Handbolti

Díana Dögg frá­bær í Ís­lendinga­slag

Smári Jökull Jónsson skrifar
Díana Dögg fór mikinn í kvöld.
Díana Dögg fór mikinn í kvöld. Zwickau/Ralf Wendland

Díana Dögg Magnúsdóttir átti frábæran leik fyrir Zwickau sem vann góðan sigur á Metzingen í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag. Sandra Erlingsdóttir leikur með liði Metzingen.

Leikurinn í dag fór fram á heimavelli Zwickau sem fyrir leikinn hafði tapað báðum leikjum sínum í deildinni til þessa. Metzingen var hins vegar með einn sigur og eitt tap eftir fyrstu tvær umferðirnar.

Fyrri hálfleikur var jafn til að byrja með en undir lok hans náði Zwickau áhlaupi og leiddi 13-9 í hálfleik.

Metzingen náði ekki að minnka þann mun í upphafi síðari hálfleiks heldur bættu leikmenn Zwickau í. Díana Dögg var að leika frábærlega og forystan varð mest sjö mörk í stöðunni 17-10, Zwickau þá búið að ná 10-3 áhlaupi.

Leikmenn Metzingen lögðu þó ekki árar í bát. Þær náðu frábærum kafla og jöfnuðu metin í 19-19 og allt í járnum. Lengra komust þær þó ekki. Díana Dögg skoraði þrjú af næstu fjórum mörkum Zwickau sem komst í 23-20 en Zwickau vann síðustu tíu mínútur leiksins 8-3 og að lokum 27-22 sigur í leiknum.

Díana Dögg var frábær eins og áður sagði. Hún skoraði átta mörk í tíu skotum og gaf þrjár stoðsendingar þar að auki. Sandra Erlingsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Metzingen og gaf fjórar stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×