Einar Þorsteinn er 21 árs gamall og hefur hann verið á mála hjá Fredericia í rúmt eitt ár núna.
„Einar er mjög efnilegur leikmaður og stundar íþróttina af mikilli samviskusemi og á nú ekki langt að sækja það,“ segir Guðmundur, þjálfari Einars í samtali við Vísi. „Hann hefur klárlega hæfileika og er á hárréttum stað í sínu þroskaferli sem leikmaður. “
Danska deildin sé mjög krefjandi deild hafi Einar því verið að koma inn í mjög erfiðar aðstæður í upphafi síns atvinnumannaferils.
„Hér er að finna mjög líkamlega sterka leikmenn, taktískt séð eru þeir einnig mjög sterkir og búa yfir miklum hraða og þá er enginn auðveldur leikur í þessari deild.“
Einar hafi þó tekið miklum framförum í þessum aðstæðum.
„Til að byrja með var þetta ekki einfalt fyrir hann en núna hefur Einar sýnt það og sannað að hann er að verða betri og betri.“
Eigi að henda frasanum „Einar komst ekki á blað“
Að sögn Guðmundar hefur Einar stóru hlutverki að gegna í liði Frederica.
„Það þarf að breyta einum frasa á Íslandi, það er frasinn „Einar komst ekki á blað“ þar sem er svo látið við sitja sökum þess að Einar hefur ekki verið að skora mikið af mörkum.
Hann er hins vegar að spila mjög stórt hlutverk hjá okkur varnarlega og er því svo sannarlega á blaði og menn verða að átta sig á því að hann er, eins og staðan er núna, fyrst og fremst varnarmaður í liðinu þó svo að hann keyri einnig upp hraðaupphlaupin.“
Einar eigi bara eftir að þroskast meira eftir því sem líður á og verða betri.
„Hann á framtíðina fyrir sér í þessu, alveg klárlega.“
Guðmundur þjálfaði Ólaf Stefánsson, föður Einars og goðsögn í handboltaheiminum, lengi vel hjá íslenska landsliðinu. Hann segir Einar klárlega hafa tekið í gagnið takta frá föður sínum inn á völlinn.
„Hann hefur mjög góðan skilning á handbolta og er alltaf á fullu, æfir mjög vel og er samviskusamur. Með því verður hann bara betri og betri leikmaður en það mun taka tíma fyrir hann að ná enn lengra. Þetta er ferli og Einar er enn ungur.“