Fótbolti

Leikmaður Fulham handtekinn fyrir að hóta eiginkonu sinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Issa Diop var handtekinn í heimalandi sínu.
Issa Diop var handtekinn í heimalandi sínu. John Walton/PA Images via Getty Images

Franski knattspyrnumaðurinn Issa Diop, leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Fulham, hefur verið handtekinn í heimalandi sínu, grunaður um að hóta eiginkonu sinni.

Hinn 26 ára gamli Diop og eiginkona hans standa í skilnaði um þessar mundir, en leikmaðurinn er sagður hafa hótað henni í fjölskyldufríi í Senegal.

Eiginkona hans tilkynnti atvikið til lögreglu í síðustu viku, en lögreglan í Toulouse í Frakklandi þurfti að bíða þangað til í dag með að handtaka leikmanninn sem býr í London.

Fram kemur í umfjöllun The Athletic um málið að Diop sé nú í varðhaldi á lögreglustöð í Toulouse. Diop ólst upp í Toulouse og lék með liðinu til ársins 2018 þegar hann færði sig yfir til West Ham í ensku úrvalsdeildinni. Hann gekk í raðir Fulham síðasta sumar.

„Okkur er kunnugt um þær fréttir sem bárust frá Frakklandi í morgun varðandi leikmann okkar, Issa Diop,“ sagði talsmaður Fulham eftir að fréttirnar bárust.

„Við erum í sambandi við fulltrúa leikmannsins til að fá allar staðreyndir á hreint.“

Miðvörðurinn Issa Diop gekk í raðir Fulham síðasta sumar eins og áður segir og lék 25 leiki fyrir félagið í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×