Mótmælendur söfnuðust saman við utanríkisráðuneytið í dag þar sem Hjálmtýr Heiðdal, formaður Íslands-Palestínu, og Sveinn Rúnar Hauksson, fyrrverandi formaður, ávörpuðu mótmælendur. Í kjölfarið var gengið niður Laugarveginn að Alþingishúsinu.
Hjálmtýr sagði í ávarpi sínu að Sjálfstæðsisflokkurinn færi með utanríkismálin í ríkisstjórninn og þeir hefðu alltaf stutt Ísrael.
„Það hefur alltaf verið þannig að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga, í þeim könnunum sem hafa verið gerður, styður málstað Palestínu. Og það er sennilega bara að aukast, enda er að koma betur og betur í ljós hvert hlutskipti Palestínumanna er og hvernig alþjóðasamfélagið hefur svikið þá,“ sagði Hjálmtýr.
Ísraelar gerðu í gærkvöldi innrás í norðurhluta Gasastrandarinnar, eftir linnulausar loft- og stórskotaliðsárásir frá 7. október. Samhliða innrásinni var árásunum fjölgað og samskipti Gasastrandarinnar við umheiminn rofið að mestu leyti.
Þeir íbúar og blaðamenn sem náðst hefur í segja árásirnar frá því í gærkvöldi vera fordæmalausar og óreiðuna gífurlega.






