Ásgeir Börkur spilaði lengst af með Fylki, hvar hann ólst upp og hóf knattspyrnuferilinn, og spilaði 171 deildarleik með Árbæingum. Hann lék einnig með Selfossi og HK auk ÍR hér á landi. Þá spilaði hann einnig fyrir Sarpsborg í Noregi og GAIS í Svíþjóð.
Hann lék með Fylki er liðið vann Lengjudeildina í fyrra og færði sig svo í Breiðholtið en ÍR lenti í öðru sæti deildarinnar eftir lokaumferðina um helgina og fer því upp í næst efstu deild. Hann segir það viðeigandi lok á ferlinum í færslu sinni á Facebook.
„Eftir á að hyggja, þá endurspeglaði þetta tímabil kannski feril minn ágætlega. Mikill rússibani.“ segir Ásgeir Börkur á Facebook. Eftirsjáin á ferlinum sé þá aðeins ein.
„Aðeins ein eftirsjá! Ég vildi að ég hefði notið þess aðeins meira. Það tekur á að vera reiður sex daga vikunnar.“
