Ísland sker sig úr á mörgum sviðum í samanburði við önnur Evrópuríki samkvæmt upplýsingum sem Hagstofan birti í dag. Þannig var landsframleiðsla á mann á Íslandi í fyrra 28% meiri en í Evrópusambandinu.
Einstaklingsbundin neyslan á Íslandi er líka mun meiri eða sem nemur 22% meiri en í Evrópusambandinu. Í þessu samhengi má nefna að í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunar, OECD, um stöðu efnahagsmála á Íslandi sem birt var í fyrradag, kemur fram að hvergi í heiminum væru fleiri ferðamenn á hvern íbua en hér. Það kemur einnig fram í neyslunni.

Verðbólga hefur verið svipað mikil í flestum ríkjum Evrópu og hér á landi undanfarin misseri. Engu að síður var verð á mat og drykk hvorki meira né minna en 42% hærra á Íslandi en að jafnaði í Evrópusambandinu árið 2022.
Aðeins í Noregi og Sviss var verðlag á matar- og drykkjarvörum hærra en hér á síðasta ári. Í Noregi var það 46 prósentum hærra en að jafnaði innan Evrópusambandins og 63 prósentum hærra í Sviss.
Á hinum Norðurlöndunum var verð á matar- og drykkjarvörum einnig hærra en í Evrópusambandsríkjunum en ekkert í líking við það sem munurinn er á Íslandi. Í Danmörku er verðlagið 21 prósenti hærra en 14 prósentum hærra í Finnlandi og Svíþjóð.