Fótbolti

Rúnar Þór lagði upp þegar Östers fór upp í annað sætið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Alex Þór í leik með Östers.
Alex Þór í leik með Östers. Twitter-síða Östers

Rúnar Þór Sigurgeirsson og Alex Þór Hauksson voru báðir í byrjunarliði Östers þegar liðið vann góðan 3-2 sigur á Jönköping í sænska boltanum í dag.

Fyrir leikinn í dag voru Östers og Jönköping Södra jöfn að stigum í 4. - 5. sæti Superettan sem er næstefsta deild Svíþjóðar. Næði annað liðið í þrjú stig kæmist það upp í annað sætið og væri fjórum stigum á eftir toppliði Utsiktens BK.

Gestirnir í Östers byrjuðu betur í dag. Rúnar Þór Sigurgeirsson tók þá innkast en fékk boltann strax aftur. Hann átti góða fyrirgjöf inn í teiginn sem endaði beint á kollinum á Jesper Westermark sem skallaði í netið.

Heimamenn jöfnuðu á 51. mínútu en skömmu áður hafði Östers misnotað vítaspyrnu. Östers var þó ekki lengi að ná forystunni á ný. Hornspyrna Rúnars Þórs endaði hjá Ahmed Bannah sem þrumaði boltanum í stöngina og inn. Staðan orðin 2-1 fyrir Östers.

Robin Book jafnaði hins vegar metin í 2-2 á 66. mínútu en sjö mínútum síðar skoraði Alexander Berntsson sigurmark Östers. Lokatölur 3-2 og Östers nú í öðru sæti deildarinnar en tvö efstu liðin fara beint upp í efstu deild.

Alex Þór og Rúnar Þór léku báðir allan leikinn í dag fyrir Östers. Srdjan Tufegdzig er þjálfari Östers en hann þjálfaði meðal annars KA og Grindavík í efstu deild hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×