Fótbolti

„Dagurinn sem ég geng í raðir besta knatt­spyrnu­fé­lags í sögu leiksins“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jude Bellingham var kynntur til leiks hjá Real Madrid í dag.
Jude Bellingham var kynntur til leiks hjá Real Madrid í dag. Florencia Tan Jun/Getty Images

Jude Bellingham var í dag kynntur til leiks sem nýr leikmaður spænska stórveldisins Real Madrid.

Eins og greint var frá hér á Vísi í gær staðfesti Real Madrid það sem lengi hafði legið í loftinu. Englendingurinn Jude Bellingham, einn eftirsóttasti ungi leikmaður heims, er genginn í raðir félagsins frá Borussia Dortmund.

Eins og venjan er hjá Real Madrid var Bellingham formlega kynntur til leiks á Santiago Bernabéu, heimavelli Madrídinga, í dag.

„Ég vil byrja á því að þakka öllum þeim sem eru mættir og öllum þeim sem fylgjast með á netinu fyrir að fylgja mér í gegnum stoltasta dag lífs míns. Daginn sem ég geng í raðir besta knattspyrnufélags í sögu leiksins,“ sagði Bellingham á blaðamannafundi eftir kynninguna.

„Það eru ekki margir leikmenn sem fá tækifæri til að spila með jafn mögnuðu félagi, jafn sögufrægu félagi, þannig að ég er virkilega þakklátur,“ bætti Bellingham við.

Peningar ekki ástæðan og fær fimmuna hans Zidane

Englendingurinn segir einnig að það hafi ekki verið peningar sem lokkuðu hann til Real Madrid.

„Peningar eru ekki það sem heillar mig. Ég hugsa nákvæmlega ekkert um peninga þegar ég tek þessar ákvarðanir. Ég hef aldrei gert það og mun aldrei gera það. Ég spila leikinn einfaldlega af því ég elska það.“

Þá mun Bellingham klæðast tryju númer fimm hjá Real Madrid og segir hann að það sé gert af virðingu við fyrrverandi leikmann og þjálfara liðsins, Zinedine Zidane.

„Ég geri það af virðingu við leikmann sem ég horfði upp til þegar ég var að alast upp. Hann var magnaður leikmaður, sá besti, en ég er að reyna að feta mína eigin leið og framlengja arfleifð tölunnar frekar en að reyna að fylgja honum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×