Hvalbátarnir lönduðu fyrstu hvölum vertíðarinnar í hvalstöðinni á föstudag en biðu svo af sér brælu í rúman sólarhring. Þeir sigldu svo báðir út að nýju til veiða á laugardagskvöld og voru komnir á hvalamið suður af landinu í birtingu í gærmorgun.
Upp úr hádegi í gær var Hvalur 8 kominn með tvær langreyðar og sigldi þá til lands. Lagðist hann að bryggju með aflann fyrir birtingu í morgun. Hvalur 9 sigldi svo inn í mynni Hvalfjarðar nú á tíunda tímanum með sinn feng og er væntanlegur að hvalstöðinni um tíuleytið.
Gert er ráð fyrir að báðir hvalbátarnir sigli aftur á miðin í dag, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.

Konurnar tvær sem hlekkjuðu sig við tunnurnar í Hvali 8 og Hvali 9 voru á meðal fimm manns sem efndu til minningarathafnar í matvælaráðuneytinu í morgun um fyrstu hvalina sem hafa verið veiddir á þessari vertíð. Á meðan athöfninni stóð fékk fólkið upplýsingar um að veiddum hvölum hefði fjölgað úr þremur, sem stóð til að minnast, og í sjö.