Höllin er nefnd í höfuðið á Max Schmeling, frægasta hnefaleikakappa Þjóðverja. Hún er þriðja stærsta íþróttahöll Berlín á eftir Mercedes Benz höllinni og Velodrom.
Max Schmeling höllin var opnuð 1996 og var heimavöllur körfuboltaliðsins Alba Berlin í tólf ár. Martin Hermannsson lék við góðan orðstír með Alba Berlin fyrir nokkrum árum.
![](https://www.visir.is/i/687FB92A51ED8143F6BCC9F27D1AF5C07324D7A0DE0F64149BC41A4CFEFE94AD_713x0.jpg)
Frá 2005 hefur Max Schmeling höllin verið heimavöllur Füchse Berlin, eins sterkasta handboltaliðs Þýskalands. Dagur Sigurðsson þjálfaði liðið á árunum 2009-15 og gerði það að þýskum bikarmeisturum 2014 auk þess sem það vann Evrópudeildina 2015.
Max Schmeling höllin getur mest tekið tólf þúsund áhorfendur á handboltaleikjum. Allt að fjögur þúsund manns gætu verið á undanúrslitaleikjunum á HM U-21 árs í dag.
Nokkur fjöldi Íslendinga er í Berlín og hefur verið á leikjum liðsins á mótinu til þessa. Talið er að tæplega hundrað Íslendingar gætu verið á leikjunum um helgina.
Leikur Íslands og Ungverjalands hefst klukkan 13:30 að íslenskum tíma og verður í beinni textalýsingu á Vísi.