Öll spjót standa á Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsókn um þessar mundir. Þar spila helst inn í þrjú mál; hvalveiðimálið, Íslandsbankamálið og Lindarhvolsmálið. Margir hafa jafnvel fullyrt að ríkisstjórnarsamstarfið rambi á barmi falls.
Þau Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, og Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, ræddu málin í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
Gríðarlega athygli vakti í síðustu viku þegar Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, ritaði harðorða grein í Morgunblaðið um ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að fresta hvalveiðum út sumarið.
Hann sagði ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að ákvörðun Svandísar að fresta hvalveiðum væri „bein ögrun“ við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Þessum ummælum hefur Svandís vísað til föðurhúsanna og sagt þau fyrst og fremst til heimabrúks. Þetta telja þau Þórhildur og Bergþór til marks um misklíð á stjórnarheimilinu.
Svandís sýni Óla Birni vanvirðingu
„Vanvirðingin sem matvælaráðherra sýnir þingflokksformanni stærsta stjórnarflokksins í þessu máli, með því hvernig hún talaði um grein Óla Björns, það er mjög eftirtektarvert. Og það í rauninni segir bara það, að þegar Óli Björn segir í Sprengisandi í morgun að tvær til þrjár vikur í þinginu myndu ekki duga til að leysa málið, það þýðir auðvitað bara það að ríkisstjórnin er sprungin,“ sagði Bergþór.
„Hún hefur rétt fyrir sér,“ sagði Þórhildur og vísaði þar til Svandísar
Nefndir þingsins þurfi að fara í saumana á Lindarhvolsmálinu
Þórhildur Sunna ákvað upp á eigin spýtur að birta greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda í Lindahvolsmálinu, eftir að hafa fengið hana í pósthólf sitt á Alþingi.
Hún segir nauðsynlegt að þing verði kallað saman til þess að nefndir þingsins geti farið almennilega í sauma á málinu. Í greinargerðinni segir að pottur hafi víða verið brotinn þegar Lindarhvoll seldi svokallaðar stöðugleikaeignir þingsins.
„Hvers vegna er svona mikið misræmi? Hver var valdurinn af allri þessari leyndarhyggju í öll þessi ár? Nú erum við með þetta allt fyrir opnum tjöldum og getum þá rætt þetta vonandi af einhverjum vitrænum hætti, frekar en þessi sirkus sem við vorum óviljugir þátttakendur í fram að þessu.“