„Það er eitthvað farið að minnka núna en aðalmálið á þessum tíma er veður, sem hamlar veiðum, og birta. Þetta eru orðnir stuttir dagar. En það er hellingur af hval á svæðinu, eða yfirleitt á þessum ársíma,“ segir Sverrir Daníel Halldórsson, líffræðingur við Hafrannsóknarstofnun, og að helstu fæðisvæðin séu við vestanvert og suðvestanvert landið.
Hann segir að misjafnt sé hvenær hvalirnir færa sig suður á bóginn en að það sé oft í lok ágúst en geti verið alveg fram í október.
„En það sjást langreyðar allt árið,“ segir Sverrir en að erfitt sé að meta fjölda við Íslandsstrendur á veturna því ekki séu gerðar veturtalningar vegna aðstæðna á hafi.
Kristján Loftsson hefur heimild til að veiða að hámarki 161 langreyðar árlega samkvæmt reglugerð sem Kristján Þór Júlíusson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, setti um veiðarnar árið 2019. Ný reglugerð var sett í síðustu viku, af matvælaráðherra, um veiðarnar og tilhögun þeirra.
„Það er ólíklegt að hann nái því úr þessu. Það er útilokað út af veðurskilyrðum,“ segir hann en erfitt að segja til um það hverju hann nær.
Verða allt að 100 ára
Hann segir að í Norður-Atlantshafi séu alls um 35 þúsund langreyðar. Hann segir langreyðar oft vera allt að þrjú saman í hóp. Það geti verið fjölskylda eða bara dýr sem hafi hópað sig saman. Dýrin verði allt að 100 ára gömul.
„Þetta er svipuð lífslengd og hjá manninum. Þær verða kynþroska við átta ára aldur og það er svona annað hvert ár sem þær bera, að meðaltali. Alveg fram undir það síðasta. Það virðist ekki vera nein tíðahvörf,“ segir Sverrir léttur.
Ekki dýr í útrýmingarhættu
Hann segir mikilvægt að fólk viti að á norðurhveli sé staða stofns langreyða ekki sú sama og á suðurhveli. Þær séu ekki í útrýmingarhættu á norðurhveli jarðar en á suðurhveli sé stofninn í viðkvæmri stöðu. Því tali sum samtök um að langreyðar séu í útrýmingarhættu. Sverrir telur rétt að aðgreina stofn á suður- og norðurhveli því stofninn sé mjög misjafnt á þessum tveimur stöðum.
„Þetta eru ekki dýr í útrýmingarhættu en vinnubrögðin eru þannig hjá CITES að þau setja alla tegundina undir sama hátt þótt að aðstæður stofna séu misjafnar á ólíkum stöðum,“ segir Sverrir en CITES er alþjóðasamningur um verslun með villt dýr og plöntur í útrýmingarhættu sem bannar viðskipti með hvalaafurðum milli flestra þjóða heims. Ísland hefur gert fyrirvara við viðauka með samningnum vegna þeirra tegunda sem veiddar eru við Íslandsstrendur.
Spurður hvað honum finnist um mótmælin um borð í hvalveiðiskipunum segir hann ekkert við þau koma á óvart en að það komi heldur ekki á óvart að veðrið hamli veiðum, miðað við árstíma.
„Það er búið að vera leiðindaveður á miðunum og spáir ekkert vel.“