„Okkur tekst ekki að finna nein lyf sem virka en það er mikilvægt að halda í vonina,“ segir Claudette Dion, systir kanadísku söngkonunnar, í samtali við Le Journal de Montréal. Claudette segir þá að önnur systir þeirra, Linda Dion, búi nú hjá Céline.
Um er að ræða ólæknandi sjálfsofnæmissjúkdóm sem á ensku kallast stiff person syndrome. Sjúkdómurinn leiðir til þrálátra vöðvakrampa en hann hefur áhrif á allt taugakerfið og leiðir til þess að vöðvarnir verði stífir.
Céline neyddist til að aflýsa öllum tónleikum sínum vegna sjúkdómsins sem hún er með. Alls frestaði söngkonan tuttugu og fjórum tónleikum sem allir áttu að fara fram í Evrópu. Claudette segir að systir sín þurfi á hvíld að halda.