Fótbolti

Sjáðu frábært mark Arons í sigri Sirius

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron Bjarnason skoraði fyrir Sirius.
Aron Bjarnason skoraði fyrir Sirius. Sirius

Aron Bjarnason var á skotskónum hjá Sirius sem vann góðan heimasigur á Värnamo í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Þá komu tveir Íslendingar við sögu í toppslag.

Fyrir leikinn í dag var Sirius með átta stig í 13. sæti deildarinnar og aðeins eitt stig niður til stórliðsins IFK Gautaborg sem situr í umspilssæti um fall og AIK sem er í fallsæti. Värnamo var fjórum stigum á undan Sirius og því um mikilvægan leik að ræða.

Aron kom Sirius í forystu á 31.mínútu þegar hann skoraði eftir sendingu Andre Alsnati. Sirius spilaði úr hornspyrnu og Aron fékk boltann við vítateigslínuna, lagði hann fyrir sig og þrumaði í netið. Glæsilegt mark og heimaliðið komið yfir.

Tashreeq Matthews tvöfaldaði forystu Sirius úr vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks og hvorugu liðinu tókst að bæta við mörkum í síðari hálfleiknum. Lokatölur 2-0 fyrir Sirius og mikilvægur heimasigur í höfn.

Hákon Rafn Valdimarsson og Sveinn Aron Guðjohnsen voru báðir í byrjunarliðinu hjá toppliði Elfsborg sem mætti Djurgården í toppslag. Djurgården var í fjórða sæti fyrir leikinn og þurfti sigur til að nálgast toppinn enn frekar.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Johan Larsson Elfsborg yfir strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks. Victor Edvardsen jafnaði á 73. mínútu eftir skógarferð Hákons Rafns. 

Lokatölur 1-1 og lék Hákon Rafn allan leikinn í marki Elfsborg en Sveinn Aron fór af velli á 88. mínútu.

Elfsborg er enn í efsta sætinu, einu stigi á undan Malmö FF sem á leik til góða á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×