Fótbolti

David Beck­ham til­búinn að taka til hendinni hjá Manchester United

Jón Már Ferro skrifar
David Beckham hefur gert frábæra hluti sem eigandi Inter Miami. Meðal annars hefur hann fengið Lionel Messi til félagsins.
David Beckham hefur gert frábæra hluti sem eigandi Inter Miami. Meðal annars hefur hann fengið Lionel Messi til félagsins. vísir/Getty Images

Ein allra mesta goðsögnin í sögu Manchester United og meðeigandi í Inter Miami segist tilbúin til að koma að rekstri United en telur að Glazier fjölskyldan þurfi að fara. Þetta kemur fram í viðtali á The Athletic.

„Um leið og þú ert ekki lengur með stuðningsmennina á bak við þig, sérstaklega hjá félagi eins og Manchester United, er erfitt að vinna þá aftur á þitt band,“ segir David Beckham.

„Augljóslega hefur Glazier fjölskyldan gert margt, sérstaklega ef horft er til hve mikið félagið yrði selt á í dag. Þrátt fyrir það er þörf á breytingum. Það sjá það allir og það vita það allir,“ segir Beckham.

Frá því að Sir Alex Ferguson yfirgaf félagið árið 2013 hefur félagið ekki riðið feitum hesti í ensku úrvalsdeildinni. Stuðningsmenn félagsins sætta sig ekki við neitt annað en það allra besta.

„Þetta hafa ekki verið frábærir tímar fyrir Manchester United, innan sem utan vallar. En Erik ten Hag hefur hresst upp á hlutina. Hann hefur tekið erfiðar ákvarðarnir en gert það á eins góðan hátt og mögulegt er. Á þann hátt að stuðningsmennirnir hafa bakkað hann upp,“ segir Beckaham.

Erik ten Hag var ráðinn stjóri United á síðasta ári og hefur meðal annars látið Cristiano Ronaldo fara frá félaginu á eftirminnilegan hátt.

„Sem fyrrum leikmaður þá vil ég að eigendaskiptin verði gerð sem allra fyrst. Þú vilt að sá sem stjórnar félaginu sé ástríðufullur, taki réttar ákvarðanir, komi inn með réttu leikmennina og fjárfesti í félaginu,“ segir Beckham.

„Félagið þarfnast endurbætur, hvort sem það er á æfingarsvæðinu eða leikvanginum. Það er nauðsynlegt að taka stórar ákvarðanir. Sérstaklega þegar þú sérð hvað Manchester City hefur verið að gera. Þetta snýst ekki bara um að vinna. Þú getur séð að City er að byggja til framtíðar, ekki bara frá tímabili til tímabils,“ segir Beckham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×