Minnst hundrað mættu á mótmælin í dag og ljóst að hugmyndir um sameiningu skólanna tveggja sæta mikilli andstöðu. Skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík segir andstöðuna ekki beinast að Menntaskólanum við Sund.
„Við deilum þeirra áhyggjum í húsnæðismálum. Við vonum að skólinn fái farsæla lausn. Þetta beinist miklu frekar að áhyggjum fólks að menningarverðmæti skólanna tapist við samruna,“ segir Kolfinna Jóhannesdóttir.
Karítas Þorsteinsdóttir, nemandi við Kvennaskólann í Reykjavík, segir samrunann hrylling. „Þetta er blaut tuska í andlitið á Þóru Melsteð stofnanda Kvennaskólans í Reykjavík.“ Ketill Guðlaugur Ágústsson, nemandi við Menntaskólann við Sund, segir hugmyndina kjaftæði. „Ég valdi MS út af því að ég bý nálægt, umhverfið, ég var í Fossó, Réttó og svo MS. Þetta er heilög þrenna.“