Það eru Isavia og Almannavarnir sem standa saman að þessari viðbragðsæfingu, sem hófst klukkan 11:00 og stendur fram eftir degi. Á æfingunni er verið að æfa viðbrögð viðbragðsaðila á svæðinu við hópslysi, sem um 100 manns taka þátt í.
En hvað gerðist?
Friðfinnur Freyr Guðmundsson er verkefnisstjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia.
„Hér erum við á Húsavíkurflugvelli þar sem við höfum líkt við flugslysi þar sem við erum með 20 manna farþegaflugvél, sem hefur farið niður hér á Norðurbraut flugvallarins og hér eru viðbragðsaðilar á svæðinu bara að vinna úr því,“ segir Friðfinnur Freyr.

Þannig að það er gríðarlegur viðbúnaður þarna?
„Það er mikill viðbúnaður og bæjarbúar væntanlega búnir að taka eftir reyk, sem steig hér upp af norðurenda brautarinnar hérna í morgun og já, já, það gengur vel.“
Friðfinnur segir að einhverjir hafi látist í flugslysinu.
„Já, það er nú akkúrat partur af ferlinum okkar að við verðum að vita hvað við ætlum að gera við þá, sem látast í svona flugslysi þannig að við erum alltaf með einhverja, við látum reyndar engan leika slíkt heldur erum við bara með dúkkur í því en það er líka svo mikilvægt út af rannsóknarþættinum og annað slíkt, þannig að já, já, við erum með það.“

Friðfinnur Freyr segir að æfing sem þessi sé mjög mikilvæg.
„Þetta er gríðarlega mikilvægt því að þessar æfingar hafa í rauninni þróað hópslysaviðbúnað á Íslandi. Við erum búnir að vera með þessar æfingar á flugvöllum yfir 20 ár og þetta er sá lærdómur, sem við höfum getað dregið af þessum æfingum hafa ratað inn í hópslysaskipulagið á Íslandi,“ segir Friðfinnur Freyr og bætir við.
„Við lærum á hverri einustu æfingu og við sem erum búin að vera í þessu lengi líka og það eru líka samskiptin við heimamenn, sem sýna þessu áhuga og vilja gera það vel fyrir sitt samfélag og vera í þessu viðbragði, hvort sem það eru sjálfboðaliðar eða atvinnumenn, það er líka gríðarlega gefandi.“
Næsta flugslysaæfing verður á Egilsstaðaflugvelli laugardaginn 14. október eftir hálfan mánuð.