Um er að ræða endurhæfingaspítalann Unbroken Medical Center sem staðsettur er í Lviv í Úkraínu. Í tilkynningu frá íslenska heilbrigðistæknifyrirtækinu segir að fjöldi aflimaðra í Úkraínu aukist dag frá degi sökum stríðsins sem þar geisar.
Þá kemur fram að það sé mikil og vaxandi þörf fyrir stoðtækjalausnir og klíníska sérfræðinga sem geta þjálfað heilbrigðisstarfsfólk í Úkraínu og þjónustað sjúklinga. Össur hafi gefið stoðtæki og þjálfað á annan tug úkraínskra sérfræðinga í lausnum fyrirtækisins frá því stríðið hófst árið 2022.
Samkomulagið sem skrifað var undir í dag undirstriki vilja beggja aðila að ganga enn lengra í að stofna til viðskiptasambands. Markmiðið sé að finna skilvirka leið til að útvega þjálfun og þjónusta fleiri sjúklinga með lausnum Össurar.

„Össur er eitt af fáum fyrirtækjum á heimsvísu sem hefur heildstæða þekkingu og lausnir sem geta skipt sköpum í því ástandi sem nú ríkir í Úkraínu,“ er haft eftir Sveini Sölvasyni, forstjóra Össurar í tilkynningunni.
„ Við erum einbeitt í að leggja okkar af mörkum við að byggja upp þá þjónustu sem þarf til að ná til þeirra fjölmörgu einstaklinga í Úkraínu sem þurfa á stoðtækjum og varanlegri endurhæfingu að halda.“
