Víkingur vann 4-1 sigur á KR í undanúrslitaleik í Víkinni sem var fjórði sigur liðsins í undanúrslitum á fimm árum.
Markatala Víkingsliðsins í þessum fjórum undanúrslitaleikjum er 13-2.
Auk sigursins á KR í gærkvöldi þá vann Víkingur 3-0 sigur á Breiðabliki í undanúrslitaleiknum í fyrra, 3-0 sigur á Vestra í undanúrslitaleiknum 2021 og svo 3-1 sigur á Blikum í undanúrslitaleiknum 2019.
Bikarkeppnin var ekki kláruð sumarið 2020 vegna kórónuveirunnar en þá voru Valur, KR, ÍBV og FH komin í undanúrslitin. Víkingar duttu út það sumar í sextán liða úrslitum á móti Stjörnunni.
Ari Sigurpálsson skoraði tvö síðustu mörk Víkinga í sigrinum í gær en áður höfðu þeir Aron Elís Þrándarson og Erlingur Agnarsson komið Víkingsliðinu í 2-0 á fyrstu tuttugu mínútunum.
Í fyrra þá skoraði Erlingur tvö mörk í sigrinum á Blikum en þriðja markið skoraði Karl Friðleifur Gunnarsson. Öll mörk Víkingsliðsins í þeim leik komu á fyrstu tuttugu mínútunum.
Sumarið 2021 þá vann Víkingur 3-0 sigur á Vestra í leik sem fór fram á KR-vellinum vegna slæmra vallaraðstæðna fyrir vestan. Kristall Máni Ingason skoraði öll þrjú mörk Víkingsliðsins í leiknum.
Sumarið 2019 þá vann Víkingur 3-1 sigur á Blikum í undanúrslitunum en þá skoruðu þeir Óttar Magnús Karlsson, Nikolaj Hansen og Guðmundur Andri Tryggvason mörk liðsins eftir að Blikarnir komust yfir í 1-0.
- Markatala liða í undanúrslitum Bikarsins 2019-2023:
- +11 Víkingur (13-2)
- +3 FH (5-2)
- +2 ÍA (2-0)
- -1 KA (3-4)
- -2 Keflavík (0-2)
- -3 Vestri (0-3)
- -5 Breiðablik (3-8)
- -5 KR (2-7)