Vika er liðin síðan Matvælastofnun setti annað af tveimur hvalveiðiskipum Hvals hf. í straff vegna þess að um hálftíma hafði tekið að aflífa fyrsta hval vertíðarinnar þann 7. september. Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., hefur sagt að óhapp hafi orðið til þess að ekki var unnt að skjóta hvalinn í annað skipti fyrr en að þeim tíma liðnum.
Í tilkynningu frá Matvælastofnun síðdegis í gær kom fram að Hvalur 8 mætti halda aftur til veiða að uppfylltum tveimur skilyrðum. Annars vegar að skotæfing færi fram á sjó þar sem sýnt yrði fram á hæfni skyttu og hins vegar uppfærsla á verklagsreglum miðað við athugasemdir Fiskistofu og Matvælastofnunar.
Kristján Loftsson sagði í stuttu samtali við fréttastofu í morgun að unnið væri að því að uppfylla þessar kröfur. Hann vonist til þess að það takist í dag.
Hann segir veður ágætt til veiða og Hvalur 9 hafi lagt úr höfn seinni partinn í gær. Á tíunda tímanum í morgun var ekki búið að veiða langreyði. Hann segir veðrið líta ágætlega út fram að helgi en svo sé aftur bræla í kortunum.
Kristján sagði í viðtali við fréttastofu í gær lítið eftir af vertíðinni. Aðeins náist að veiða brot af kvótanum sem telur 160 dýr. Viðtalið má sjá í heild að neðan.