Körfubolti

Spá Vísis í Subway kvenna (6.-10.): Leynist spútniklið deildarinnar hér?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísold Sævarsdóttir er ein af þessum bráðefnilegu leikmönnum Stjörnunnar sem fá tækifæri til að stíga sín fyrstu skref í Subway deildinni í vetur.
Ísold Sævarsdóttir er ein af þessum bráðefnilegu leikmönnum Stjörnunnar sem fá tækifæri til að stíga sín fyrstu skref í Subway deildinni í vetur. Vísir/Hulda Margrét

Subway deild kvenna í körfubolta hefst annað kvöld en hún tekur miklum breytingum á milli tímabila. Fleiri lið eru nú í deildinni, tvískipting mun eiga sér stað um mitt tímabil og tvöfalt fleiri lið komast í úrslitakeppnina sem þýðir að deildin verður allt öðruvísi en í fyrra.

Vísir kynnir liðin tíu til leiks næstu tvo daga og í dag er komið að þeim liðum sem við teljum að endi í neðri hlutanum þegar deildinni verður skipt í tvennt.

Það er hætt við því að það aukist getumunurinn í deildinni þegar þrjú ný lið bætast við deildina en það boðar gott að tvö af liðunum sem komust upp fóru alla leið í undanúrslit bikarsins í fyrra og það þriðja hefur styrkt sig verulega fyrir átök vetrarins.

Snæfell og Stjarnan eru komin aftur í hóp þeirra bestu eftir nokkra ára fjarveru en bæði félögin gáfu eftir sætið sitt í efstu deild á sínum tíma. Síðan hafa þau byggt upp kvennalið sín og taka stóra skrefið í ár.

Stjörnuliðið er mun betur sett þegar kemur að ungum og upprennandi leikmönnum sem hafa verið sigursælar í sínum flokkum undanfarin ár. Það reynir meira á Snæfellsliðið að safna liði en félagið á líka margra frábæra leikmenn í öðrum liðum deildarinnar. Liðið missti líka fyrirliða sinn í barneignarfrí og er okkar spá rætist þá verður þetta mjög krefjandi tímabil í Hólminum í vetur.

Þórskonur urðu þrisvar sinnum Íslandsmeistarar á sjöunda og áttunda áratugnum (1969, 1971 og 1976) en hafa ekki spilað í efstu deild í 45 ár. Það er hugur í norðankonum fyrir sögulega endurkomu þeirra. Liðið hefur styrkt sig í sumar og hefur alla burði til að halda sér í deildinni.

Það mun því reyna á Fjölni og Breiðablik að halda sér fyrir ofan nýliða deildarinnar. Bæði liðin gáfu mikið eftir á síðustu leiktíð en ætla sér örugglega að komast í efri hlutann í vetur. Fjölnisliðið er í betri stöðu en nýr þjálfari þarf að byggja upp sjálfstraust liðsins á ný eftir erfiðan síðasta vetur.

Ef okkar spá rætist þá verður það erfitt ekki síst fyrir Blikaliðið sem er ekki líklegt til afreka í vetur.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig við spáum hvaða lið enda í sjötta til tíunda sæti deildarinnar.

Stjörnukonur eru vissulega mjög ungar en þær hafa unnið fjölda titla í yngri flokkum síðustu ár.Vísir/Hulda Margrét

6. sæti - Stjarnan

  • Síðustu tímabil
  • 2022-23: 1. sæti í B-deild
  • 2021-22: 9. sæti í B-deild
  • 2020-21: 7. sæti í B-deild
  • 2019-20: Ekki með lið
  • 2018-19: 3. sæti í A-deild (Undanúrslit)

Árið í fyrra: Stjörnuliðið kom sér heldur betur á kortið í fyrra með því að vinna 1. deildina með sannfærandi hætti og komast síðan alla leið í undanúrslit bikarkeppninnar. Liðið byggði á yngri leikmönnum og erlendi leikmaður liðsins var ekki í aðalhlutverki eins og hjá flestum öðrum liðum.

Besta frétt sumarsins: Unnur Tara Jónsdóttir snýr til baka á körfuboltavöllinn og samdi við Stjörnuna. Unnur er leikmaður sem lætur verkin tala inn á vellinum á báðum endum vallarins og reynsla hennar gæti reynst ungu Stjörnuliði ómetanlegt.

Áhyggjuefnið: Stjörnuliðið er eitt yngsta liðið sem hefur spilað í efstu deild kvenna. Þær eru sem betur fer einu ári eldri en í fyrra þegar þær sýndu styrk sinn með því að komast í Laugardalshöllina í bikarnum. Áfallið að missa landsliðskonuna Diljá Ögn Lárusdóttir í krossbandsslit kallar á enn meiri ábyrgð á enn yngri leikmenn liðsins.

Þarf að eiga gott tímabil: Bakvörðurinn Ísold Sævarsdóttir og framherjinn Kolbrún María Ármannsdóttir eru tvær af efnilegustu körfuboltakonum landsliðsins sem báðar fá væntanlega stórt hlutverk í vetur. Hvernig þær ráða við þetta skref mun breyta miklu fyrir hversu langt Stjörnuliðið fer.

Bjartsýni: Verða spútniklið vetrarins og tryggja sér sæti í A-hlutanum.

Svartsýni: Verða ekki í baráttunni um fimm efstu sætin og skríða inn í úrslitakeppnina í gegnum b-hlutann.

Þórskonur eru komnar upp í efstu deild kvenna í fyrsta sinn síðan 1978.@thormflkvk

7. sæti - Þór Akureyri

  • Síðustu tímabil
  • 2022-23: 2. sæti í B-deild
  • 2021-22: 5. sæti í B-deild
  • 2020-21: Ekki með lið
  • 2019-20: Ekki með lið
  • 2018-19: 3. sæti í B-deild

Árið í fyrra: Þórsliðið var ekki langt frá því að tryggja sér sæti í deildinni eftir gömlu leiðinni þefar liðið tapaði í úrslitaeinvíginu á móti Stjörnunni. Liðið endaði í öðru sæti í deildinni og fór síðan alla leið í oddaleik á móti deildarmeisturunum. Þór fékk hins vegar sætið þegar fjölgað var í deildinni.

Besta frétt sumarsins: Þórsliðið eignaðist A-landsliðskonu í sumar þegar bakvörðurinn Eva Wium Elíasdóttir var valin í hópinn fyrir leiki á móti Svíum en hún varð fyrsta A-landsliðskona félagsins í næstum því hálfa öld.

Áhyggjuefnið: Þórsliðið hefur enga reynslu sem félag að glíma við þau bestu kvennaliðin í landinu enda ekki verið í efstu deild kenna í 45 ár. Það mun því reyna á félagið að stíga þetta stóra skref. Liðið hefur þó vissulega styrkt sig og mætir með sjálfstraust eftir uppgöngu síðustu ára.

Þarf að eiga gott tímabil: Heiða Hlín Björnsdóttir býr af dýrmætri reynslu af því að hafa spilað í efstu deild með bæði Snæfelli og Fjölni. Það er stórt skref að fara upp og því reynir mikið á reynslubolta liðsins að leiða liðið í þessu ævintýri.

Bjartsýni: Verða spútniklið vetrarins og tryggja sér sæti í A-hlutanum.

Svartsýni: Verða ekki í baráttunni um fimm efstu sætin og komast ekki í úrslitakeppnina í gegnum b-hlutann.

Dagný Lísa Davíðsdóttir var valin besti leikmaðurinn í deildinni tímabilið 2021-22.Vísir/Bára

8. sæti - Fjölnir

  • Síðustu tímabil
  • 2022-23: 6. sæti í A-deild
  • 2021-22: 1. sæti í A-deild (Undanúrslit)
  • 2020-21: 4. sæti í A-deild (Undanúrslit)
  • 2019-20: 1. sæti í B-deild
  • 2018-19: 1. sæti í B-deild

Árið í fyrra: Tímabilið var vonbrigði eftir ævintýratímabilið árið áður. Liðið fór út því að vera deildarmeistari í það að vera tuttugu stigum frá því að komast í úrslitakeppnina. Grafarvogsliðið var búið að vera á uppleið í nokkur ár en hlutirnir voru ekki að falla með liðinu í fyrravetur.

Besta frétt sumarsins: Réðu Hallgrímur Brynjólfsson sem þjálfara liðsins í maí en það gekk heldur betur vel síðast að fá þjálfara af suðurlandinu. Hallgrímur hefur þjálfað sameiginlegt lið Hamars/Þórs síðustu þrjú ár og gerði þar vel með ungt lið en þekki líka deildina vel eftir að hafa þjálfað lið Hamars og Njarðvíkur.

Áhyggjuefnið: Bandaríski leikmaður liðsins er orðin 35 ára gömul. Vissulega reynslumikil og öflugur leikmaður upp á sitt besta en hefur hún burði til að bera upp lið í Subway deildinni.

Þarf að eiga gott tímabil: Dagný Lísa Davíðsdóttir var valin best leikmaður ársins þegar Fjölnir varð deildarmeistari 2022 en missti af stórum hluta síðasta tímabils eftir að hafa handleggsbrotnað í desember. Það munar mikið um það ef Dagný nær sínu besta formi á ný.

Bjartsýni: Tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.

Svartsýni: Lenda í fallbaráttu og þurfa að fara í úrslitakeppnina við þrjú lið í 1. deildinni.

Anna Soffía Lárusdóttir er í stóru hlutverki hjá Blikum.Vísir/Bára

9. sæti - Breiðablik

  • Síðustu tímabil
  • 2022-23: 7. sæti í A-deild
  • 2021-22: 7. sæti í A-deild
  • 2020-21: 5. sæti í A-deild
  • 2019-20: 7. sæti í A-deild
  • 2018-19: 8. sæti í A-deild



Árið í fyrra: Það gekk mikið á hjá Blikum í fyrra þar sem hlutirnir voru ekki að ganga upp. Liðið missti landsliðskonuna Isabellu Ósk Sigurðardóttiur í annað íslenskt lið í upphafi tímabils og skipti síðan um þjálfara fyrir jól. Liðið endaði á því að tapa átta síðustu leikjum sínum og vann ekki heimaleik eftir jól.

Besta frétt sumarsins: Miðherjinn Ragnheiður Björk Einarsdóttir ákvað að koma aftur til Breiðabliks eftir að hafa spilað í bandaríska háskólaboltanum undanfarin fjögur ár.

Áhyggjuefnið: Blikar sendu erlendu leikmennina heim á miðju síðasta tímabili og treystu á íslenska hópinn sinn til að klára mótið. Flest lið eru með fleiri en einn erlendan leikmann sem gæti gefið liðunum í kringum forskot á Breiðabliksliðið.

Þarf að eiga gott tímabil: Anna Soffía Lárusdóttir hefur fengið mikla ábyrgð í Blikaliðinu undanfarin ár og það er engin breyting á því. Öflugur skotmaður sem hefur sýnt Blikum hollustu.

Bjartsýni: Tryggja sér sæti í úrslitakeppninni með því að vera eitt af þremur efstu liðunum í b-hlutanum.

Svartsýni: Lélegasta lið deildarinnar. Neðsta sætið og fall úr deildinni.

Adda Sigríður Ásmundsdóttir og félagar hennar í Snæfelli hafa farið í Höllina og spilað í undanúrslitum bikarsins undanfarin tvö tímabil.Vísir/Hulda Margrét

10. sæti - Snæfell

  • Síðustu tímabil
  • 2022-23: 3. sæti í B-deild
  • 2021-22: 6. sæti í B-deild
  • 2020-21: 7. sæti í A-deild
  • 2019-20: 6. sæti í A-deild
  • 2018-19: 5. sæti í A-deild

Árið í fyrra: Snæfellskonur urðu í þriðja sæti í deildinni og töpuðu síðan á móti Þór Ak. í fjórum leikjum í undanúrslitum úrslitakeppninnar. Annað árið var það hins vegar bikarkeppnin sem var stærsta ævintýrið þar sem Snæfellsstelpurnar komust í Laugardalshöllina annað tímabilið í röð.

Besta frétt sumarsins: Snæfell fékk sæti í Subway deildinni á silfurfati í lok maí þegar ÍR gaf eftir sæti sitt í deildinni. Snæfell var því launaður greiðinn frá því fyrir nokkrum árum þegar félagið hætti við keppni í úrvalsdeildinni þrátt fyrir að hafa haldið sætið sínu tímabilið á undan.

Áhyggjuefnið: Rebekka Rán Karlsdóttir er í barneignarfríi og verður sárt saknað. Rebekka skilað krefjandi starfi leikstjórnanda og er bæði besti og reyndasti íslenski leikmaður liðsins.

Þarf að eiga gott tímabil: Erlendir leikmenn liðsins þurfa bæði að skila sínu sem og að passa vel saman ef Snæfell ætlar að gera eitthvað í vetur. Þetta eru bandarískur bakvörður, finnskur framherji og sænskur miðherji og ættu því að styrkja liðið á þremur mikilvægum svæðum á vellinum.

Bjartsýni: Ná einu af þremur efstu sætum b-hlutans eftir skiptin og tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.

Svartsýni: Lélegasta lið deildarinnar. Neðsta sætið og fall úr deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×