KSÍ fagnar 80 ára afmæli þann 26. mars 2027 og standa vonir til þess að Ísland verði gestgjafi ársþings UEFA í tengslum við stórafmælið.
Stjórn KSÍ samþykkti á fundi fyrr í þessum mánuði að sækja um að ársþingið færi fram hér á landi og í fundargerð kemur fram að áætlaður kostnaður KSÍ sé lítill. Það yrði hins vegar mikill heiður og viðurkenning fyrir KSÍ að fá svo stóran viðburð hingað til lands.
Fjórða hvert ár er kosið um formann UEFA og var Slóveninn Aleksander Ceferin einmitt endurkjörinn til fjögurra ára í vor, í Lissabon. Því er mögulegt að nýr formaður verði kjörinn á Íslandi 2027.
Ceferin tók fyst við árið 2016 þegar Frakkinn Michel Platini varð að segja af sér eftir dóm fyrir að þiggja greiðslur frá Sepp Blatter, fyrrverandi forseta FIFA.
Ákveðið hefur verið að næsta ársþing UEFA fari fram í Madrid í febrúar næstkomandi en þingin fara vanalega fram í febrúar, mars, apríl eða maí.