Sport

„Þetta slys er mikið áfall fyrir alla íshokkíhreyfinguna“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Frá leik kvennalandsliðsins í íshokkí. Myndin tengist ekki fréttinni.
Frá leik kvennalandsliðsins í íshokkí. Myndin tengist ekki fréttinni. Visir/Stjepan Cizmadija

Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður dómaranefndar ÍHÍ, hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að leikmaður í ensku Elite deildinni í íshokkí lést um helgina eftir skelfilegt slys innanvallar.

Adam Johnson, leikmaður breska íshokkíliðsins Nottingham Panthers, lést á laugardaginn eftir að hafa skorist alvarlega á hálsi í leik liðsins í Challenge Cup.

„Frá upphafi tímabils hefur búnaður leikmanna oft verið ræddur með tilliti til þess hve ábótavant er að leikmenn yngri flokka uppfylli kröfur leikreglna Alþjóða íshokkísambandsins (IIHF). Þá sérstaklega með tilliti til hálshlífa og hjálma sem oft hafa verið lausir á höfðum leikmanna eða stilltir þannig að þeir geta auðveldlega farið af leikmönnum,“ segir í yfirlýsingunni.

 

„Þetta slys er mikið áfall fyrir alla íshokkíhreyfinguna,“ segir Guðlaug og óskar eftir sameiginlegu átaki á búnaði leikmanna.

„Þjálfarar, foreldrar, leikmenn og ekki síst dómarar þurfa að vera samstíga í þessu verkefni. Allir leikmenn 20 ára og yngri eiga að nota hálshlífar á æfingum og í keppni. Allir leikmenn 18-20 ára sem kjósa að nota hálft gler en ekki grind á hjálmi sínum eiga að nota góma á æfingum og í keppni. Allir leikmenn skulu vera með rétt stillta hjálma,“ segir Guðlaug í yfirlýsingunni og bætir við að endingu:

„Hugur okkar er hjá aðstandendum leikmannsins, fjölskyldu, liðsfélögum, þjálfurum, dómurum leiksins, áhorfendum og öðrum sem eiga um sárt að binda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×