Samkvæmt Veðurstofunni ganga lægðir á færibandi til austurs langt fyrir sunnan Ísland og þess vegna er veður mjög rólegt hér á landi.
Á vef Veðurstofunnar segir að lítið sem ekkert hafi sést til eldgossins á Reykjanesi í nótt vegna þoku á gosstöðvunum. Hins vegar ætti að hækka undir skýin þegar líður á daginn.
Þegar þetta er skrifað hefur ekkert sést til gossins á vefmyndavélum á svæðinu. Þær má finna hér að neðan. Uppfært: Nánast um leið og þessi frétt var birt, byrjaði að rofa til á gosstöðvunum.
Sjá einnig: Allar vefmyndavélarnar á einum stað
Engar lægðir við landið
Þegar kemur að veðrinu í dag, spáir Veðurstofan norðlægri eða breytilegri átt á bilinu þrír til átta metrar á sekúndu. Skýjað að mestu og sums staðar skúrir, sérstaklega síðdegis. Þokuloft við norður- og austurströndina, þar sem áfram á að vera skýjað á morgun.
Bjartviðri um landið suðvestanvert og hiti átta til sautján stig.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag:
Norðlæg átt 3-8 m/s. Skýjað að mestu norðan- og austanlands og sums staðar dálítil væta, hiti 8 til 13 stig. Bjartviðri suðvestantil á landinu með hita að 18 stigum.
Á fimmtudag:
Fremur hæg vestlæg eða breytileg átt og stöku skúrir, en þurrt að kalla austanlands. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á Suðausturlandi.
Á föstudag:
Suðlæg eða breytileg átt og lítilsháttar væta, en þurrt norðaustanlands. Hiti 8 til 15 stig.
Á laugardag:
Austlæg átt og víða líkur á skúrum, en yfirleitt þurrt norðanlands. Hiti breytist lítið.
Á sunnudag:
Norðlæg eða breytileg átt. Dálítil rigning af og til á norðaustanverðu landinu, en skúrir sunnan heiða. Hiti frá 7 stigum við norðausturströndina, upp í 15 stig á Vesturlandi.
Á mánudag (frídagur verslunarmanna):
Norðvestanátt með rigningu og svölu veðri á norðanverðu landinu, en þurrt að kalla og mildara sunnanlands.