Það kom Gabby að eigin sögn á óvart að eignast kærustu. Hún segir að enginn hafi búist við því. „Ekki einu sinni ég,“ segir hún í spjallþættinum The View þar sem hún greindi fyrst frá sambandinu. Kærasta Gabby heitir Robby Hoffman og er handritshöfundur og grínisti.
„Ég var að reyna að láta sambandið virka eftir Bachelorette,“ segir Gabby einnig í þættinum. Hún sagði já þegar Erich Schwer bað hana um að trúlofast sér í raunveruleikaþættinum. Þau enduðu þó á því að hætta saman í nóvember síðastliðnum.
Gabby segir að það hafi verið eins og einhver væri að hvísla að henni hvað hún ætti að gera. Hún hafi þó ekki vitað hvernig hún ætti að bregðast við því. „Þegar svona gerist þá er smá skömm, augljóslega, í kringum þetta.“
Hún segir að fyrst hafi hún pælt í skömminni en að að lokum hafi hún ákveðið að vera bara hún sjálf og finna út úr því seinna. „Ég er stolt.“
Eftir að Gabby opinberaði sambandið í spjallþættinum birti hún mynd af sér og kærustu sinni á samfélagsmiðlinum Instagram. Færslan hefur vakið töluverða athygli og hefur hamingjuóskum rignt yfir parið.