Johnson lést eftir að hann skarst á hálsi í leik Nottingham Panthers og Sheffield Steelers í Challenge Cup í Bretlandi um þarsíðustu helgi.
Andlát Johnsons hefur vakið mikinn óhug og í kjölfarið hefur verið rætt um að auka öryggi íshokkíkappa, meðal annars með því að láta þá spila með hálshlíf.
Johnson spilaði sem fyrr sagði með Nottingham Panthers á Englandi. Aðalfótboltaliðið í Nottingham, Forest, mætti Villa í ensku úrvalsdeildinni í gær og þar var minningu Johnsons haldið á lofti.
Í upphafi seinni hálfleiks, nánar tiltekið á 47. mínútu, stóðu áhorfendur upp og klöppuðu fyrir Johnson sem lék í treyju númer 47.
Það virtist hvetja leikmenn Forest til dáða því á sömu mínútu skoraði Orel Mangala annað mark liðsins. Heimamenn unnu leikinn, 2-0.
Með sigrinum komst Forest upp í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið er á sínu öðru tímabili meðal þeirra bestu eftir að hafa ekki leikið þar frá tímabilinu 1998-99.