Leikurinn byrjaði vel fyrir Roma því strax á 11. mínútu kom Stephan El-Shaarawy liðinu yfir með marki eftir stoðsendingu Ola Solbakken.
Þannig stóðu leikar allt þar til á 85. mínútu þegar að Luka Jovic jafnaði metin fyrir heimamenn í Fiorentina með marki eftir stoðsendingu frá Rolando Mandragora.
Stemningin var með Fiorentina í liði þessar mínúturnar og þremur mínútum síðar, nánar tiltekið á 88. mínútu, skoraði Jonathan Ikoné sigurmark leiksins og fullkomnaði um leið magnaða endurkomu heimamanna.
Sigurinn gerir það að verkum að Fiorentina er komið upp í 8. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með 53 stig.
Roma tapaði hins vegar mikilvægum stigum í Evrópubaráttunni og er liðið nú í 6. sæti með 60 stig, einu stigi fyrir ofan Juventus og einu stigi á eftir Atalanta sem situr í 5. sæti.
Liðin í kringum Roma eiga öll leik til góða á lærisveina Mourinho og í næstu viku fer síðan fram lokaumferð ítölsku úrvalsdeildarinnar.
Áður en að henni kemur á Roma hins vegar úrslitaleik fram undan í Evrópudeildinni þar sem að liðið mætir spænska liðinu Sevilla.
Roma á ekki enn séns á því að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu í gegnum ítölsku úrvalsdeildarinnar. Takist liðinu hins vegar að vinna Evrópudeildina tryggir það sér um leið sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili.