Söngkonurnar Katla Þórudóttir Njálsdóttir og Kolbrún María Másdóttir verða Diljá til halds og trausts á undanúrslitunum á fimmtudag, ásamt bakröddunum Ásgeiri Orra Ásgeirssyni og Steinari Baldurssyni. Kolbrún og Katla kynntust Diljá í Versló. Atriðið eins og það leggur sig var reyndar í Versló; Ásgeir og Steinar eru einnig Verslingar, auk Pálma Ragnars Ásgeirssonar, lagahöfundar.
Eurovísir hitti Kötlu og Kolbrúnu í Liverpool. Gríðarskemmtilegt viðtal við söngkonurnar tvær má horfa á í þriðja þætti Eurovísis hér fyrir neðan.
Bakraddirnar stíga í raun ekki á eiginlegt svið Eurovision-hallarinnar í Liverpool. Þær þenja raddböndin í vel teppalögðu herbergi baksviðs, Diljá á sviðið ein. Kolbrún og Katla eru ánægðar með þetta fyrirkomulag. Það sé ekkert fúlt að sjást ekki í sjónvarpinu, stressið sé minna en ella. En það þýði þó ekki að þær hafi sig ekki til fyrir sýningu.

„Það eru ljósmyndarar alls staðar!“ segir Katla. „Það er líka bara gaman að gera sig til fyrir sig, sjálfstraustið verður meira. Og maður fær ekki jafn mikið „impostor syndrome“, manni líður aðeins meira eins og maður megi vera hérna.“
Sjúk í hinn finnska Käärijä
Þá hefur hópurinn náð að blanda geði við aðra keppendur á svæðinu.
„Ég og finnski, ég og Käärijä, erum núna bestu vinir. Ég hef talað við hann einu sinni, fékk mynd með honum af því að ég er ástfangin,“ segir Katla kímin.
„Við hittum líka Kýpur mjög oft. Þeir eru á eftir okkur að syngja og eru með okkur á hóteli,“ segir Kolbrún. Kýpverjarnir eru í raun Ástralir og mjög afgerandi sem slíkir, að sögn stelpnanna, sem hafa tileinkað sér ástralska hreiminn á mettíma, eins og heyrist glögglega á þeim í viðtalinu.
„Loreen elskar Diljá“
Og svo er það stóra L-ið, „Lára“ eins og meðlimir íslenska atriðisins kalla hana gjarnan svo hún heyri ekki óvart í þeim. Hin sænska Loreen, sú sem flestir spá sigri í keppninni í ár. Ein stærsta Eurovision-stjarna fyrr og síðar.
„Við áttum algjörlega magnað móment með þeirri konu,“ segir Katla. Íslenski hópurinn var staddur í hinu svokallaða norræna partíi, Eurovision-gleðskap þar sem öll Norðurlöndin koma saman. Loreen var á leið út þegar hana rekur í rogastans. Stelpurnar lýsa atburðarásinni af mikilli innlifun.

„Svo sér hún bara Diljá og hún hleypur í átt til okkar. Og hún talar um Diljá bara eins og hún sé í guðatölu. Hún er bara: Þú ert ótrúleg söngkona, magnað hvernig þú nærð þessum nótum meðan þú hreyfir þig,“ segir Kolbrún
„Svo segir hún: Ég skil ekki hvernig þú ferð að þessu. Ég vildi að ég væri frá Íslandi og gæti sungið svona vel,“ segir Katla.
„Loreen elskar Diljá,“ bætir Kolbrún við.
Í þriðja þætti Eurovísis hér að ofan ræða stelpurnar einnig viðbrögð Diljár við lofræðu Loreen og segja svo frá leiðinlegu hliðum Eurovision-dvalarinnar, bátsferð frá helvíti, uppáhalds Eurovision-lögunum og tilfinningunum gagnvart stóru stundinni á fimmtudaginn.
Eurovísir er þáttur um Eurovision - á Vísi! Við kryfjum keppnina, komandi og liðnar, og eltum okkar fólk út til Liverpool.