Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það verði skýjað sunnan- og vestantil á landinu og dálítil rigning eða súld, en það verði þurrt á Norður- og Austurlandi fram eftir degi.
Hiti verður á bilinu tíu til nítján stig, hlýjast um landið norðaustanvert.
„Eftir hádegi bætir í úrkomu sunnanlands, og seint í kvöld verður samfelld rigning allvíða á landinu.
Á morgun verður fremur hægur vindur og það dregur úr vætu, lítilsháttar úrkoma í flestum landshlutum eftir hádegi. Annað kvöld nálgast svo næsta lægð með vaxandi sunnanátt og rigningu sunnan- og vestanlands,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Fremur hæg vestlæg eða breytileg átt og súld eða dálítil rigning með köflum. Hiti 9 til 17 stig, mildast á Austurlandi. Vaxandi sunnanátt seint um kvöldið og bætir í úrkomu suðvestanlands.
Á föstudag: Suðvestan 8-15 m/s og rigning eða skúrir, en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast norðaustantil.
Á laugardag: Norðlæg eða breytileg átt 5-13 og skúrir. Hiti 6 til 12 stig.
Á sunnudag: Norðaustlæg átt og allvíða skúrir. Hiti 5 til 11 stig.
Á mánudag og þriðjudag: Norðlæg eða breytileg átt og dálítil væta sunnantil, annars yfirleitt þurrt. Hiti breytist lítið.