Mörg af stærstu nöfnum knattspyrnuheimsins hafa verið orðuð við félög í sádiarabísku deildinni. Nú þegar hafa leikmenn á borð við Cristiano Ronaldo, Karim Benzema og N'Golo Kante gengið til liðs við lið þar í landi og á tímabili var Lionel Messi orðaður við deildina.
Vissulega eru þetta leikmenn sem eru að nálgast seinni hluta ferilsins, en nú eru menn á besta aldri farnir að birtast í umræðunni um að elta seðilinn til Sádi-Arabíu. Ruben Neves, leikmaður Wolves, Thomas Partey, leikmaður Arsenal, og Chelsea mennirnir Hakim Ziyech, Kalidou Koulibaly og Edouard Mendy þykja líklegir til að yfirgefa ensku úrvalsdeildina á komandi dögum og ganga til liðs við félag í Sádi-Arabíu.
Í síðasta mánuði keypti PIF, opinber fjárfestingarsjóður Sádi-Arabíu, fjögur stærstu knattspyrnulið landsins: Al-Ahli, Al-Ittihad, Al-Hilal og Al-Nassr. PIF er einnig eigandi enska úrvalsdeildarfélagsins Newcastle United og óvíst er hvort sjóðurinn eigi stóran hlut í Clearlake Capital, eignarfélagi Chelsea.
Eftir að hafa nánast gengið berserksgang í undanförnum tveimur félagsskiptagluggum og keypt ógrynni af leikmönnum stendur Chelsea nú í ströngu við að losa leikmenn frá félaginu, marga þeirra til sádiarabískra félaga í eigu PIF.
Eðlilega vekur athæfi sem þetta upp ýmsar spurningar og Gary Neville er einn þeirra sem efast um ágæti þess að losa leikmenn í bunkum til moldríkra félaga sem mögulega eiga hlut í þínu eigin eignarfélagi.
„Enska úrvalsdeildin ætti að setja tafarlaust viðskiptabann á félagsskipti til Sádi-Arabíu til að tryggja það að ekki sé verið að skaða heilindi leiksins,“ sagði Neville í samtali við BBC Sport.
„Það ætti að gera skoðun á því hvort þessi viðskipti séu við hæfi. Ef þau standast þá skoðun ætti svo að sjálfsögðu að opna fyrir félagsskiptin á ný.“
„En á þessari stundu tel ég hins vegar að stöðva ætti félagsskiptin þar til búið er að skoða eignarhaldið hjá Chelsea og hvort félagið sé að hagnast á félagsskiptum á óviðeigandi hátt.“