Í Borgarbyggð eru fjórar slökkviliðsstöðvar eða í Reykholti, Bifröst, Hvanneyri og Borgarnesi þar sem höfuðstöðvarnar eru. Það eru merk tímamót í sögu slökkviliðsins þegar aldarafmæli verður fagnað. Heiðar Örn Jónsson er slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Borgarbyggðar.
„Já, þetta eru heldur betur mikil tímamót og þess vegna erum við að fagna því enda hefur mikið gerst á þessum 100 árum. Við erum svolítið að súmmera það, sem hefur verið að gerast og hvað við erum að gera í dag og svona á þessum tímamótum. Það hefur mikið breyst, bæði í búnaði og þekkingu og menntun og þjálfun og við erum að sýna okkar fólki hvar við stöndum í dag,“ segir Heiðar Örn.
Dagskrá dagsins hefst klukkan 14:00 á eftir í Hjálmakletti og stendur til klukkan 16:00. Boðið verður upp á söngatriði, ávörp, nokkrir slökkviliðsmenn verða heiðraðir, 20 nýliðar verða útskrifaðir úr námi slökkviliðsmanna og að sjálfsögðu verður kaffið og veitingarnar á sínum stað. Þá fer líka fram formlega afhending á nýjum tankbíl til slökkviliðsins í Reykholti.
En hvað eru útköll Slökkviliðs Borgarbyggðar mörg á ári að meðaltali?
„Við erum með svona á milli 50 og 60 hreyfingar á dælubíl á ári í mis stórum verkefnum. Okkar helstu verkefni í dag eru tengd umferðinni,“ segir Heiðar Örn.

Og slökkviliðsstjórinn lofar glæsilegum hátíðarhöldum í Borgarnesi í dag.
„Já og endilega að koma til okkar ef þið eruð hérna í Borgarnesi og við verðum með allan okkar bílaflota til sýnis, svo eins og ég segi, við erum að útskrifa 20 slökkviliðsmenn og hér verða kökur og kaffi. Þeir, sem vilja gleðjast með okkur eru velkomnir,“ segir Heiðar Örn.
