Maskína lagði tvær spurningar fyrir þjóðgátt Mastkínu, sem er þjóðhópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu, í kjölfar afsagnar Bjarna Benediktssonar úr embætti fjármála- og efnahagsráðherra.
Könnunin fór fram dagana 12. og 13. október og svarendur voru 916 talsins.
Flestir sammála ákvörðuninni
Fyrri spurningin var ert þú sammála eða ósammála ákvörðun Bjarna Benediktssonar að segja af sér sem fjármála- og efnahagsráðherra?
63,3 prósent sögðust mjög sammála ákvörðuninni, 16,8 prósent fremur sammála, 13,9 prósent tóku ekki afstöðu, 2,8 prósent sögðust fremur ósammála og 3,3 prósent mjög ósammála.
Það gerir í heildina um 80 prósent sem eru sammála ákvörðun Bjarna og aðeins um sex prósent ósammála.
Þrjú prósent vilja að Bjarni hætti við að hætta
Hin spurningin var hvað af eftirfarandi vilt þú að Bjarni Benediktsson geri?
70,7 prósent sögðust vilja að Bjarni hætti sem ráðherra, þrettán prósent sögðust vilja að hann haldi áfram sem ráðherra en í öðru ráðuneyti og 2,8 sögðust vilja að hann dragi afsögn sína til baka og haldi áfram sem fjármála- efnahagsráðherra. 13,5 prósent sögðust enga skoðun á málinu hafa.