Innlent

Hreinn hættur og Björg Ásta ráðin að­stoðar­maður

Árni Sæberg skrifar
Björg Ásta er nýr aðstoðarmaður Guðrúnar.
Björg Ásta er nýr aðstoðarmaður Guðrúnar. Stjórnarráðið/Vísir/Vilhelm

Björg Ásta Þórðardóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra. Hún tekur við af Hreini Loftssyni, sem hefur látið af störfum.

Björg Ásta lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2015. Björg hefur starfað sem yfirlögfræðingur Samtaka iðnaðarins frá árinu 2015 og starfaði þar áður sem lögfræðingur hjá Félagi atvinnurekenda og fulltrúi hjá Málflutningsstofu Reykjavíkur. Þá starfaði hún hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Hún hefur jafnframt starfað í fjölmörgum stjórnum og nefndum á vegum stjórnvalda og í atvinnulífinu. Þetta segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Þar segir að Björg Ásta sé fædd og uppalin á Suðurnesjum og eigi að baki farsælan knattspyrnuferil með íslenskum knattspyrnuliðum og landsliðinu. Björg hafi sinnt sjálfboðaliðastarfi á sviði íþróttamála og sitji nú í dómstól ÍSÍ og í aga- og úrskurðarnefnd KSÍ. Þá hafi Björg verið virk í félagsstarfi og sinnt formennsku í MS-félagi Íslands.

Björg Ásta sé búsett á Suðurnesjum þar sem hún er fædd og uppalin. Hún sé í sambúð með Ósk Laufeyju Breiðfjörð og þær eigi þrjú börn.

Hreinn náði tæpum þremur mánuðum í þetta skiptið

Hreinn Loftsson var ráðinn aðstoðarmaður dómsmálaráðherra þann 22. júní síðastliðinn þegar Guðrún tók við ráðuneytinu. Þar áður hafði hann verið aðstoðarmaður í ráðherratíð Jóns Gunnarssonar, þá aðeins í tvær vikur.

Þá aðstoðaði hann Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í rúm tvö ár í hennar tíð sem dómsmálaráðherra.


Tengdar fréttir

Hreinn að­stoðar­maður á ný í dóms­mála­ráðu­neytinu

Hreinn Loftsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hreinn aðstoðar í dómsmálaráðuneytinu en hann aðstoðaði einnig síðustu tvo ráðherra í ráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×