Á vef Veðurstofunnar segir að hiti verði á bilinu núll til sex stig yfir daginn. Síðdegis mun svo fara að rigna austantil á landinu en á fjallvegum megi búast við slyddu eða snjókomu.
„Norðaustan 8-15 m/s á morgun og skúrir eða slydduél, en áfram þurrt og nokkuð bjart á suðurhluta landsins. Annað kvöld hvessir norðvestantil á landinu og það bætir aftur í úrkomu fyrir austan.
Á sunnudag er svo útlit fyrir ákveðna norðaustanátt með úrkomusömu veðri, rigningu eða slyddu á láglendi og snjókomu á heiðum, en það verður áfram þurrt að mestu um landið sunnanvert,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Vaxandi norðaustanátt, 10-18 m/s síðdegis. Skúrir eða slydduél, en yfirleitt þurrt sunnan heiða. Hiti 1 til 6 stig. Rigning á Austurlandi um kvöldið.
Á sunnudag: Norðaustan 13-20 m/s, hvassast norðvestanlands. Rigning eða slydda á norðaustanverðu landinu, annars dálitlar skúrir eða él, en þurrt að kalla sunnantil. Hiti breytist lítið.
Á mánudag: Minnkandi norðaustan- og austanátt, 5-13 síðdegis. Rigning eða slydda með köflum, en úrkomulítið um landið sunnanvert. Hiti 1 til 7 stig, mildast syðst.
Á þriðjudag: Vaxandi austlæg átt og væta á víð og dreif. Hlýnar smám saman.
Á miðvikudag: Austan og norðaustanátt og rigning, en lítilsháttar væta um landið norðanvert. Milt í veðri.
Á fimmtudag: Snýst í norðlæga átt og kólnar með slyddu eða snjókomu á Norðurlandi.