„Ég er þeirrar skoðunar að það sé gott að taka samtal, ekki síst um erfið og þung mál sem þetta mál vissulega er,“ sagði ráðherrann í ávarpi sínu sem horfa má á í heild sinni hér fyrir neðan.
Hann sagði augljóst að framkvæmd nýrra laga væri miklum vandkvæðum háð. Það hefði ekki verið vilji Alþingis að fólk lenti á götunni þegar ný lög um flóttafólk voru samþykkt í vor.
Svaraði spurningum úr sal
Guðmundur svaraði þá nokkrum spurningum sem beint var til hans á fundinum. Hann sagðist vera sammála því sem komið hefði fram á fundinum um að málsmeðferðartími væri of langur.
Þá nefndi Guðmundur spurningu til sín um það hvort stjórnvöld væru að stefna að því að koma upp lokuðu búsetuúrræði hér á landi fyrir fólk í ólögmætri dvöl sem einhverra hluta vegna kemst ekki úr landi.
„Það sem ég hef heyrt af þessu í umræðunni og rætt við dómsmálaráðherra, þá eru þetta hugmyndir sem koma frá henni sem stjórnmálamanni og hún verður að bera ábyrgð á þeim hugmyndum sínum sjálf.“

Guðmundur sagði þetta vera eitthvað sem oft hefði verið í umræðunni áður. Sú leið hafi hins vegar ekki verið farin í þeirri löggjöf sem samþykkt var á Alþingi í vor.
„Og ég myndi almennt segja að í þessum málum þurfi að koma fram hugmyndir og lausnir sem eru færar samkvæmt þeim lögum sem við störfum eftir í dag og ef það er farið að ræða um einhverjar breytingar á slíku, þá verða þær breytingar að vera settar fram með þeim hætti að það sé hægt að fara með þær í gegnum Alþingi og samþykkja þær og ég get bara einfaldlega ekki svarað því, vegna þess að ég veit ekki nákvæmlega hvernig dómsmálaráðherrann okkar hugsar þetta.“
Hann sagði Guðrúnu hafa sett slíkar hugmyndir fram. Hún væri í fullum rétti til þess.
„En ég er líka í fullum rétti til þess að segja að ég set stórt spurningamerki við það, þetta er eitthvað sem minn flokkur hefur ekki horft til hingað til. Þess vegna eru þetta kannski óljósar hugmyndir á þessu stigi en mér finnst ekkert athugavert við það að ræða hlutina, rétt eins og við erum að ræða málin hér í dag.“
