Vefsíðan sem birtir upplýsingar um flugferðir fyrir alla íslenska áætlunarflugvelli lá niðri eftir árásina í morgun, að því er kemur fram í tilkynningu frá Isavia. Tæknimönnum tókst að hrinda árásinni og koma síðunni aftur í loftið. Einhverjir notendur eru þó sagður geta átt í erfiðleikum áfram með að tengjast síðunni.
Tölvuþrjótahópurinn NoName057(16) virtist eigna sér ábyrgð á DDos-árásinni þegar hann birti mynd af villuskilaboðum á vefsíðu Isavia í morgun. Sá hópur er talinn tengdur rússnesku leyniþjónustunni og hefur gert margar sambærilegar árásir á stofnanir og fyrirtæki í Evrópu að undanförnu. Meðlimir hópsins tala opinberlega um það á samfélagsmiðlum að árásir þeirra séu til stuðnings stríðsreksturs Rússa í Úkraínu.
Isavia segir að þegar árásin var gerð í morgun hafi varasíða með aðgengi að flugupplýsingum um Keflavíkurflugvöll verið opnuð og vísað á hana á samfélagsmiðlum félagsins. Einnig hafi verið hægt að nálgast upplýsingar um innanlandsflug á vef Textavarpsins og flugfélaganna. Samfélagsmiðlar innanlandsflugvalla hafi vísað notendum þangað.
Alþingi og dómstólavefir voru á milli þeirra sem tölvuþrjótarnir réðust á í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins í gær. Netöryggissveit stjórnvalda varaði við því að búast mætti við áframhaldandi árásum.
Álagsárásir eða DDos-árásir eru tegund af tölvuárás þar sem framköllluð er stóraukin umferð um vefsíðu til þess að láta hana hrynja undan álagi.