Innlent

Fótbrotin kona sótt að gosstöðvum við Fagrafell

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Mynd af vettvangi þar sem verið er að færa konuna úr buggy-bíl yfir í björgunarsveitarbíl.
Mynd af vettvangi þar sem verið er að færa konuna úr buggy-bíl yfir í björgunarsveitarbíl. Aðsent

Síðdegis í dag var björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík kölluð út vegna konu sem hafði dottið og fótbrotnað á gönguleiðinni að gosstöðvunum við Fagrafell. Vegna langs biðtíma eftir þyrlu var konan ferjuð niður af fjallinu á óvenjulegan máta.

Konan var hluti af hópi fólks sem var á leið að gosstöðvunum og varð slysið á svokölluðum Stórhól. 

Lögregla, sjúkraflutningafólk og björgunarsveitarfólk fór upp göngustíginn til að hlúa að konunni og undirbúa flutning. Ástand hennar var metið svo að einfaldast væri að fá þyrlu til flutnings, en þyrla Landhelgisgæslunnar var þá stödd á Ísafirði og ljóst að um tveggja tíma bið yrði eftir henni.

Konan var verkjastillt, búið var um hana í börum og hún síðan flutt með buggy-bíl niður af fjalli, til móts við björgunarsveitarbíl. Þaðan var hún flutt yfir í björgunarsveitarbíl sem fór með hana niður að þeim stað sem sjúkrabíll hafði komist á. Hún var svo flutt á sjúkrahús með sjúkrabíl.

Aðgerðum lauk um hálf sjö í kvöld, tveimur klukkustundum eftir að útkall barst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×