Bókin kom út á miðvikudaginn. Þar segir Sölvi frá örlagaríkum tímum í lífi sínu þegar þrjár konur kærðu hann fyrir kynferðisbrot vorið 2021 eftir að hann grét í umtöluðu viðtali í eigin hlaðvarpsþætti. Málin hafa verið felld niður.
Þá fer Sölvi yfir stjórnleysi sitt í kvennamálum. Hann hafi verið fíkill í viðbrögð frá konum. Hann leitaði sér hjálpar hjá tólf spora samtökum.
„Ég sá þetta á einhvern hátt þannig að ég væri einhleypur og væri ekki að skaða neinn þó að ég setti mig í samband við fullt af konum. En þegar ég skoða það betur sé ég að ég var í raun bullandi óheiðarlegur bæði við sjálfan mig og aðra. Ég seldi mér að stjórnleysið væri mun minna en það var í raun, auk þess sem óheiðarleiki á einu sviði mun óhjákvæmilega færast yfir á önnur svið lífsins,“ segir Sölvi meðal annars í bókinni.
Greint var frá sambandi Estherar og Sölva í vor. Þau höfðu þá verið saman í nokkra mánuði. Esther segir Sölva hafa þraukað í gegnum erfitt tímabil sem hafi gert hann að betri manni.
„Að verða vitni að því hvernig lygar, slúður og andstyggð getur haft varanleg áhrif á líf einhvers. Það er ekki í lagi,“ segir Esther í færslu á Instagram
Hún lýsir Sölva sem viðkæmum og heiðarlegum manni sem sé tilbúinn að tala opinskátt um eigin mistök.
„Það er ekki einfalt fyrir flesta og er hann því einn af hugrökkustu einstaklingum sem ég þekki.
Til hamingju Sölvi með nýju bókina þína Skuggar og fyrir að leggja allt í þetta verkefni,“ segir Esther.
„Ég elska þig svo mikið. Alltaf,“ skrifar hún í lokin
