Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur á yfirstandandi þingi beitt sér af krafti fyrir auknu réttlæti í tæknifrjóvgunarferlinu. Fréttastofa hefur í vetur fjallað um átakanleg dæmi þess að konur hafi neyðst til að eyða kynfrumum maka síns sem hafði fallið frá því núgildandi lög kveða á um það.
„Það var mitt fyrsta verk á þingi að leggja fram frumvarp sem tekur á þessum ógeðfelldu atriðum, sem ég vil meina að séu, sem eru í núgildandi lögum að fólk er pínt til að eyða þeim fósturvísum sem það á til við andlát eða skilnað fólks,“ segir Hildur í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Nýtt stjórnarfrumvarp heilbrigðisráðherra kemur í veg fyrir að kynfrumum verði samstundis eytt eftir skilnað eða andlát en notkun þeirra er þó eingöngu bundin við einhleypar konur, gegn skriflegu og vottuðu samþykki.
„Ég hef fagnað mjög einlægt áformum ráðherra um að koma fram með þetta stjórnarfrumvarp um að afnema þessa ógeðfelldu reglu en eftir að hafa séð endanlegt frumvarp ráðherra núna þar sem eru kröfur um að það séu einungis einhleypar konur sem megi nýta sameiginlega fósturvísa finnst mér það hreint út sagt fáránlegt og veldur mér miklum vonbrigðum.“
Gefur lítið fyrir rök ráðherra og segir fólkið eiga að ráða sér sjálft
Í greinargerð með frumvarpinu er þessi krafa rökstudd með því að vísa í ákvæði barnalaga um að barn geti einungis átt tvo foreldra og það sagt að ef konan sé í sambandi með öðrum maka en þeim sem lagði kynfrumurnar til sé hætt við árekstrum mismunandi væntinga og hagsmuna sem geti skapað togstreitu og álag fyrir barnið.
„Það eru einfaldlega vond rök að ríkið ætli vegna þessa að banna þetta fyrir allt fólk í öllum aðstæðum. Það er vel hægt að búa svo um hnútana að staða og réttindi allra viðkomandi verði alveg kýrskýr þó ég ætli ekki að gera lítið úr því að auðvitað er þetta viðkvæmt eins og margt annað. Það er engin afsökun fyrir ríkið að það sé bara einfaldast að banna þetta allt saman,“ segir Hildur sem bætir við:
„Það hreinlega hryggir mig að frumvarpið, eins og það er, muni ekki ná að aðstoða eins marga og hægt væri og ég mun gera það sem ég get til að fá þessu breytt.“
Hildur skrifaði ítarlega stöðuuppfærslu á Facebook um málið sem hægt er að gaumgæfa nánar hér að neðan.