á föstudag: Suðlæg átt, 5-10 m/s og víða rigning, en þurrt að kalla norðaustanlands. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast á Norðausturlandi.
Á laugardag: Suðlæg átt, rigning með köflum og áfram fremur milt veður.
Á sunnudag: Líkur á að snúist í norðanátt, með rigningu eða slyddu, einkum norðantil og kólnandi veðri.
Á mánudag: Líklega breytileg átt, skúrir eða él og fremur svalt.