Gaupi has left the building Jakob Bjarnar skrifar 3. júní 2023 08:01 Guðjón Guðmundsson, hinn dáði íþróttafréttamaður, goðsögn, eina, hefur lagt skóna á hilluna eftir rúmlega þriggja áratuga starf í fréttamennskunni. Þar hefur gengið á ýmsu en Gaupi kvíðir því ekki að vera nú sestur í helgan stein. vísir/vilhelm Í vikunni urðu tímamót í íslenskri fjölmiðlasögu. Guðjón Guðmundsson – Gaupi – lét af störfum sem íþróttafréttamaður eftir rúmlega þrjátíu ára frækinn og farsælan feril á Stöð 2. Hann er kominn á eftirlaun en hefur sannarlega sögu að segja, ansi margar ef út í það er farið. Þó handboltinn hafi átt hug hans er alltaf stutt í Elvis. Splæst hefur verið í viðtöl af minna tilefni og Vísir settist niður með Gaupa og fékk hann til að fara yfir sviðið, eða öllu heldur tæpa á nokkrum þáttum tilkomumikils ferils en Gaupi verður sjötugur eftir rúmt ár. Hann er kominn á eftirlaun og nákvæmlega engin ástæða til að liggja á skoðunum sínum. Eins og lesendur þessa viðtals eiga eftir að sannreyna. Samt, áður en lengra er haldið; af hverju ertu kallaður Gaupi? „Ég held að það hafi verið kona, eða stúlka sem heitir Guðrún, sem ég stríddi mikið á yngri árum, í uppvextinum í Básendanum sem kom því til leiðar að ég væri kallaður Gaupi. Þetta festist einhvern veginn við mig og í raun hefur það aldrei truflað mig neitt,“ segir Gaupi. Spurningin kemur honum á óvart og ljóst að hann hefur ekki velt þessu fyrir sér. Ekki lengi. Svo tamt er honum þetta gælunafn. „Það var reyndar annar Gaupi, garðyrkjumaður á Sogaveginum og okkur var stundum ruglað saman. Eitt sinn var ég að versla í Krónunni á Tunguvegi og þá kom til mín kona og sagði mér að garðurinn væri illa hirtur. En ég gat nú komið því yfir að ég hefði ekki haft neina aðkomu að garðinum hjá henni.“ Sérstaða íþróttafréttamennsku Íþróttafréttamennska er afar sérstakt starf. Þó það snúist í grunninn um að fjalla um íþróttaafrek og svo þykjustunni stríð þegar kappleikir eru annars vegar getur myndast gífurlegur hiti í kringum fyrirbærið eins og alþekkt er. Og þeir sem um er fjallað eru oft á tíðum algerlega sannfærðir um að þeir séu að gera svo góða og jákvæða hluti að umfjöllunin eigi að vera á þeirra forsendum og þeirra forsendum einum. Gaupi í Bylgjustúdíóinu. Helena Rakel Jóhannesdóttir stýrir þessari síðustu útsendingu Gaupa sem íþróttafréttamaður í hádegisfréttum Bylgjunnar af miklu öryggi.vísir/vilhelm Sem svo stangast óvart á við grundvallaratriði í öllum fréttaflutningi; trúnaðurinn hlýtur að vera við lesendur en ekki umfjöllunarefnið. En eins og allir íþróttafréttamenn þekkja virðist íþróttahreyfingin oftar en ekki telja þá vera sína þjóna en ekki lesenda. Hér þurfa menn því að sigla sínu skipi milli skips og báru, sem Gaupa hefur tekist nú í 32 ár, af mikilli lagni og staðfestu. En hvernig kemur það til að hann leggur þetta fyrir sig? „Eftir þrettán ár í handboltanum, með Víkingi, landsliðinu og sem starfsmaður HSÍ, fékk ég þá flugu í höfuðið á æfingamóti landsliðsins á Spáni að ég ætti líklega bara að snúa mér að íþróttafréttamennsku. Ég tók upp fyrir fararstjórana litla lýsingu inná band. Ísland/Austur-Þýskaland. Og lýsti í dágóða stund leik sem ekki var í gangi. Þeim þótti þetta bara býsna vel gert. Og sögðu við mig að ég væri algerlega á rangri hillu.“ Þegar þarna er komið sögu er Gaupi í kringum þrítugt. Þó þarna hafi verið um að ræða glens segir þetta sína söguna, að frami á þessu sviði hafi blundað í honum. „Svo kemur þetta eiginlega óvart í fangið á mér. Heimir Karlsson hafði samband við mig og spurði hvort ég hefði ekki áhuga á að lýsa handbolta á Bylgjunni.“ Íþróttalýsingar í útvarpi voru aðal málið Þetta var í þá daga að lýsingar af íþróttaviðburðum í útvarpi þóttu algerlega ómissandi. Nokkuð sem hefur lagst að mestu af eftir að beinar útsendingar frá íþróttaviðburðum í sjónvarpi urðu eins algengir og nú er. „Já, og svo átti ég að gera eitthvað fyrir Stöð 2. Heimir er þá yfirmaður íþróttadeildar Íslenska útvarpsfélagsins sem rak þá Stöð 2 og Bylgjuna. En á þessum tíma hafði ég líka verið að detta inn í eina og eina lýsingu á RÚV. Með meistara Bjarna Fel og fleiri góðum.“ Fjölskylda Gaupa mætti á fréttagólfið og fagnaði með honum starfslokunum.vísir/Hulda Margrét Gaupi segist hafa alist upp við það á sínum yngri árum að hlusta bergnuminn á íþróttalýsingar í útvarpi. „Maður hlustaði auðvitað á Hemma Gunn og Jón heitinn Ásgeirsson sem er einn besti handboltalýsandi sem Ísland hefur átt. Þetta drakk maður í sig. Og taldi sig jafnvel geta fetað í sömu spor.“ Þetta voru skemmtikraftar öðrum þræði, sem hefur verið spennandi? Já. Heillandi hilla. Í raun er útvarp skemmtilegri og betri miðill að þessu leytinu til en sjónvarp. Maður getur leyft sér meira. Og þú þarft að mála myndina fyrir þann sem er að hlusta. Þannig að leikurinn sé ljóslifandi fyrir hlustandendur. Reyndar ber að hafa það í hug að þetta getur verið vandasamt og á upphafsárunum reyndi maður líka að nota húmorinn, reyna að gera þetta eins skemmtilegt og hægt var. Einhvern tímann skrifaði minn fyrrum yfirmaður og vinur, Óskar Hrafn Þorvaldsson, grein í eitthvert blaðið og sagði að ég væri faðir fimmaursins í íþróttalýsingum. Ég veit nú ekki hvort það var rétt hjá honum, en tek fram, Óskar er yndislegur drengur.“ Litríkur Ingvi Hrafn ræður Gaupa til starfa Fljótlega eftir að Heimir hafði sett sig í samband við Gaupa og beðið hann um að taka að sér nokkrar lýsingar tilkynnti hann honum að verið væri að leita að afleysingarfréttamanni uppi á Stöð 2. „Já, og að Ingvi Hrafn Jónsson fréttastjóri vildi hafa tal af mér. Ég ákvað að drífa mig uppá Stöð, sem var þá uppi á Lynghálsi, og tala við Ingva því hann hafði skrifað afar merkilega grein um íslenska landsliðið í handbolta sem hét „Sex svartir dagar í Danmörku.“ Ég vildi gjarnan hitta kauða. Hann tók á móti mér í stuttbuxum, kaffibrúnn með Camel í hönd, filterslausan og sagði: Komdu Gaupi minn, ég hef ekki mikinn tíma en við verðum að taka spjallið.“ Félagar og samstarfsmenn til fjölda ára. Gaupi tók við Henrý Birgi blautum á bak við eyrun á sínum tíma og kenndi honum allt sem hann kann.vísir/Hulda Margrét Gaupi segir að Ingvi Hrafn hafi ekki haft neinar vöflur á. „Hann í raun réði mig á staðnum, sagði mér að koma daginn eftir, mæta í vinnuna hálf níu og sagði að ég fengi einhverjar tvær vikur til að kynna mér starfsemi stöðvarinnar og Bylgjunnar. Þegar ég kom daginn eftir tók hann á móti mér glaður í bragði, eins og ávallt, fór með mig inn í herbergi og sagði: Hér er stóllinn þinn, þetta er tölvan og nú getur þú farið að skrifa fréttir. Tekur eitthvað stutt í hádegið. Þá sagði ég, þarf ég ekki að vita eitthvað meira um þetta? Ingvi sagði strax: Nei, það er best að byrja strax og synda til lands. Þetta var ekki flóknara en þetta.“ Ingvi Hrafn ýtti honum óviðbúnum út í djúpu laugina Makalaust en einhvern veginn dæmigert fyrir íslenska fjölmiðlun. Mönnum er varpað út í djúpu laugina, með hvorki kork né kút og eiga bara að ná landi. „Þetta slapp til. Ég var tiltölulega fljótur að fóta mig í þessu. Og þetta gekk vel. En það runnu á mig tvær grímur að í lok sumars 1992 þegar Ingvi sagði: Gaupi, nú ætlum við að byrja á því að vera með fréttir á hverjum degi í sjónvarpi, á præm tæm.“ Gaupi segir að flestir sem til þekktu hafi á þeim tíma talið þetta óðs manns æði, íþróttaviðburðir á Íslandi stæðu engan veginn undir svo þéttri umfjöllun. Á hverjum einasta degi. En Ingvi Hrafn, lærður í Bandaríkjunum, vísaði til þess sem kjaftæðis. „Hann var sannfærður um að þetta væri framtíðin og við þyrftum að gera þetta. Íþróttafréttir höfðu til þess tíma verið á stangli í sjónvarpi. Þeim voru kannski gerð skil í 11 fréttum Ríkissjónvarpinu og í stöku fréttatímum ef eitthvað mikið var um að vera. Gaupi fer yfir punkta sína fyrir hádegisfréttir Bylgjunnar.vísir/vilhelm Það sem meira var, Ingvi hafði keypt rándýrt fréttasett frá Bandaríkjunum sem átti að taka í notkun í október og þá vildi hann að við værum tilbúnir í slaginn með þetta nýja slott í íslensku sjónvarpi.“ Gaupi minnist þess að Ingvi Hrafn hafi spurt sig hvernig hann vildi gera þetta og Gaupi svaraði eitthvað á þá leið að þeir ættu kannski að reyna að flytja fréttir af fólki sagðar af fólki. „Ingvi greip þetta á lofti og sagði einfaldlega: Þetta er brilliant!“ Sjálfhverfir íþróttaforkólfar Gaupi segir að svo hafi þetta byrjað og hann leynir því ekki að í fyrstu var þetta sigling á móti straumi. Þetta var nýjung. „Einfaldlega vegna þess að við vorum farnir að flytja fréttir af íþróttum, ekki bara þylja upp úrslit. Einhverjum í íþróttahreyfingunni varð hverft við og það verður að segjast að það var ekki alltaf þéttsetinn bekkurinn í klappliðinu. Gaupi með félögum sínum á íþróttadeildinni.vísir/Hulda Margrét Þetta kannski endurspeglar svolítið íþróttahreyfinguna. Af því að hreyfingin er sjálfhverf. Og íþróttamennirnir í sjálfu sér líka. Og á þessum tíma vildu þeir hafa stjórn á því hvað væri sagt og hvernig það væri gert en áttuðu sig ekki á því að það sem við vorum í raun að gera sem var að víkka út sjóndeildarhringinn og gera sportinu hærra undir höfði. En auðvitað með áherslum sem áður höfðu ekki þekkst.“ Þannig var þetta býsna strembið og erfitt á fyrstu árunum. „Og í raun átti maður í vök að verjast. En mínir yfirmenn á Stöðinni þeir í raun og veru hjálpuðu mér og okkur í gegnum þennan skafl. Einfaldlega vegna þess að þarna voru menn með gríðarlega mikla reynslu og þekkingu á fréttum og fréttaflutningi. Ég verð að nefna einn alveg sérstaklega sem er Eggert Skúlason. Hann hamraði á því við mig alveg frá fyrsta degi: Þú átt að búa þér til pláss og leggja áherslu á fréttirnar. Því ef þú gerir það, og nærð til fólks með þínum fréttum, þá muntu lifa. Og þá mun íþróttahreyfingin ekki hafa neitt um það að segja hvað þú starfar í þessu lengi.“ Heimir Már og Gaupi, samstarfsmenn til áratuga. vísir/vilhelm Gaupi segir þetta hafa verið laukrétt hjá sínum gamla kollega og að á sömu skoðun hafi náttúrlega verið frábært fólk, aðrir samstarfsmenn eins og Sigmundur Ernir Rúnarsson og Elín Hirst. „Elín var frábær fréttastjóri. Ekki síst fyrir okkur sem fjölluðum um íþróttir. Hún hafði engan sérstakan áhuga á íþróttum sjálf en hún skynjaði að fréttir af íþróttum væri eitthvað sem fólk vildi heyra. Og sjá.“ Vísdómsorð frá Ómari Gaupi segist hafa þegið góð ráð frá mörgum fagmönnum sem hann starfaði með þegar hann tók fyrstu skrefin á sviði fréttamennskunnar. „Já, þegar ég var búinn að lesa mína fyrstu frétt í sjónvarpi settist hjá mér Ómar Ragnarsson þulur í fréttum, horfði fast í augun á mér inni á skrifstofu og sagði mér að fá mér sæti. Og anda með nefinu. Mér brá svolítið. Hélt hann ætlaði að fara að skamma mig. En hann sagði einfaldlega við mig: Gaupi minn. Þetta var helvíti gott hjá þér. En gerðu ráð fyrir því að hver sem á þig horfir eða hlustar sé hálfviti. Ef þú gerir það, þá mun þér farnast vel. Seinna áttaði ég mig á því að það sem hann var að segja mér var einfaldlega þetta; vertu skarpur, en snarpur og talaðu einfalt mál. Ekki flækja hlutina.“ Fjölmiðlar eru náttúrlega ekki skúffuskáld? „Nei, auðvitað eru þeir það ekki. En í lok dagsins er þetta einfaldlega vinna sem menn verða að vanda sig við. Og gera eins og þeir best geta en þetta var svo slæmt á sínum tíma, hvernig menn létu, að til að mynda þegar við sömdum við körfuboltann á sínum tíma, um beinar útsendingar frá Íslandsmótinu. Þá vildi formaður körfuknattleikssambandsins á þeim tíma að ég yrði rekinn, einfaldlega vegna þess að ég kæmi úr handboltageiranum og gæti ekki á nokkurn hátt lýst körfubolta eða fjallað um hann.“ Endalaus afskiptasemi Gaupi segir að sá maður hafi verið sleginn niður með það erindi sitt af hans yfirmönnum. „Og auðvitað endaði þetta þannig að á næstu árum lýsti ég körfuboltanum með vini mínum Svala Björgvinssyni. Ég man ég tók hann fyrst með mér í lýsingu á bikarúrslitum í Laugardalshöll, Njarðvík-Keflavík. Ég sagði nokkrum yfirmönnum mínum hvern ég ætlaði að hafa með mér í þessa lýsingu. Einn samstarfsmaður minn sagði: Gaupa verður sárt saknað af fréttagólfinu. vísir/vilhelm Þú getur ekki tekið Svala með þér, veit hann eitthvað um körfubolta? En Svali, frá þeim degi, varð fastagestur á skjám landsmanna, sem einn sá besti í bransanum og er enn.“ Átök íþróttafréttamanna við íþróttahreyfinguna eru ætíð til staðar og á árum áður voru þau jafnvel harðari. „Því miður er það þannig að hver grein fyrir sig hefur skoðun á því hvernig eigi að fjalla um sig. Og tala nú ekki um hvernig eigi að lýsa leikjum. Hvernig eigi að flytja fréttir. Við hvern eigi að tala fyrir leik, eftir leik … þetta er algjörlega galið. Ég tók þann pól í hæðina í upphafi að vera ekki mikið að mingla við fólk í geiranum. Reyndi að halda fjarlægð þannig að ég gæti flutt fréttir á hlutlægan hátt.“ Þjóðin í taugaáfalli vegna HM á Íslandi Gaupi segir að auðvitað geti menn aldrei verið algerlega hlutlausir, í raun er ekkert til sem heitir algert hlutleysi. En þá kemur fagleg nálgun til skjalanna. „Og af því ég kem nú úr handboltahreyfingunni þá má nefna það að ég hef líklega ekki gagnrýnt neina íþrótt meira en mína eigin elskulegu íþrótt sem ég hef fylgst með á hverjum einasta degi í 45 ár.“ Og því til undirstrikunar rifjar Gaupi upp þegar hann og Stefán Jón Hafstein tóku að sér að fjalla um heimsmeistaramótið í handbolta sem fram fór á Íslandi 1995. Þeir sem eldri eru muna að landið var allt sett á annan endann vegna þess risaviðburðar sem var. Ýmsir kallaðir en fáir útvaldir í sérfræðingarabbið. Fáir hafa eins mikið vit á handbolta og Gaupi, og þannig er það bara.vísir/vilhelm „Stefán var gamall línumaður úr Ármanni. Ég var meira en til í þetta. Við ákváðum að búa til „HM í dag“. Tuttugu mínútur á hverjum degi í hálfan mánuð. Hvað vildum við gera? Jú, við vildum greina leikinn, upplýsa fólk hvað væri um að vera á vellinum, fórum í fjölda viðtala og greiningar, sem endaði nú með því að okkur var að hluta til kennt um ófarir íslenska liðsins á heimsmeistaramótinu. Fengum morðhótanir meðan á mótinu stóð, að við værum búnir að eyðileggja partíið.“ Margir farið fram á að Gaupi yrði rekinn Gríðarleg eftirvænting var fyrir mótið, Ísland var með sterkt lið sem þótti til alls líklegt á heimavelli. En svo fór að halla undan fæti. Og þá voru þeir sem voru búnir að stilla sér upp sem helstu sendiboðarnir, þeir Gaupi og Stefán Jón, í skotlínunni. Gaupi segir það rétt, væntingavísitalan hafi verið skrúfuð upp í hæstu hæðir, eins og oft vill verða, en svo varð magalending og þjóðin í taugaáfalli. Væntingarvísitalan hafði verið skrúfuð í botn þegar Íslendingar tefldu fram sterku liði á heimavelli, á HM í handbolta 1995. Þeim mun erfiðari varð skellurinn og má segja að þjóðin hafi verið í taugaáfalli lengi á eftir. Og sendiboðarnir fengu að finna fyrir því. Hér er stikkprufa úr fjölmiðlum frá þeim tíma, úr Morgunblaðiðnu 17. maí 1995 fengið að af tímarit.is. „Við Stefán vorum ákveðnir í því að reyna að segja hlutina eins og þeir voru, ekki sykurhúða frammistöðuna á neinn hátt. Auðvitað var þetta erfitt, ekki síst fyrir mig því þarna var ég að fjalla um vini mína. Sem varð til þess að ónefndir töluðu ekki við mig lengi vel á eftir. En þau sár voru fljót að gróa þegar menn kannski áttuðu sig á því að við vorum einfaldlega að segja fréttir af því sem full þörf var á. Hjálpa fólki að skilja leikinn.“ En íþróttahreyfingin hefur ekki litið sömu augum á þetta? „Nei, langur vegur frá. Formaður knattspyrnusambandsins á árum áður, mikill meistari, Eggert Magnússon, fann okkur á stundum allt til foráttu og fannst við óvægnir á köflum. Sem við kannski vorum að einhverju leyti. En við vorum aldrei ósanngjarnir hvað þá rætnir. Við gáfum okkur ekki þrátt fyrir fjölda símtala til okkar yfirmanna um það að nú skyldum við haga okkur. Eggert hins vegar, þegar leið á, áttaði sig á því að hvert við vorum að fara. Jafnvel þó hann væri ekki alltaf sammála okkur. Ég man að eitt sinn þurfti ég að taka viðtal við hann vegna ráðningar landsliðsþjálfara og hann var staddur í kokteilboði á vegum FIFA eða UFA. Hann var frekar fúll í símann og ekki sáttur. En við lukum samtalinu á góðum nótum, og ég man að ég lauk viðtalinu á þá leið að segja einfaldlega: Þakka þér fyrir Eggert, skál í boðinu. Eftir þetta viðtal urðum við miklir mátar.“ Brautryðjendur í íþróttaumfjöllun Í aðdraganda heimsmeistaramótsins á Íslandi, þessu fræga, fluttu Gaupi og Stefán ásamt öðrum fréttamönnum stöðvarinnar, fjölmargar fréttir af undirbúningnum. „Forystumenn HSÍ og þáverandi formaður, Ólafur B. Schram, eðaldrengur, komu eitt sinn uppá stöð í aðdraganda mótsins, sótillir og vildu einfaldlega að við sem værum að flytja þessar fréttir yrðum reknir á staðnum. En þáverandi fréttastjóri, Elín Hirst, sem ég hef miklar mætur á eins og áður sagði, tilkynnti okkur eftir viðskipti sín við Ólaf: Strákar, ég er ánægð með ykkur. Margoft hafa forkólfar í íþróttahreyfingunni lagt lykkju á leið sína, sent erindi til yfirmanna Stöðvar 2 og Bylgjunnar og farið fram á að Gaupi verði rekinn með skít og skömm.vísir/vilhelm Munið bara að standa í lappirnar og gefa ekki tommu eftir. Og það var það sem við gerðum. Eftir mótið held ég að menn hafi á endanum verið sáttir með okkur. Það vantaði ekkert uppá að umfjöllun hér heima um mótið væri góð og fyrsta flokks. Það var einungis frammistaðan á vellinum sem brást. En umgjörðin var eins góð og hægt var að hafa hana, miðað við þær aðstæður sem boðið var uppá.“ Gaupi segir að þessi þáttagerð hafi brotið blað. Og eftir þetta fóru aðrir að fylgja í þessi sömu fótspor. „Fóru sömu leið og við höfðum gert. Og sama átti við um fréttirnar því í desember 1992 byrjaði Ríkissjónvarpið með fréttir af íþróttum á præm tæm, eins og við höfðum gert. Og í raun var það nákvæmlega eins upp sett og hafði verið hjá okkur. Og kannski það sem meira er, svo maður leyfi sér að slá sér eilítið á brjóst, að eftir heimsmeistaramótið á Íslandi 1995, þá fór þáttagerð um slíka viðburði í nákvæmlega sömu átt og við Stefán lögðum upp með á heimsmeistaramótinu ´95.“ Stálu nammi frá Frömmurum Ef við vendum okkar kvæði í kross, hvaðan kemur Gaupi? „Úr Bústaðahverfinu. Þar sem ég fékk handbolta á heilann. Ég held ég hafi verið sjö til átta ára gamall þegar ég byrjaði að fara á leiki í Hálogalandi. Ég var algjörlega heillaður af íþróttinni. Gekk innan úr Básenda að Hálogalandi í öllum veðrum og sá alla leiki. Svo var komið að dyraverðirnir, sem síðar meir urðu miklir vinir mínir, vorkenndu þessum litla snáða svo mikið þegar hann kom á leikina að ég fékk að fara frítt inn.“ Og í kringum Hálogalandið og á leikjum þar kynntist Gaupi mörgum góðum mönnum. „Já, Tolla Morthens, bróður hans Bubba, Friðriki Þór Friðrikssyni leikstjóra en sem unglingar stunduðum við Friðrik það að brjótast inn í íþróttasvæði Fram við Sjómannaskólann, ná okkur í coca-cola í kæli og fá okkur prins póló. Þetta var allt í boði Fram … en að sjálfsögðu vorum við að stela. Það er ekkert hægt að fegra það. Friðrik Þór minntist á þetta við mig þegar ég hitti hann á Akureyri á síðasta ári. Ég var búinn að gleyma þessu. Hann sagði; Gaupi, veistu, þetta var algjör snilld hjá okkur.“ Hetjurnar í Hálogalandi Bústaðahverfið er Víkingshverfi og þar liggja ræturnar hjá þessum helsta handboltasérfræðingi þjóðarinnar og þó víðar væri leitað. „Já, ég byrjaði ungur að stunda handbolta. Og fannst ótrúlega gaman en ég var nú frekar búttaður á þessum árum. En var samt býsna seigur. Skildi leikinn og drakk hann í mig. Og ég varð snemma eiginlega handboltanörd.“ Minnstu munaði að Gaupi færi í tónlistarbransann en honum bauðst að fara sveitaballahring með Grafík á sínum tíma.vísir/hulda margrét Gaupi spilaði fyrir utan, á miðjunni og var með upp alla yngri flokkana. Með Víkingum. „Við unnum alltaf annað árið. Hitt árið vann FH. Þá voru þar menn eins og Gunnar Einarsson, Guðmundur Árni, Sæmundur Stefánsson og gott ef ekki var Hörður Sigmarsson … þessa drengi þjálfaði guðfaðir handboltans í Hafnarfirði, Hallsteinn Hinriksson, sem var einstakur.“ En hetjurnar sem Gaupi leit upp til sem strákur eins og hálfguðir væru spiluðu í Hálogalandi. „Já, ég man glöggt eftir kempum sem spiluðu á Hálogalandi; Árna í Sambíónum til að mynda sem var línumaður í Ármanni, Ingólfi Óskarssyni (Fram), Erni Hallsteinssyni (FH), Bigga Björns (FH), Sigurði Einarssyni (Fram) og svo má ekki gleyma Ragnari Jónssyni (FH) sem ég held að hafi verið einn sá besti. Kannski ekki betri en Geir Hallsteinsson því Geir var sjení. En sá sem ég hreifst mest af var Gunnlaugur Hjálmarsson eða Labbi, sem spilaði með ÍR og Fram. Hann varð síðar fyrstur Íslendinga til að vera valinn í heimsliðið í handbolta.“ Handboltinn Íslendingum í blóð borinn Þú hefur kannski haft meiri áhuga á leiknum sem slíkum en að spila hann sjálfur? „Já, það er laukrétt. Ég hef alltaf verið sannfærður um það alveg frá fyrstu tíð að þetta væri sú íþrótt sem við Íslendingar gætum mátað okkur við þá bestu. Og það hefur reynst rétt. Árni Indriðason, gamall vinur minn úr Víkingi og sagnfræðingur, sagði mér eitt sinn: Gaupi; það er ekkert skrítið að við Íslendingar séum góðir í handbolta. Við erum með þetta í blóðinu. Í kveðjuhófi Gaupa á fréttagólfinu voru vitaskuld sagðar nokkrar gamansögur af meistaranum sem nú kveður með stæl.vísir/hulda margrét Ég stóð hvumsa, horfði á hann og spurði hvað hann hefði fyrir sér í því? Í árdaga, höfðum við engin vopn til að verja okkur með, við köstuðum grjóti. Svei mér þá. Ég held að þetta sé rétt.“ Eins og Gaupi segir sjálfur, hann var algerlega með handbolta á heilanum, nánast frá fyrstu tíð. Og því einhvern veginn sjálfgefið að hann tæki að sér þjálfun. „Ég byrjaði 1975 að þjálfa. Þá yngri flokka Víkings. Þar fékk ég í hendurnar gutta sem síðar urðu á meðal bestu leikmanna Íslands. Goðsagnir. Auðvitað skorti mig þekkingu á þessum tíma en þegar Bogdan Kowalczyk kemur til Íslands 1979 þá fékk ég hugljómun. Að þarna væri kominn maður sem hefði eitthvað fram að færa fyrir okkur Íslendinga sem síðar varð raunin. Magnaður karakter.“ Heragi Bogdans Já, það hefur verið mikið verið rætt og ritað um þennan afar sérstaka þjálfara frá Póllandi. „Ég byrjaði óvart sem hægri hönd Bogdans. Ég keyrði hann heim af fyrstu æfingunni sem var í KR-heimilinu. Við skildum ekki hvor annan. Hann talaði bara þýsku. En eftir þessa bílferð þá losnaði ég ekki við manninn. Og við vorum meira og minna saman í 13 ár hjá Víkingi og svo landsliðinu. Og ég get sagt þér það að starfa með honum þennan tíma er á við háskólanám.“ Bogdan (lengst til vinstri) og Gaupi (lengst til hægri) með gríðarlega sterku liði Víkinga. Hér fagna þeir Íslandsmeistaratitli árið 1982 en lið þeirra árið 1980 var um árið valið besta karlalið Íslandssögunnar í samantektarþáttum hjá RÚV.Víkingur Hvað var það sem hann leggur til sem er svona sérstakt? „Í fyrsta lagi þurftu menn að æfa meira. Menn voru í raun og veru komnir í herinn. Og það er svo magnað að þegar maður horfir á crossfit æfingar dagsins í dag þá eru þetta nákvæmlega sömu æfingar og foringinn frá Póllandi kom með. En hann var líka afburða snjall í leikfræðinni. Varnarleikurinn var kannski hans helsta vandamál. En hann hafði skýra sýn, hvað hann vildi gera, hvert hann vildi fara. Hann sagði mér að hann væri ekki að þjálfa til að eignast vini. Hann væri í þessu til að ná árangri.“ Og það er ekki úr vegi að segja að bylting í íslenskum handbolta hefjist þarna hjá Víkingunum undir stjórn Bogdans. „Þarna var góður grunnur, frábærir leikmenn á borð við Árna Indriðason, Ólaf Jónsson, Þorberg heimsfræga Aðalsteinsson, Viggó Sigurðsson og Kristján Sigmundsson og auðvitað gullmolinn Páll Björgvinsson. Síðan bættust í hópinn leikmenn eins og Guðmundur Guðmundsson, Sigurður Gunnarsson og Karl Þráinsson. Og örlítið síðar Bjarki Sigursson.“ Snorri Steinn afsprengi Bogdan-skólans Þetta voru að einhverju leyti drengir sem Gaupi sjálfur hafði þjálfað í yngri flokkunum. „Og þessi kjarni myndaði lið sem var ósigrandi. Við töpuðum ekki leik í á annað ár. Fyrsti leikurinn sem þetta lið tapaði, eftir því sem ég man best, var gegn ÍR í Laugardalshöll. Ég man að það var þungt í mínum manni þegar við gengum til búningsklefa. Það var dauðaþögn í klefanum. Nema Ólafur Jónsson kom síðastur inn í klefa, horfði yfir hópinn og sagði, þegar mátti heyra saumnál detta: Gaupi fer ekki í grafgötur með það að líf hans breyttist þegar Bogdan kom til landsins. Það kom í hans hlut að keyra hinn pólska þjálfara heim eftir fyrstu æfingu og eftir það losnaði hann ekki við kallinn.vísir/hulda margrét Strákar, við töpuðum leik! Hópurinn sprakk úr hlátri en Bogdan þreif í mig og sagði: Nú förum við út. Þetta eru algjörir vitleysingjar.“ Þetta var vissulega svakalegt lið Víkinga sem svo myndaði kjarnann í landsliðinu. „Sem verður síðar kosið lið allra tíma á Íslandi. Sem ég held að sé rétt og satt. Auðvitað hafa önnur lið náð svipuðum hæðum; Valur og FH. Og eina liðið hin síðari ár sem stenst samanburð er lið Vals síðastliðin fjögur til fimm árin. Það er kannski liðið eins og Víkingur var. Sem hefur breytt leiknum.“ Enda sonur þinn Snorri Steinn Guðjónsson þar þjálfari? „Já, ég segi nú stundum í gríni að hann sé síðasta afsprengi Bogdans-skólans. Hvers vegna? Jú, hann byrjaði að mæta á æfingar með mér hjá landsliðinu fimm ára gamall og þar held ég að hann hafi drukkið þetta í sig. Hann var algjörlega til friðs á æfingunum, mætti með nesti, sagði ekki eitt einasta orð en horfði á allar æfingar og undir lokin þá var hann farinn að leika sér með bolta eftir æfingar. Og ég segi nú stundum að það var enginn með betri mætingu á landsliðsæfingar en hann.“ Draumurinn rætist – sonurinn orðinn landsliðsþjálfari Snorri Steinn er nýlega tekinn við sem landsliðsþjálfari. Má ekki segja að draumurinn hafi ræst þá, það hlýtur að hafa glatt gamla manninn? „Jújú mikil ósköp. En auðvitað veit ég sem er að nú er hann kominn í gin ljónsins. Og þarf að ná árangri. Ég hef fulla trú á að hann geri það. Hann var á sínum tíma frábær leikmaður, í hlutverki leikstjórnanda, þekkir þennan heim vel, út og inn, en auðvitað mun hann reka sig á veggi. Það er óhjákvæmilegt. En ég geri nákvæmlega sömu kröfur til hans og annarra landsliðsþjálfara síðustu ára, að gera betur en áður hefur verið gert. Það er viðmiðið og það er ekki hægt að flýja það á einn eða annan hátt.“ Og andi Bogdans svífur enn yfir vötnum. Bogdan var ekki alveg allra, svo það sé nú orðað mjög pent? „Nei, mikið rétt. Hann var fastur fyrir. Þverhaus par exelance. En ótrúlegur fagmaður. Ég held að það hafi litað skapgerðina að hann fæðist í lok stríðsins og í Varsjá á þeim tíma þurftu menn, börn og unglingar, að stela sér til matar. Og auðvitað var hann alinn upp í hernum í Póllandi, og ég held að það hafi markað skapgerðina. Óhjákvæmilega. En hann var húmoristi…“ Nei, hættu nú alveg? „Jú, bráðskemmtilegur maður og var oftar en ekki léttur í lund. Hann fór kannski vel með það. Hann gerði miklar kröfur til sjálfs sín og fannst óeðlilegt að menn væru ekki á sömu blaðsíðu og hann þegar að kröfum og aga kom.“ Hefði drepið Gaupa ef spáin hefði ekki ræst Eruð þið í sambandi enn þann dag í dag? „Já, ég hef heyrt í honum öðru hvoru. Hann býr í Varsjá. Ég hef aldrei hitt mann á ævinni sem er jafn fluglæs á leikinn og Bogdan. Nema ef vera skyldi Guðmundur Guðmundsson. Þeir eru nánast steyptir í sama mótið en auðvitað hefur Guðmundur á síðustu árum uppfært sig. En hann, nákvæmlega eins og sá gamli, er bara ekki allra. En það tel ég nú frekar kost en galla fyrir landsliðsþjálfara því um leið og leikmenn finna veikleikamerki hjá foringjunum þá er voðinn vís. Ekki síst í dag á tímum samfélagsmiðla.“ Gaupi er húmoristi, og það sem meira er, hann hefur húmor fyrir Bogdan. Sem kom sér oft vel. „Árið 1986, á heimsmeistaramótinu í Sviss, höfðum við tapað fyrsta leiknum á móti Suður-Kóreu í Genf. Ég var fenginn til að deila út 60 hamborgurum á liðið, sem svo enginn hafði lyst á nema ég og kallinn. Við vissum að framundan voru tveir leikir uppá líf og dauða, gegn Tékkum og Rúmenum, sem urðu að vinnast. Við unnum Tékka í frábærum leik og í aðdraganda leiksins gegn Rúmeníu sagði hann við mig í hádeginu: Í kvöld verðum við reknir. Af því að ég held við eigum ekki mikla möguleika. Þá sagði ég við hann: Við vinnum leikinn með tveimur mörkum, ég er algerlega sannfærður.“ Bogdan horfði í augu Gaupa og svipur hans var óræður. Þó var eins og von hafi kviknað í grjóthörðum pólskum augunum. „Hann tók mig með uppá herbergi, fór inn í ísskápinn sem þar var, hellti vodka í glas og setti smáræði af salti út í. Hann stakk úr glasinu og við náðum að sofna í aðdraganda leiks. Miðdegislúr. Og svo var komið að leiknum. Þetta var svakalegur leikur og við auðvitað unnum með tveimur mörkum. 25- 23. Eftir leikinn sagði hann við mig: Þú ert makalaus, þú varst með þetta rétt. En þú veist, Gaupi, ef þú hefðir haft rangt fyrir þér, þá hefði ég drepið þig.“ Munaði litlu að hann færi að túra með Grafík Eins og af ofangreindu má ráða hefur handboltinn verið alpha og omega í lífi Gaupa. Blaðamanni datt í hug að slá upp spurningunni: Who is Guðjón Guðmundsson? í gervigreindarforrit og þetta var svarið: According to the web search results, **Guðjón Guðmundsson** is a **well-known sports journalist** who has worked for many years in the field²³. He is also known as **Gaupi**²³. He was also a **team manager and assistant** of Bogdan Kowalczyk for **Víkingur** and the **Icelandic national handball team**²³. He himself played handball with Víkingur but quit when he reached the master class². He also had a **singer and band career** in his youth and early adulthood, singing with several bands, especially in the early 1980s². Some of the bands he sang with are **Jeremías**, **Námsfúsa Fjóla**, and **Ernir**². Rifjast þá upp að á góðum stundum á Gaupi það til að rífa í míkrófóninn og syngja rokkslagara eins og hann hafi aldrei gert annað. Hann er þekktur fyrir að syngja Elvis-slagara nánast óaðfinnanlega, jafnvel á pari við Bó. Þú reyndir fyrir þér í poppinu á þínum yngri árum. Hvernig kom það til? „Jájá,“ segir Gaupi. „Við höfðum stofnað litla skólahljómsveit í Réttarholtsskóla. Jeremías. Sem var býsna góð sveit. Þar var ég söngvari. Við náðum að spila á öllum helstu öldurhúsum borgarinnar, ekki með aldur. Glaumbæ, Silfurtunglinu, Tjarnarbúð og Sigtúni. Og náðum nokkrum sveitaböllum og rútubílafylleríi.“ Og Gaupi var í einum tveimur hljómsveitum til viðbótar, eins og gervigreindin var með á hreinu. „Fyrir ungling hafði maður ótrúlega mikið uppúr þessu. Góðan vasapening. Og gott betur. En á tvítugsaldri hafði handboltinn tekið völdin hjá mér. Gaupi var kvaddur með látum enda vinsæll með afbrigðum meðal samstarfsmanna sinna.vísir/hulda margrét Auðvitað var mögulegt að halda áfram í poppinu, en þarna á þessum tíma voru menn farnir að hlaða í jónur, sem var reyndar saklaust fikt, en ég fann mig hins vegar ekki nægilega vel í því. Og valdi handboltann, sem var líklega hárrétt ákvörðun.“ En þó valið hafi ekki verið flókið fyrir Gaupa hvað það varðaði kom upp staða sem fékk hann til að staldra við. „Já. Það munaði reyndar minnstu að ég færi vestur. Rafn heitinn Jónsson trommari og Rúnar Þórisson gítarleikari, lögðu hart að mér að koma til Ísafjarðar og taka sveitaballarúntinn með þeim eitt sumar. Eftir mikla umhugsun hafði ég vit á því að segja nei. Og handboltinn heltók mig eftir það.“ Læðir sér í einn og einn vindil Þarna er Gaupi um tvítugt og ef hann hefði látið slag standa er aldrei að vita hvort nokkuð hefði orðið af frama Helga Björns því Rafn og Rúnar voru forsprakkar hinnar fornfrægu hljómsveitar Grafík. Íþróttahreyfingin starfar undir kjörorðinu heilbrigð sál í hraustum líkama en það er nú ekki eins og þetta séu einhverjir englar. Maður hefur alveg heyrt svallsögur úr þeim ranni? „Ég held að flestar séu ýktar. En auðvitað var það viðtekin venja að fagna sigrum með léttu glasi. En ég lærði ekki að drekka í boltanum. Ég lærði það í Glaumbæ. Ólafur Laufdal var með bar þar í horninu og þar gat maður skrifað ef maður var að leika fyrir dansi. Kolbeinn Tumi fréttastjóri Vísis ræðir við Gaupa á kveðjustundinni. Tumi hóf sinn feril í fréttamennskunni á íþróttadeildinni. Gaupi hefur hins vegar aldrei haft neinn metnað fyrir því að færa sig yfir í almennar fréttir.vísir/Hulda Margrét Ég man nákvæmlega hvernig það var þegar ég keypti fyrsta glasið. Ég fór til Óla og sagði við hann, nú þarf ég að fá einn tvöfaldan hjá þér. Ólafur sem var yndislegur maður sagði við mig: Nú er það tvöfaldur sjénever í kók – í rauninni. Það er óhætt að drekka það. Og bætti við, í rauninni. Ég hef alltaf haft gaman af Ólafi því þetta „í rauninni“ notaði hann mikið og gerði líka, þegar hann talaði ensku.“ En þú hefur aldrei átt í neinum vandræðum með áfengið? „Svo ég vitni aftur í Ólaf, í rauninni ekki. Auðvitað gat maður á yngri árum tekið á því. En hin síðari ár, eftir að ég hóf að stunda líkamsrækt af miklum móð þá hef ég lifað meinlætalífi. En ég neita því ekki að stundum læðir maður sér í einn og einn vindil. Vissulega fær maður sér öðru hvoru lítið tár. En í dag er það ekki svo neinu nemi.“ Þú ert í toppformi? „Já, í dag er ég í mikið betra formi en þegar ég var fertugur. Fyrir 19 til 20 árum hóf ég að æfa fjórum til fimm sinnum í viku. Það var fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, Hilmar Björnsson, sem ýtti á eftir mér með það. Ég tók hann á orðinu. Hann var þá með Hreyfingu líkamsræktarstöð og þar hef ég verið síðustu ár. Sem hefur gert mér gott. Ekki bara líkamlega heldur einnig andlega. Það er ákveðinn lúxus á mínum aldri að vita það að ég kemst í sokkana á morgnana.“ Jarðarförinni frestað um óákveðinn tíma Þú varst samt minntur á það illyrmislega að þetta er takmarkaður tími sem okkur er ætlaður hér á jörðu? „Jájá, mikið rétt. Ég var hætt kominn 2015. Fékk þá heilablóðfall í ræktinni. Eftir á að hyggja held ég að ég hafi unnið yfir mig. Auðvitað var þetta mikið áfall en svo má kannski segja að aðdragandinn og eftirleikurinn hafi verið skondinn,“ segir Gaupi. Þannig var að Gaupi hafði verið í ræktinni og var að tala við Guðlaug Þór Þórðarson þáverandi utanríkisráðherra. „Um fjármál Liverpool. Ég held að þau hafi nú ekki orðið til þess að ég fékk áfallið. Ég gerði reyndar mistök. Ég var orðinn hálf undarlegur undir ræðu ráðherra. Ég þurfti að fara niður í bílakjallara og leita að bílnum mínum sem ég fann með lyklinum.“ Gaupi settist undir stýri, lagði af stað og keyrði sem leið lá út Grensásveg og upp Miklubraut þar sem hann keyrði utan í vegrið við Háaleitisbraut. Og leið út af. „Ég komst til meðvitundar þegar barið var í gluggann. Á vettvangi var þá Rúnar Geirmundsson útfararstjóri á líkbílnum. Ég sagði eitthvað á þá leið, við hann, þegar ég sá hver hann var: Mér þykir þú nú fullsnemma á ferð.“ Rúnar hringdi á á sjúkrabíl og laganna verði. Gaupi var fluttur á Borgarspítala þar sem hann lá í níu sólarhringa. Fyrir nokkrum árum fékk Gaupi heilablóðfall. Hann hafði þá verið að hlusta á ræðu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þáverandi utanríkisráðherra um fjármál Liverpool og var farið að líða eitthvað undarlega.vísir/Hulda Margrét „Svo var ég sex vikur á Grensásdeild, þar sem ég setti mér markmið: Að koma til baka eftir fjóra mánuði. Sem var galið en mér tókst það. Og ekki síst vegna frábærra vinnufélaga og yfirmanns á þeim tíma, Óskars Hrafns Þorvaldssonar, sem sýndi mér mikinn stuðning. Gaupi segir að það sem hann gerði, í kjölfar þess að hann hitti Rúdolf Arnar áfallafræðing í Kringlunni, hafa skipt sköpum. „Hann spurði mig hvernig ég hefði það? Ég bar mig vel. En hann sá strax að það var ekki allt með felldu. Ég var nýkominn af sjúkrahúsinu. Hann sagði einfaldlega við mig: Komdu til mín, þú þarft áfallahjálp. Þangað fór ég og í raun varð það lykilatriði í öllum batanum í framhaldinu. Þannig að útförinni hefur í það minnsta verið frestað og ég sá ekki ljósið eins og Hemmi Gunn, fyrrum vinur minn og félagi.“ Fer ekki í manngreinarálit Ekki bara þurfa menn að kunna að feta þrönga slóð í viðskiptum við umfjöllunarefnið í íþróttafréttamennskunni, sem er jarðsprengjusvæði eins og fram hefur komið; fjölmiðlabransinn í heild sinni er einhver sá óstöðugasti sem um getur. Þar er mikil starfsmannavelta en Gaupi hefur haldið sjó en mátt sjá á eftir ótal góðum samstarfsmönnum heltast úr lestinni af ýmsum ástæðum. Það hlýtur að hafa tekið á? „Jú, auðvitað. Það gerir það. Það er sárt á sjá á eftir mönnum sem maður hefur unnið með lengi. Tala nú ekki um þá sem eru reknir. Sem er svo algengt í okkar starfi. Það er í raun guðsgjöf að fá að eldast á skjánum og fyrir framan hljóðnemann. Gaupi og Erla Björg ritstjóri Vísis og Stöðvar 2. Hún sér nú á bak einum af sínum reynslumestu mönnum.vísir/Hulda Margrét Því miður er það þannig á Íslandi að það er ekki sjálfgefið, að það sé samþykkt. Þetta finnst mér miður því reynslan er svo hrikalega mikilvæg. Auðvitað gerir maður skissur og bombertur, en með þeim verður maður að lifa.“ Og Gaupi rifjar upp eina slíka hvað sig sjálfan varðar. „Til að mynda prófaði ég einu sinni að lýsa fullur. Auðvitað hafa margir komist upp með það í gegnum tíðina. Dagskrárstjóri minn á þeim tíma, Páll Baldvin Baldvinsson, einstakur drengur, tók mig duglega á teppið. Og lagði mér lífsreglurnar. Ég man hann sló á öxlina á mér þegar hann var búinn að lesa mér pistilinn: Hagaðu þér eins og maður því að ef þú gerir það þá geturðu verið eins lengi í þessu og þú vilt. Maður verður að passa sig á því í þessu starfi að missa sig ekki í gleðinni og vera of upptekinn af sjálfum sér. Maður verður að reyna að vera maður sjálfur og ekki láta starfið eða sviðsljósið trufla sig á einn eða annan hátt. Ég hef alltaf haft þá reglu, ég tala eins við þann sem skúrar og forstjórann. Ég geri þar engan greinarmun.“ Draumalið Gaupa Ekki verður um það deilt að fáir ef nokkrir eru eins vel að sér um þjóðaríþróttina og Gaupi. Það er því ekki hægt að sleppa tækifærinu og fá hann til að velja besta lið Íslandssögunnar, þá miðað við það þegar leikmenn voru upp á sitt besta þó að á ólíkum tímum sé. Og það er víst að val Gaupa kemur þeim á óvart sem hafa föndrað við að taka slíkt val saman í gegnum tíðina. Blaðamaður Vísis með Gaupa í fréttasettinu. Tækifærið var notað og þessi helsti handboltasérfræðingur þjóðarinnar fyrr og síðar var beðinn um að setja saman draumaliðið. Þeim dómi verður ekki áfrýjað, hér ræður innsæið, þekkingin og reynslan - valið er skothelt.vísir/vilhelm Vinstra horni: Guðjón Valur Sigurðsson Á línu: Þorgils Óttar Mathiesen. („Besti línumaður sögunnar.“) Vinstri skytta: Aron Pálmarsson Miðjan: Snorri Steinn Guðjónsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson. (En hvar er Geir? Geir var sjéní en mín tilfinning er sú að hann hefði til að mynda ekki komist í silfurlið Ól. 2008. Boltinn varð betri og sterkari með árunum.) Hægri skytta: Kristján Arason. („Besti alhliða handboltamaður sem Ísland hefur átt í vörn og sókn. Og í raun hneyksli að hann hafi aldrei verið kosinn íþróttamaður ársins. Ólafur Stefánsson er líka einn mesti snillingur sem við höfum átt.“) Hægra horn: Bjarki Sigurðsson. („Án vafa. Lilla trollgúbbann. Eins og Svíar kölluðu hann.“) Markmaður: Einar Þorvarðarson. („Ótrúlega góður markvörður, keppnismaður af guðs náð og sá maður sem næst kemst besta markverði Íslandssögunnar til þessa; Hjalta Einarssyni.) Handbolti Tímamót Fjölmiðlar Mest lesið Týndu vagni með jólamáltíðum sjúklinga á bráðamóttökunni Innlent Rúta rann yfir rangan vegarhelming út í móa Innlent Stuðningsmenn Assad drápu 14 ráðuneytisstarfsmenn Erlent Alvarlegt bílslys í Öræfum Innlent Grímuskylda á Landspítalanum Innlent Rólegt á aðfangadag en mikil aðsókn í viðtalstíma í desember Innlent Sæstrengur milli Eistlands og Finnlands rofinn Erlent Töldu að ævilöng vesælmennska biði „barnanna á mölinni“ Innlent Nokkrir látnir í alvarlegu rútuslysi í Noregi Erlent Gamla ríkið falt og milljónir fylgja Innlent Fleiri fréttir Sex voru fluttir með þyrlunni Gamla ríkið falt og milljónir fylgja Telja skemmdir í Bláfjöllum minniháttar Súðavíkurhlíð opin til 16 Alvarlegt bílslys í Öræfum Rólegt á aðfangadag en mikil aðsókn í viðtalstíma í desember Snjóflóð féllu á Súðavíkurhlíð Rúta rann yfir rangan vegarhelming út í móa Týndu vagni með jólamáltíðum sjúklinga á bráðamóttökunni Snjóflóð féll á Súðavíkurhlíð og rólegt í Kvennaathvarfinu Skógaskóli verður hótel Grímuskylda á Landspítalanum Búið að opna Hellisheiði og Holtavörðuheiði Strætó rann á bíl og ruslaskýli Töldu að ævilöng vesælmennska biði „barnanna á mölinni“ Jólakindin Djásn á Stokkseyri Standa vaktina á jóladag: „Þetta er bara eins og hina dagana“ Standa vaktina við lokunarpósta á jóladag Flugferðir hafnar að nýju í Keflavík Þak fauk nánast af hlöðu Fagna jólunum í Betlehem í skugga stríðs Hellisheiði og Þrengsli opna ekki fyrr en á morgun Aðeins ein flugvél lent í Keflavík í dag Útköll víða vegna óveðurs Erfiður tími þegar dóttirin kom út sem trans Gott að geta sagt „þú ert hjartanlega velkominn“ Appelsínugular viðvaranir og jólaboð hjá Hjálpræðishernum Á vaktinni við lokunarpósta alla jólanótt Tveir vörðu jólanótt í fangaklefa Gleðileg jól, kæru lesendur Sjá meira
Splæst hefur verið í viðtöl af minna tilefni og Vísir settist niður með Gaupa og fékk hann til að fara yfir sviðið, eða öllu heldur tæpa á nokkrum þáttum tilkomumikils ferils en Gaupi verður sjötugur eftir rúmt ár. Hann er kominn á eftirlaun og nákvæmlega engin ástæða til að liggja á skoðunum sínum. Eins og lesendur þessa viðtals eiga eftir að sannreyna. Samt, áður en lengra er haldið; af hverju ertu kallaður Gaupi? „Ég held að það hafi verið kona, eða stúlka sem heitir Guðrún, sem ég stríddi mikið á yngri árum, í uppvextinum í Básendanum sem kom því til leiðar að ég væri kallaður Gaupi. Þetta festist einhvern veginn við mig og í raun hefur það aldrei truflað mig neitt,“ segir Gaupi. Spurningin kemur honum á óvart og ljóst að hann hefur ekki velt þessu fyrir sér. Ekki lengi. Svo tamt er honum þetta gælunafn. „Það var reyndar annar Gaupi, garðyrkjumaður á Sogaveginum og okkur var stundum ruglað saman. Eitt sinn var ég að versla í Krónunni á Tunguvegi og þá kom til mín kona og sagði mér að garðurinn væri illa hirtur. En ég gat nú komið því yfir að ég hefði ekki haft neina aðkomu að garðinum hjá henni.“ Sérstaða íþróttafréttamennsku Íþróttafréttamennska er afar sérstakt starf. Þó það snúist í grunninn um að fjalla um íþróttaafrek og svo þykjustunni stríð þegar kappleikir eru annars vegar getur myndast gífurlegur hiti í kringum fyrirbærið eins og alþekkt er. Og þeir sem um er fjallað eru oft á tíðum algerlega sannfærðir um að þeir séu að gera svo góða og jákvæða hluti að umfjöllunin eigi að vera á þeirra forsendum og þeirra forsendum einum. Gaupi í Bylgjustúdíóinu. Helena Rakel Jóhannesdóttir stýrir þessari síðustu útsendingu Gaupa sem íþróttafréttamaður í hádegisfréttum Bylgjunnar af miklu öryggi.vísir/vilhelm Sem svo stangast óvart á við grundvallaratriði í öllum fréttaflutningi; trúnaðurinn hlýtur að vera við lesendur en ekki umfjöllunarefnið. En eins og allir íþróttafréttamenn þekkja virðist íþróttahreyfingin oftar en ekki telja þá vera sína þjóna en ekki lesenda. Hér þurfa menn því að sigla sínu skipi milli skips og báru, sem Gaupa hefur tekist nú í 32 ár, af mikilli lagni og staðfestu. En hvernig kemur það til að hann leggur þetta fyrir sig? „Eftir þrettán ár í handboltanum, með Víkingi, landsliðinu og sem starfsmaður HSÍ, fékk ég þá flugu í höfuðið á æfingamóti landsliðsins á Spáni að ég ætti líklega bara að snúa mér að íþróttafréttamennsku. Ég tók upp fyrir fararstjórana litla lýsingu inná band. Ísland/Austur-Þýskaland. Og lýsti í dágóða stund leik sem ekki var í gangi. Þeim þótti þetta bara býsna vel gert. Og sögðu við mig að ég væri algerlega á rangri hillu.“ Þegar þarna er komið sögu er Gaupi í kringum þrítugt. Þó þarna hafi verið um að ræða glens segir þetta sína söguna, að frami á þessu sviði hafi blundað í honum. „Svo kemur þetta eiginlega óvart í fangið á mér. Heimir Karlsson hafði samband við mig og spurði hvort ég hefði ekki áhuga á að lýsa handbolta á Bylgjunni.“ Íþróttalýsingar í útvarpi voru aðal málið Þetta var í þá daga að lýsingar af íþróttaviðburðum í útvarpi þóttu algerlega ómissandi. Nokkuð sem hefur lagst að mestu af eftir að beinar útsendingar frá íþróttaviðburðum í sjónvarpi urðu eins algengir og nú er. „Já, og svo átti ég að gera eitthvað fyrir Stöð 2. Heimir er þá yfirmaður íþróttadeildar Íslenska útvarpsfélagsins sem rak þá Stöð 2 og Bylgjuna. En á þessum tíma hafði ég líka verið að detta inn í eina og eina lýsingu á RÚV. Með meistara Bjarna Fel og fleiri góðum.“ Fjölskylda Gaupa mætti á fréttagólfið og fagnaði með honum starfslokunum.vísir/Hulda Margrét Gaupi segist hafa alist upp við það á sínum yngri árum að hlusta bergnuminn á íþróttalýsingar í útvarpi. „Maður hlustaði auðvitað á Hemma Gunn og Jón heitinn Ásgeirsson sem er einn besti handboltalýsandi sem Ísland hefur átt. Þetta drakk maður í sig. Og taldi sig jafnvel geta fetað í sömu spor.“ Þetta voru skemmtikraftar öðrum þræði, sem hefur verið spennandi? Já. Heillandi hilla. Í raun er útvarp skemmtilegri og betri miðill að þessu leytinu til en sjónvarp. Maður getur leyft sér meira. Og þú þarft að mála myndina fyrir þann sem er að hlusta. Þannig að leikurinn sé ljóslifandi fyrir hlustandendur. Reyndar ber að hafa það í hug að þetta getur verið vandasamt og á upphafsárunum reyndi maður líka að nota húmorinn, reyna að gera þetta eins skemmtilegt og hægt var. Einhvern tímann skrifaði minn fyrrum yfirmaður og vinur, Óskar Hrafn Þorvaldsson, grein í eitthvert blaðið og sagði að ég væri faðir fimmaursins í íþróttalýsingum. Ég veit nú ekki hvort það var rétt hjá honum, en tek fram, Óskar er yndislegur drengur.“ Litríkur Ingvi Hrafn ræður Gaupa til starfa Fljótlega eftir að Heimir hafði sett sig í samband við Gaupa og beðið hann um að taka að sér nokkrar lýsingar tilkynnti hann honum að verið væri að leita að afleysingarfréttamanni uppi á Stöð 2. „Já, og að Ingvi Hrafn Jónsson fréttastjóri vildi hafa tal af mér. Ég ákvað að drífa mig uppá Stöð, sem var þá uppi á Lynghálsi, og tala við Ingva því hann hafði skrifað afar merkilega grein um íslenska landsliðið í handbolta sem hét „Sex svartir dagar í Danmörku.“ Ég vildi gjarnan hitta kauða. Hann tók á móti mér í stuttbuxum, kaffibrúnn með Camel í hönd, filterslausan og sagði: Komdu Gaupi minn, ég hef ekki mikinn tíma en við verðum að taka spjallið.“ Félagar og samstarfsmenn til fjölda ára. Gaupi tók við Henrý Birgi blautum á bak við eyrun á sínum tíma og kenndi honum allt sem hann kann.vísir/Hulda Margrét Gaupi segir að Ingvi Hrafn hafi ekki haft neinar vöflur á. „Hann í raun réði mig á staðnum, sagði mér að koma daginn eftir, mæta í vinnuna hálf níu og sagði að ég fengi einhverjar tvær vikur til að kynna mér starfsemi stöðvarinnar og Bylgjunnar. Þegar ég kom daginn eftir tók hann á móti mér glaður í bragði, eins og ávallt, fór með mig inn í herbergi og sagði: Hér er stóllinn þinn, þetta er tölvan og nú getur þú farið að skrifa fréttir. Tekur eitthvað stutt í hádegið. Þá sagði ég, þarf ég ekki að vita eitthvað meira um þetta? Ingvi sagði strax: Nei, það er best að byrja strax og synda til lands. Þetta var ekki flóknara en þetta.“ Ingvi Hrafn ýtti honum óviðbúnum út í djúpu laugina Makalaust en einhvern veginn dæmigert fyrir íslenska fjölmiðlun. Mönnum er varpað út í djúpu laugina, með hvorki kork né kút og eiga bara að ná landi. „Þetta slapp til. Ég var tiltölulega fljótur að fóta mig í þessu. Og þetta gekk vel. En það runnu á mig tvær grímur að í lok sumars 1992 þegar Ingvi sagði: Gaupi, nú ætlum við að byrja á því að vera með fréttir á hverjum degi í sjónvarpi, á præm tæm.“ Gaupi segir að flestir sem til þekktu hafi á þeim tíma talið þetta óðs manns æði, íþróttaviðburðir á Íslandi stæðu engan veginn undir svo þéttri umfjöllun. Á hverjum einasta degi. En Ingvi Hrafn, lærður í Bandaríkjunum, vísaði til þess sem kjaftæðis. „Hann var sannfærður um að þetta væri framtíðin og við þyrftum að gera þetta. Íþróttafréttir höfðu til þess tíma verið á stangli í sjónvarpi. Þeim voru kannski gerð skil í 11 fréttum Ríkissjónvarpinu og í stöku fréttatímum ef eitthvað mikið var um að vera. Gaupi fer yfir punkta sína fyrir hádegisfréttir Bylgjunnar.vísir/vilhelm Það sem meira var, Ingvi hafði keypt rándýrt fréttasett frá Bandaríkjunum sem átti að taka í notkun í október og þá vildi hann að við værum tilbúnir í slaginn með þetta nýja slott í íslensku sjónvarpi.“ Gaupi minnist þess að Ingvi Hrafn hafi spurt sig hvernig hann vildi gera þetta og Gaupi svaraði eitthvað á þá leið að þeir ættu kannski að reyna að flytja fréttir af fólki sagðar af fólki. „Ingvi greip þetta á lofti og sagði einfaldlega: Þetta er brilliant!“ Sjálfhverfir íþróttaforkólfar Gaupi segir að svo hafi þetta byrjað og hann leynir því ekki að í fyrstu var þetta sigling á móti straumi. Þetta var nýjung. „Einfaldlega vegna þess að við vorum farnir að flytja fréttir af íþróttum, ekki bara þylja upp úrslit. Einhverjum í íþróttahreyfingunni varð hverft við og það verður að segjast að það var ekki alltaf þéttsetinn bekkurinn í klappliðinu. Gaupi með félögum sínum á íþróttadeildinni.vísir/Hulda Margrét Þetta kannski endurspeglar svolítið íþróttahreyfinguna. Af því að hreyfingin er sjálfhverf. Og íþróttamennirnir í sjálfu sér líka. Og á þessum tíma vildu þeir hafa stjórn á því hvað væri sagt og hvernig það væri gert en áttuðu sig ekki á því að það sem við vorum í raun að gera sem var að víkka út sjóndeildarhringinn og gera sportinu hærra undir höfði. En auðvitað með áherslum sem áður höfðu ekki þekkst.“ Þannig var þetta býsna strembið og erfitt á fyrstu árunum. „Og í raun átti maður í vök að verjast. En mínir yfirmenn á Stöðinni þeir í raun og veru hjálpuðu mér og okkur í gegnum þennan skafl. Einfaldlega vegna þess að þarna voru menn með gríðarlega mikla reynslu og þekkingu á fréttum og fréttaflutningi. Ég verð að nefna einn alveg sérstaklega sem er Eggert Skúlason. Hann hamraði á því við mig alveg frá fyrsta degi: Þú átt að búa þér til pláss og leggja áherslu á fréttirnar. Því ef þú gerir það, og nærð til fólks með þínum fréttum, þá muntu lifa. Og þá mun íþróttahreyfingin ekki hafa neitt um það að segja hvað þú starfar í þessu lengi.“ Heimir Már og Gaupi, samstarfsmenn til áratuga. vísir/vilhelm Gaupi segir þetta hafa verið laukrétt hjá sínum gamla kollega og að á sömu skoðun hafi náttúrlega verið frábært fólk, aðrir samstarfsmenn eins og Sigmundur Ernir Rúnarsson og Elín Hirst. „Elín var frábær fréttastjóri. Ekki síst fyrir okkur sem fjölluðum um íþróttir. Hún hafði engan sérstakan áhuga á íþróttum sjálf en hún skynjaði að fréttir af íþróttum væri eitthvað sem fólk vildi heyra. Og sjá.“ Vísdómsorð frá Ómari Gaupi segist hafa þegið góð ráð frá mörgum fagmönnum sem hann starfaði með þegar hann tók fyrstu skrefin á sviði fréttamennskunnar. „Já, þegar ég var búinn að lesa mína fyrstu frétt í sjónvarpi settist hjá mér Ómar Ragnarsson þulur í fréttum, horfði fast í augun á mér inni á skrifstofu og sagði mér að fá mér sæti. Og anda með nefinu. Mér brá svolítið. Hélt hann ætlaði að fara að skamma mig. En hann sagði einfaldlega við mig: Gaupi minn. Þetta var helvíti gott hjá þér. En gerðu ráð fyrir því að hver sem á þig horfir eða hlustar sé hálfviti. Ef þú gerir það, þá mun þér farnast vel. Seinna áttaði ég mig á því að það sem hann var að segja mér var einfaldlega þetta; vertu skarpur, en snarpur og talaðu einfalt mál. Ekki flækja hlutina.“ Fjölmiðlar eru náttúrlega ekki skúffuskáld? „Nei, auðvitað eru þeir það ekki. En í lok dagsins er þetta einfaldlega vinna sem menn verða að vanda sig við. Og gera eins og þeir best geta en þetta var svo slæmt á sínum tíma, hvernig menn létu, að til að mynda þegar við sömdum við körfuboltann á sínum tíma, um beinar útsendingar frá Íslandsmótinu. Þá vildi formaður körfuknattleikssambandsins á þeim tíma að ég yrði rekinn, einfaldlega vegna þess að ég kæmi úr handboltageiranum og gæti ekki á nokkurn hátt lýst körfubolta eða fjallað um hann.“ Endalaus afskiptasemi Gaupi segir að sá maður hafi verið sleginn niður með það erindi sitt af hans yfirmönnum. „Og auðvitað endaði þetta þannig að á næstu árum lýsti ég körfuboltanum með vini mínum Svala Björgvinssyni. Ég man ég tók hann fyrst með mér í lýsingu á bikarúrslitum í Laugardalshöll, Njarðvík-Keflavík. Ég sagði nokkrum yfirmönnum mínum hvern ég ætlaði að hafa með mér í þessa lýsingu. Einn samstarfsmaður minn sagði: Gaupa verður sárt saknað af fréttagólfinu. vísir/vilhelm Þú getur ekki tekið Svala með þér, veit hann eitthvað um körfubolta? En Svali, frá þeim degi, varð fastagestur á skjám landsmanna, sem einn sá besti í bransanum og er enn.“ Átök íþróttafréttamanna við íþróttahreyfinguna eru ætíð til staðar og á árum áður voru þau jafnvel harðari. „Því miður er það þannig að hver grein fyrir sig hefur skoðun á því hvernig eigi að fjalla um sig. Og tala nú ekki um hvernig eigi að lýsa leikjum. Hvernig eigi að flytja fréttir. Við hvern eigi að tala fyrir leik, eftir leik … þetta er algjörlega galið. Ég tók þann pól í hæðina í upphafi að vera ekki mikið að mingla við fólk í geiranum. Reyndi að halda fjarlægð þannig að ég gæti flutt fréttir á hlutlægan hátt.“ Þjóðin í taugaáfalli vegna HM á Íslandi Gaupi segir að auðvitað geti menn aldrei verið algerlega hlutlausir, í raun er ekkert til sem heitir algert hlutleysi. En þá kemur fagleg nálgun til skjalanna. „Og af því ég kem nú úr handboltahreyfingunni þá má nefna það að ég hef líklega ekki gagnrýnt neina íþrótt meira en mína eigin elskulegu íþrótt sem ég hef fylgst með á hverjum einasta degi í 45 ár.“ Og því til undirstrikunar rifjar Gaupi upp þegar hann og Stefán Jón Hafstein tóku að sér að fjalla um heimsmeistaramótið í handbolta sem fram fór á Íslandi 1995. Þeir sem eldri eru muna að landið var allt sett á annan endann vegna þess risaviðburðar sem var. Ýmsir kallaðir en fáir útvaldir í sérfræðingarabbið. Fáir hafa eins mikið vit á handbolta og Gaupi, og þannig er það bara.vísir/vilhelm „Stefán var gamall línumaður úr Ármanni. Ég var meira en til í þetta. Við ákváðum að búa til „HM í dag“. Tuttugu mínútur á hverjum degi í hálfan mánuð. Hvað vildum við gera? Jú, við vildum greina leikinn, upplýsa fólk hvað væri um að vera á vellinum, fórum í fjölda viðtala og greiningar, sem endaði nú með því að okkur var að hluta til kennt um ófarir íslenska liðsins á heimsmeistaramótinu. Fengum morðhótanir meðan á mótinu stóð, að við værum búnir að eyðileggja partíið.“ Margir farið fram á að Gaupi yrði rekinn Gríðarleg eftirvænting var fyrir mótið, Ísland var með sterkt lið sem þótti til alls líklegt á heimavelli. En svo fór að halla undan fæti. Og þá voru þeir sem voru búnir að stilla sér upp sem helstu sendiboðarnir, þeir Gaupi og Stefán Jón, í skotlínunni. Gaupi segir það rétt, væntingavísitalan hafi verið skrúfuð upp í hæstu hæðir, eins og oft vill verða, en svo varð magalending og þjóðin í taugaáfalli. Væntingarvísitalan hafði verið skrúfuð í botn þegar Íslendingar tefldu fram sterku liði á heimavelli, á HM í handbolta 1995. Þeim mun erfiðari varð skellurinn og má segja að þjóðin hafi verið í taugaáfalli lengi á eftir. Og sendiboðarnir fengu að finna fyrir því. Hér er stikkprufa úr fjölmiðlum frá þeim tíma, úr Morgunblaðiðnu 17. maí 1995 fengið að af tímarit.is. „Við Stefán vorum ákveðnir í því að reyna að segja hlutina eins og þeir voru, ekki sykurhúða frammistöðuna á neinn hátt. Auðvitað var þetta erfitt, ekki síst fyrir mig því þarna var ég að fjalla um vini mína. Sem varð til þess að ónefndir töluðu ekki við mig lengi vel á eftir. En þau sár voru fljót að gróa þegar menn kannski áttuðu sig á því að við vorum einfaldlega að segja fréttir af því sem full þörf var á. Hjálpa fólki að skilja leikinn.“ En íþróttahreyfingin hefur ekki litið sömu augum á þetta? „Nei, langur vegur frá. Formaður knattspyrnusambandsins á árum áður, mikill meistari, Eggert Magnússon, fann okkur á stundum allt til foráttu og fannst við óvægnir á köflum. Sem við kannski vorum að einhverju leyti. En við vorum aldrei ósanngjarnir hvað þá rætnir. Við gáfum okkur ekki þrátt fyrir fjölda símtala til okkar yfirmanna um það að nú skyldum við haga okkur. Eggert hins vegar, þegar leið á, áttaði sig á því að hvert við vorum að fara. Jafnvel þó hann væri ekki alltaf sammála okkur. Ég man að eitt sinn þurfti ég að taka viðtal við hann vegna ráðningar landsliðsþjálfara og hann var staddur í kokteilboði á vegum FIFA eða UFA. Hann var frekar fúll í símann og ekki sáttur. En við lukum samtalinu á góðum nótum, og ég man að ég lauk viðtalinu á þá leið að segja einfaldlega: Þakka þér fyrir Eggert, skál í boðinu. Eftir þetta viðtal urðum við miklir mátar.“ Brautryðjendur í íþróttaumfjöllun Í aðdraganda heimsmeistaramótsins á Íslandi, þessu fræga, fluttu Gaupi og Stefán ásamt öðrum fréttamönnum stöðvarinnar, fjölmargar fréttir af undirbúningnum. „Forystumenn HSÍ og þáverandi formaður, Ólafur B. Schram, eðaldrengur, komu eitt sinn uppá stöð í aðdraganda mótsins, sótillir og vildu einfaldlega að við sem værum að flytja þessar fréttir yrðum reknir á staðnum. En þáverandi fréttastjóri, Elín Hirst, sem ég hef miklar mætur á eins og áður sagði, tilkynnti okkur eftir viðskipti sín við Ólaf: Strákar, ég er ánægð með ykkur. Margoft hafa forkólfar í íþróttahreyfingunni lagt lykkju á leið sína, sent erindi til yfirmanna Stöðvar 2 og Bylgjunnar og farið fram á að Gaupi verði rekinn með skít og skömm.vísir/vilhelm Munið bara að standa í lappirnar og gefa ekki tommu eftir. Og það var það sem við gerðum. Eftir mótið held ég að menn hafi á endanum verið sáttir með okkur. Það vantaði ekkert uppá að umfjöllun hér heima um mótið væri góð og fyrsta flokks. Það var einungis frammistaðan á vellinum sem brást. En umgjörðin var eins góð og hægt var að hafa hana, miðað við þær aðstæður sem boðið var uppá.“ Gaupi segir að þessi þáttagerð hafi brotið blað. Og eftir þetta fóru aðrir að fylgja í þessi sömu fótspor. „Fóru sömu leið og við höfðum gert. Og sama átti við um fréttirnar því í desember 1992 byrjaði Ríkissjónvarpið með fréttir af íþróttum á præm tæm, eins og við höfðum gert. Og í raun var það nákvæmlega eins upp sett og hafði verið hjá okkur. Og kannski það sem meira er, svo maður leyfi sér að slá sér eilítið á brjóst, að eftir heimsmeistaramótið á Íslandi 1995, þá fór þáttagerð um slíka viðburði í nákvæmlega sömu átt og við Stefán lögðum upp með á heimsmeistaramótinu ´95.“ Stálu nammi frá Frömmurum Ef við vendum okkar kvæði í kross, hvaðan kemur Gaupi? „Úr Bústaðahverfinu. Þar sem ég fékk handbolta á heilann. Ég held ég hafi verið sjö til átta ára gamall þegar ég byrjaði að fara á leiki í Hálogalandi. Ég var algjörlega heillaður af íþróttinni. Gekk innan úr Básenda að Hálogalandi í öllum veðrum og sá alla leiki. Svo var komið að dyraverðirnir, sem síðar meir urðu miklir vinir mínir, vorkenndu þessum litla snáða svo mikið þegar hann kom á leikina að ég fékk að fara frítt inn.“ Og í kringum Hálogalandið og á leikjum þar kynntist Gaupi mörgum góðum mönnum. „Já, Tolla Morthens, bróður hans Bubba, Friðriki Þór Friðrikssyni leikstjóra en sem unglingar stunduðum við Friðrik það að brjótast inn í íþróttasvæði Fram við Sjómannaskólann, ná okkur í coca-cola í kæli og fá okkur prins póló. Þetta var allt í boði Fram … en að sjálfsögðu vorum við að stela. Það er ekkert hægt að fegra það. Friðrik Þór minntist á þetta við mig þegar ég hitti hann á Akureyri á síðasta ári. Ég var búinn að gleyma þessu. Hann sagði; Gaupi, veistu, þetta var algjör snilld hjá okkur.“ Hetjurnar í Hálogalandi Bústaðahverfið er Víkingshverfi og þar liggja ræturnar hjá þessum helsta handboltasérfræðingi þjóðarinnar og þó víðar væri leitað. „Já, ég byrjaði ungur að stunda handbolta. Og fannst ótrúlega gaman en ég var nú frekar búttaður á þessum árum. En var samt býsna seigur. Skildi leikinn og drakk hann í mig. Og ég varð snemma eiginlega handboltanörd.“ Minnstu munaði að Gaupi færi í tónlistarbransann en honum bauðst að fara sveitaballahring með Grafík á sínum tíma.vísir/hulda margrét Gaupi spilaði fyrir utan, á miðjunni og var með upp alla yngri flokkana. Með Víkingum. „Við unnum alltaf annað árið. Hitt árið vann FH. Þá voru þar menn eins og Gunnar Einarsson, Guðmundur Árni, Sæmundur Stefánsson og gott ef ekki var Hörður Sigmarsson … þessa drengi þjálfaði guðfaðir handboltans í Hafnarfirði, Hallsteinn Hinriksson, sem var einstakur.“ En hetjurnar sem Gaupi leit upp til sem strákur eins og hálfguðir væru spiluðu í Hálogalandi. „Já, ég man glöggt eftir kempum sem spiluðu á Hálogalandi; Árna í Sambíónum til að mynda sem var línumaður í Ármanni, Ingólfi Óskarssyni (Fram), Erni Hallsteinssyni (FH), Bigga Björns (FH), Sigurði Einarssyni (Fram) og svo má ekki gleyma Ragnari Jónssyni (FH) sem ég held að hafi verið einn sá besti. Kannski ekki betri en Geir Hallsteinsson því Geir var sjení. En sá sem ég hreifst mest af var Gunnlaugur Hjálmarsson eða Labbi, sem spilaði með ÍR og Fram. Hann varð síðar fyrstur Íslendinga til að vera valinn í heimsliðið í handbolta.“ Handboltinn Íslendingum í blóð borinn Þú hefur kannski haft meiri áhuga á leiknum sem slíkum en að spila hann sjálfur? „Já, það er laukrétt. Ég hef alltaf verið sannfærður um það alveg frá fyrstu tíð að þetta væri sú íþrótt sem við Íslendingar gætum mátað okkur við þá bestu. Og það hefur reynst rétt. Árni Indriðason, gamall vinur minn úr Víkingi og sagnfræðingur, sagði mér eitt sinn: Gaupi; það er ekkert skrítið að við Íslendingar séum góðir í handbolta. Við erum með þetta í blóðinu. Í kveðjuhófi Gaupa á fréttagólfinu voru vitaskuld sagðar nokkrar gamansögur af meistaranum sem nú kveður með stæl.vísir/hulda margrét Ég stóð hvumsa, horfði á hann og spurði hvað hann hefði fyrir sér í því? Í árdaga, höfðum við engin vopn til að verja okkur með, við köstuðum grjóti. Svei mér þá. Ég held að þetta sé rétt.“ Eins og Gaupi segir sjálfur, hann var algerlega með handbolta á heilanum, nánast frá fyrstu tíð. Og því einhvern veginn sjálfgefið að hann tæki að sér þjálfun. „Ég byrjaði 1975 að þjálfa. Þá yngri flokka Víkings. Þar fékk ég í hendurnar gutta sem síðar urðu á meðal bestu leikmanna Íslands. Goðsagnir. Auðvitað skorti mig þekkingu á þessum tíma en þegar Bogdan Kowalczyk kemur til Íslands 1979 þá fékk ég hugljómun. Að þarna væri kominn maður sem hefði eitthvað fram að færa fyrir okkur Íslendinga sem síðar varð raunin. Magnaður karakter.“ Heragi Bogdans Já, það hefur verið mikið verið rætt og ritað um þennan afar sérstaka þjálfara frá Póllandi. „Ég byrjaði óvart sem hægri hönd Bogdans. Ég keyrði hann heim af fyrstu æfingunni sem var í KR-heimilinu. Við skildum ekki hvor annan. Hann talaði bara þýsku. En eftir þessa bílferð þá losnaði ég ekki við manninn. Og við vorum meira og minna saman í 13 ár hjá Víkingi og svo landsliðinu. Og ég get sagt þér það að starfa með honum þennan tíma er á við háskólanám.“ Bogdan (lengst til vinstri) og Gaupi (lengst til hægri) með gríðarlega sterku liði Víkinga. Hér fagna þeir Íslandsmeistaratitli árið 1982 en lið þeirra árið 1980 var um árið valið besta karlalið Íslandssögunnar í samantektarþáttum hjá RÚV.Víkingur Hvað var það sem hann leggur til sem er svona sérstakt? „Í fyrsta lagi þurftu menn að æfa meira. Menn voru í raun og veru komnir í herinn. Og það er svo magnað að þegar maður horfir á crossfit æfingar dagsins í dag þá eru þetta nákvæmlega sömu æfingar og foringinn frá Póllandi kom með. En hann var líka afburða snjall í leikfræðinni. Varnarleikurinn var kannski hans helsta vandamál. En hann hafði skýra sýn, hvað hann vildi gera, hvert hann vildi fara. Hann sagði mér að hann væri ekki að þjálfa til að eignast vini. Hann væri í þessu til að ná árangri.“ Og það er ekki úr vegi að segja að bylting í íslenskum handbolta hefjist þarna hjá Víkingunum undir stjórn Bogdans. „Þarna var góður grunnur, frábærir leikmenn á borð við Árna Indriðason, Ólaf Jónsson, Þorberg heimsfræga Aðalsteinsson, Viggó Sigurðsson og Kristján Sigmundsson og auðvitað gullmolinn Páll Björgvinsson. Síðan bættust í hópinn leikmenn eins og Guðmundur Guðmundsson, Sigurður Gunnarsson og Karl Þráinsson. Og örlítið síðar Bjarki Sigursson.“ Snorri Steinn afsprengi Bogdan-skólans Þetta voru að einhverju leyti drengir sem Gaupi sjálfur hafði þjálfað í yngri flokkunum. „Og þessi kjarni myndaði lið sem var ósigrandi. Við töpuðum ekki leik í á annað ár. Fyrsti leikurinn sem þetta lið tapaði, eftir því sem ég man best, var gegn ÍR í Laugardalshöll. Ég man að það var þungt í mínum manni þegar við gengum til búningsklefa. Það var dauðaþögn í klefanum. Nema Ólafur Jónsson kom síðastur inn í klefa, horfði yfir hópinn og sagði, þegar mátti heyra saumnál detta: Gaupi fer ekki í grafgötur með það að líf hans breyttist þegar Bogdan kom til landsins. Það kom í hans hlut að keyra hinn pólska þjálfara heim eftir fyrstu æfingu og eftir það losnaði hann ekki við kallinn.vísir/hulda margrét Strákar, við töpuðum leik! Hópurinn sprakk úr hlátri en Bogdan þreif í mig og sagði: Nú förum við út. Þetta eru algjörir vitleysingjar.“ Þetta var vissulega svakalegt lið Víkinga sem svo myndaði kjarnann í landsliðinu. „Sem verður síðar kosið lið allra tíma á Íslandi. Sem ég held að sé rétt og satt. Auðvitað hafa önnur lið náð svipuðum hæðum; Valur og FH. Og eina liðið hin síðari ár sem stenst samanburð er lið Vals síðastliðin fjögur til fimm árin. Það er kannski liðið eins og Víkingur var. Sem hefur breytt leiknum.“ Enda sonur þinn Snorri Steinn Guðjónsson þar þjálfari? „Já, ég segi nú stundum í gríni að hann sé síðasta afsprengi Bogdans-skólans. Hvers vegna? Jú, hann byrjaði að mæta á æfingar með mér hjá landsliðinu fimm ára gamall og þar held ég að hann hafi drukkið þetta í sig. Hann var algjörlega til friðs á æfingunum, mætti með nesti, sagði ekki eitt einasta orð en horfði á allar æfingar og undir lokin þá var hann farinn að leika sér með bolta eftir æfingar. Og ég segi nú stundum að það var enginn með betri mætingu á landsliðsæfingar en hann.“ Draumurinn rætist – sonurinn orðinn landsliðsþjálfari Snorri Steinn er nýlega tekinn við sem landsliðsþjálfari. Má ekki segja að draumurinn hafi ræst þá, það hlýtur að hafa glatt gamla manninn? „Jújú mikil ósköp. En auðvitað veit ég sem er að nú er hann kominn í gin ljónsins. Og þarf að ná árangri. Ég hef fulla trú á að hann geri það. Hann var á sínum tíma frábær leikmaður, í hlutverki leikstjórnanda, þekkir þennan heim vel, út og inn, en auðvitað mun hann reka sig á veggi. Það er óhjákvæmilegt. En ég geri nákvæmlega sömu kröfur til hans og annarra landsliðsþjálfara síðustu ára, að gera betur en áður hefur verið gert. Það er viðmiðið og það er ekki hægt að flýja það á einn eða annan hátt.“ Og andi Bogdans svífur enn yfir vötnum. Bogdan var ekki alveg allra, svo það sé nú orðað mjög pent? „Nei, mikið rétt. Hann var fastur fyrir. Þverhaus par exelance. En ótrúlegur fagmaður. Ég held að það hafi litað skapgerðina að hann fæðist í lok stríðsins og í Varsjá á þeim tíma þurftu menn, börn og unglingar, að stela sér til matar. Og auðvitað var hann alinn upp í hernum í Póllandi, og ég held að það hafi markað skapgerðina. Óhjákvæmilega. En hann var húmoristi…“ Nei, hættu nú alveg? „Jú, bráðskemmtilegur maður og var oftar en ekki léttur í lund. Hann fór kannski vel með það. Hann gerði miklar kröfur til sjálfs sín og fannst óeðlilegt að menn væru ekki á sömu blaðsíðu og hann þegar að kröfum og aga kom.“ Hefði drepið Gaupa ef spáin hefði ekki ræst Eruð þið í sambandi enn þann dag í dag? „Já, ég hef heyrt í honum öðru hvoru. Hann býr í Varsjá. Ég hef aldrei hitt mann á ævinni sem er jafn fluglæs á leikinn og Bogdan. Nema ef vera skyldi Guðmundur Guðmundsson. Þeir eru nánast steyptir í sama mótið en auðvitað hefur Guðmundur á síðustu árum uppfært sig. En hann, nákvæmlega eins og sá gamli, er bara ekki allra. En það tel ég nú frekar kost en galla fyrir landsliðsþjálfara því um leið og leikmenn finna veikleikamerki hjá foringjunum þá er voðinn vís. Ekki síst í dag á tímum samfélagsmiðla.“ Gaupi er húmoristi, og það sem meira er, hann hefur húmor fyrir Bogdan. Sem kom sér oft vel. „Árið 1986, á heimsmeistaramótinu í Sviss, höfðum við tapað fyrsta leiknum á móti Suður-Kóreu í Genf. Ég var fenginn til að deila út 60 hamborgurum á liðið, sem svo enginn hafði lyst á nema ég og kallinn. Við vissum að framundan voru tveir leikir uppá líf og dauða, gegn Tékkum og Rúmenum, sem urðu að vinnast. Við unnum Tékka í frábærum leik og í aðdraganda leiksins gegn Rúmeníu sagði hann við mig í hádeginu: Í kvöld verðum við reknir. Af því að ég held við eigum ekki mikla möguleika. Þá sagði ég við hann: Við vinnum leikinn með tveimur mörkum, ég er algerlega sannfærður.“ Bogdan horfði í augu Gaupa og svipur hans var óræður. Þó var eins og von hafi kviknað í grjóthörðum pólskum augunum. „Hann tók mig með uppá herbergi, fór inn í ísskápinn sem þar var, hellti vodka í glas og setti smáræði af salti út í. Hann stakk úr glasinu og við náðum að sofna í aðdraganda leiks. Miðdegislúr. Og svo var komið að leiknum. Þetta var svakalegur leikur og við auðvitað unnum með tveimur mörkum. 25- 23. Eftir leikinn sagði hann við mig: Þú ert makalaus, þú varst með þetta rétt. En þú veist, Gaupi, ef þú hefðir haft rangt fyrir þér, þá hefði ég drepið þig.“ Munaði litlu að hann færi að túra með Grafík Eins og af ofangreindu má ráða hefur handboltinn verið alpha og omega í lífi Gaupa. Blaðamanni datt í hug að slá upp spurningunni: Who is Guðjón Guðmundsson? í gervigreindarforrit og þetta var svarið: According to the web search results, **Guðjón Guðmundsson** is a **well-known sports journalist** who has worked for many years in the field²³. He is also known as **Gaupi**²³. He was also a **team manager and assistant** of Bogdan Kowalczyk for **Víkingur** and the **Icelandic national handball team**²³. He himself played handball with Víkingur but quit when he reached the master class². He also had a **singer and band career** in his youth and early adulthood, singing with several bands, especially in the early 1980s². Some of the bands he sang with are **Jeremías**, **Námsfúsa Fjóla**, and **Ernir**². Rifjast þá upp að á góðum stundum á Gaupi það til að rífa í míkrófóninn og syngja rokkslagara eins og hann hafi aldrei gert annað. Hann er þekktur fyrir að syngja Elvis-slagara nánast óaðfinnanlega, jafnvel á pari við Bó. Þú reyndir fyrir þér í poppinu á þínum yngri árum. Hvernig kom það til? „Jájá,“ segir Gaupi. „Við höfðum stofnað litla skólahljómsveit í Réttarholtsskóla. Jeremías. Sem var býsna góð sveit. Þar var ég söngvari. Við náðum að spila á öllum helstu öldurhúsum borgarinnar, ekki með aldur. Glaumbæ, Silfurtunglinu, Tjarnarbúð og Sigtúni. Og náðum nokkrum sveitaböllum og rútubílafylleríi.“ Og Gaupi var í einum tveimur hljómsveitum til viðbótar, eins og gervigreindin var með á hreinu. „Fyrir ungling hafði maður ótrúlega mikið uppúr þessu. Góðan vasapening. Og gott betur. En á tvítugsaldri hafði handboltinn tekið völdin hjá mér. Gaupi var kvaddur með látum enda vinsæll með afbrigðum meðal samstarfsmanna sinna.vísir/hulda margrét Auðvitað var mögulegt að halda áfram í poppinu, en þarna á þessum tíma voru menn farnir að hlaða í jónur, sem var reyndar saklaust fikt, en ég fann mig hins vegar ekki nægilega vel í því. Og valdi handboltann, sem var líklega hárrétt ákvörðun.“ En þó valið hafi ekki verið flókið fyrir Gaupa hvað það varðaði kom upp staða sem fékk hann til að staldra við. „Já. Það munaði reyndar minnstu að ég færi vestur. Rafn heitinn Jónsson trommari og Rúnar Þórisson gítarleikari, lögðu hart að mér að koma til Ísafjarðar og taka sveitaballarúntinn með þeim eitt sumar. Eftir mikla umhugsun hafði ég vit á því að segja nei. Og handboltinn heltók mig eftir það.“ Læðir sér í einn og einn vindil Þarna er Gaupi um tvítugt og ef hann hefði látið slag standa er aldrei að vita hvort nokkuð hefði orðið af frama Helga Björns því Rafn og Rúnar voru forsprakkar hinnar fornfrægu hljómsveitar Grafík. Íþróttahreyfingin starfar undir kjörorðinu heilbrigð sál í hraustum líkama en það er nú ekki eins og þetta séu einhverjir englar. Maður hefur alveg heyrt svallsögur úr þeim ranni? „Ég held að flestar séu ýktar. En auðvitað var það viðtekin venja að fagna sigrum með léttu glasi. En ég lærði ekki að drekka í boltanum. Ég lærði það í Glaumbæ. Ólafur Laufdal var með bar þar í horninu og þar gat maður skrifað ef maður var að leika fyrir dansi. Kolbeinn Tumi fréttastjóri Vísis ræðir við Gaupa á kveðjustundinni. Tumi hóf sinn feril í fréttamennskunni á íþróttadeildinni. Gaupi hefur hins vegar aldrei haft neinn metnað fyrir því að færa sig yfir í almennar fréttir.vísir/Hulda Margrét Ég man nákvæmlega hvernig það var þegar ég keypti fyrsta glasið. Ég fór til Óla og sagði við hann, nú þarf ég að fá einn tvöfaldan hjá þér. Ólafur sem var yndislegur maður sagði við mig: Nú er það tvöfaldur sjénever í kók – í rauninni. Það er óhætt að drekka það. Og bætti við, í rauninni. Ég hef alltaf haft gaman af Ólafi því þetta „í rauninni“ notaði hann mikið og gerði líka, þegar hann talaði ensku.“ En þú hefur aldrei átt í neinum vandræðum með áfengið? „Svo ég vitni aftur í Ólaf, í rauninni ekki. Auðvitað gat maður á yngri árum tekið á því. En hin síðari ár, eftir að ég hóf að stunda líkamsrækt af miklum móð þá hef ég lifað meinlætalífi. En ég neita því ekki að stundum læðir maður sér í einn og einn vindil. Vissulega fær maður sér öðru hvoru lítið tár. En í dag er það ekki svo neinu nemi.“ Þú ert í toppformi? „Já, í dag er ég í mikið betra formi en þegar ég var fertugur. Fyrir 19 til 20 árum hóf ég að æfa fjórum til fimm sinnum í viku. Það var fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, Hilmar Björnsson, sem ýtti á eftir mér með það. Ég tók hann á orðinu. Hann var þá með Hreyfingu líkamsræktarstöð og þar hef ég verið síðustu ár. Sem hefur gert mér gott. Ekki bara líkamlega heldur einnig andlega. Það er ákveðinn lúxus á mínum aldri að vita það að ég kemst í sokkana á morgnana.“ Jarðarförinni frestað um óákveðinn tíma Þú varst samt minntur á það illyrmislega að þetta er takmarkaður tími sem okkur er ætlaður hér á jörðu? „Jájá, mikið rétt. Ég var hætt kominn 2015. Fékk þá heilablóðfall í ræktinni. Eftir á að hyggja held ég að ég hafi unnið yfir mig. Auðvitað var þetta mikið áfall en svo má kannski segja að aðdragandinn og eftirleikurinn hafi verið skondinn,“ segir Gaupi. Þannig var að Gaupi hafði verið í ræktinni og var að tala við Guðlaug Þór Þórðarson þáverandi utanríkisráðherra. „Um fjármál Liverpool. Ég held að þau hafi nú ekki orðið til þess að ég fékk áfallið. Ég gerði reyndar mistök. Ég var orðinn hálf undarlegur undir ræðu ráðherra. Ég þurfti að fara niður í bílakjallara og leita að bílnum mínum sem ég fann með lyklinum.“ Gaupi settist undir stýri, lagði af stað og keyrði sem leið lá út Grensásveg og upp Miklubraut þar sem hann keyrði utan í vegrið við Háaleitisbraut. Og leið út af. „Ég komst til meðvitundar þegar barið var í gluggann. Á vettvangi var þá Rúnar Geirmundsson útfararstjóri á líkbílnum. Ég sagði eitthvað á þá leið, við hann, þegar ég sá hver hann var: Mér þykir þú nú fullsnemma á ferð.“ Rúnar hringdi á á sjúkrabíl og laganna verði. Gaupi var fluttur á Borgarspítala þar sem hann lá í níu sólarhringa. Fyrir nokkrum árum fékk Gaupi heilablóðfall. Hann hafði þá verið að hlusta á ræðu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þáverandi utanríkisráðherra um fjármál Liverpool og var farið að líða eitthvað undarlega.vísir/Hulda Margrét „Svo var ég sex vikur á Grensásdeild, þar sem ég setti mér markmið: Að koma til baka eftir fjóra mánuði. Sem var galið en mér tókst það. Og ekki síst vegna frábærra vinnufélaga og yfirmanns á þeim tíma, Óskars Hrafns Þorvaldssonar, sem sýndi mér mikinn stuðning. Gaupi segir að það sem hann gerði, í kjölfar þess að hann hitti Rúdolf Arnar áfallafræðing í Kringlunni, hafa skipt sköpum. „Hann spurði mig hvernig ég hefði það? Ég bar mig vel. En hann sá strax að það var ekki allt með felldu. Ég var nýkominn af sjúkrahúsinu. Hann sagði einfaldlega við mig: Komdu til mín, þú þarft áfallahjálp. Þangað fór ég og í raun varð það lykilatriði í öllum batanum í framhaldinu. Þannig að útförinni hefur í það minnsta verið frestað og ég sá ekki ljósið eins og Hemmi Gunn, fyrrum vinur minn og félagi.“ Fer ekki í manngreinarálit Ekki bara þurfa menn að kunna að feta þrönga slóð í viðskiptum við umfjöllunarefnið í íþróttafréttamennskunni, sem er jarðsprengjusvæði eins og fram hefur komið; fjölmiðlabransinn í heild sinni er einhver sá óstöðugasti sem um getur. Þar er mikil starfsmannavelta en Gaupi hefur haldið sjó en mátt sjá á eftir ótal góðum samstarfsmönnum heltast úr lestinni af ýmsum ástæðum. Það hlýtur að hafa tekið á? „Jú, auðvitað. Það gerir það. Það er sárt á sjá á eftir mönnum sem maður hefur unnið með lengi. Tala nú ekki um þá sem eru reknir. Sem er svo algengt í okkar starfi. Það er í raun guðsgjöf að fá að eldast á skjánum og fyrir framan hljóðnemann. Gaupi og Erla Björg ritstjóri Vísis og Stöðvar 2. Hún sér nú á bak einum af sínum reynslumestu mönnum.vísir/Hulda Margrét Því miður er það þannig á Íslandi að það er ekki sjálfgefið, að það sé samþykkt. Þetta finnst mér miður því reynslan er svo hrikalega mikilvæg. Auðvitað gerir maður skissur og bombertur, en með þeim verður maður að lifa.“ Og Gaupi rifjar upp eina slíka hvað sig sjálfan varðar. „Til að mynda prófaði ég einu sinni að lýsa fullur. Auðvitað hafa margir komist upp með það í gegnum tíðina. Dagskrárstjóri minn á þeim tíma, Páll Baldvin Baldvinsson, einstakur drengur, tók mig duglega á teppið. Og lagði mér lífsreglurnar. Ég man hann sló á öxlina á mér þegar hann var búinn að lesa mér pistilinn: Hagaðu þér eins og maður því að ef þú gerir það þá geturðu verið eins lengi í þessu og þú vilt. Maður verður að passa sig á því í þessu starfi að missa sig ekki í gleðinni og vera of upptekinn af sjálfum sér. Maður verður að reyna að vera maður sjálfur og ekki láta starfið eða sviðsljósið trufla sig á einn eða annan hátt. Ég hef alltaf haft þá reglu, ég tala eins við þann sem skúrar og forstjórann. Ég geri þar engan greinarmun.“ Draumalið Gaupa Ekki verður um það deilt að fáir ef nokkrir eru eins vel að sér um þjóðaríþróttina og Gaupi. Það er því ekki hægt að sleppa tækifærinu og fá hann til að velja besta lið Íslandssögunnar, þá miðað við það þegar leikmenn voru upp á sitt besta þó að á ólíkum tímum sé. Og það er víst að val Gaupa kemur þeim á óvart sem hafa föndrað við að taka slíkt val saman í gegnum tíðina. Blaðamaður Vísis með Gaupa í fréttasettinu. Tækifærið var notað og þessi helsti handboltasérfræðingur þjóðarinnar fyrr og síðar var beðinn um að setja saman draumaliðið. Þeim dómi verður ekki áfrýjað, hér ræður innsæið, þekkingin og reynslan - valið er skothelt.vísir/vilhelm Vinstra horni: Guðjón Valur Sigurðsson Á línu: Þorgils Óttar Mathiesen. („Besti línumaður sögunnar.“) Vinstri skytta: Aron Pálmarsson Miðjan: Snorri Steinn Guðjónsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson. (En hvar er Geir? Geir var sjéní en mín tilfinning er sú að hann hefði til að mynda ekki komist í silfurlið Ól. 2008. Boltinn varð betri og sterkari með árunum.) Hægri skytta: Kristján Arason. („Besti alhliða handboltamaður sem Ísland hefur átt í vörn og sókn. Og í raun hneyksli að hann hafi aldrei verið kosinn íþróttamaður ársins. Ólafur Stefánsson er líka einn mesti snillingur sem við höfum átt.“) Hægra horn: Bjarki Sigurðsson. („Án vafa. Lilla trollgúbbann. Eins og Svíar kölluðu hann.“) Markmaður: Einar Þorvarðarson. („Ótrúlega góður markvörður, keppnismaður af guðs náð og sá maður sem næst kemst besta markverði Íslandssögunnar til þessa; Hjalta Einarssyni.)
According to the web search results, **Guðjón Guðmundsson** is a **well-known sports journalist** who has worked for many years in the field²³. He is also known as **Gaupi**²³. He was also a **team manager and assistant** of Bogdan Kowalczyk for **Víkingur** and the **Icelandic national handball team**²³. He himself played handball with Víkingur but quit when he reached the master class². He also had a **singer and band career** in his youth and early adulthood, singing with several bands, especially in the early 1980s². Some of the bands he sang with are **Jeremías**, **Námsfúsa Fjóla**, and **Ernir**².
Handbolti Tímamót Fjölmiðlar Mest lesið Týndu vagni með jólamáltíðum sjúklinga á bráðamóttökunni Innlent Rúta rann yfir rangan vegarhelming út í móa Innlent Stuðningsmenn Assad drápu 14 ráðuneytisstarfsmenn Erlent Alvarlegt bílslys í Öræfum Innlent Grímuskylda á Landspítalanum Innlent Rólegt á aðfangadag en mikil aðsókn í viðtalstíma í desember Innlent Sæstrengur milli Eistlands og Finnlands rofinn Erlent Töldu að ævilöng vesælmennska biði „barnanna á mölinni“ Innlent Nokkrir látnir í alvarlegu rútuslysi í Noregi Erlent Gamla ríkið falt og milljónir fylgja Innlent Fleiri fréttir Sex voru fluttir með þyrlunni Gamla ríkið falt og milljónir fylgja Telja skemmdir í Bláfjöllum minniháttar Súðavíkurhlíð opin til 16 Alvarlegt bílslys í Öræfum Rólegt á aðfangadag en mikil aðsókn í viðtalstíma í desember Snjóflóð féllu á Súðavíkurhlíð Rúta rann yfir rangan vegarhelming út í móa Týndu vagni með jólamáltíðum sjúklinga á bráðamóttökunni Snjóflóð féll á Súðavíkurhlíð og rólegt í Kvennaathvarfinu Skógaskóli verður hótel Grímuskylda á Landspítalanum Búið að opna Hellisheiði og Holtavörðuheiði Strætó rann á bíl og ruslaskýli Töldu að ævilöng vesælmennska biði „barnanna á mölinni“ Jólakindin Djásn á Stokkseyri Standa vaktina á jóladag: „Þetta er bara eins og hina dagana“ Standa vaktina við lokunarpósta á jóladag Flugferðir hafnar að nýju í Keflavík Þak fauk nánast af hlöðu Fagna jólunum í Betlehem í skugga stríðs Hellisheiði og Þrengsli opna ekki fyrr en á morgun Aðeins ein flugvél lent í Keflavík í dag Útköll víða vegna óveðurs Erfiður tími þegar dóttirin kom út sem trans Gott að geta sagt „þú ert hjartanlega velkominn“ Appelsínugular viðvaranir og jólaboð hjá Hjálpræðishernum Á vaktinni við lokunarpósta alla jólanótt Tveir vörðu jólanótt í fangaklefa Gleðileg jól, kæru lesendur Sjá meira