Handbolti

Ólafur Stefáns­son nýr þjálfari EHV Aue

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það þurfti tvo menn frá EHV Aue til að óska Ólafi til hamingju með starfið.
Það þurfti tvo menn frá EHV Aue til að óska Ólafi til hamingju með starfið.

Ólafur Stefánsson var í dag tilkynntur sem nýr þjálfari þýska b-deildarliðsins EHV Aue en félagið rak þjálfara sinn á dögunum eftir slaka byrjun á tímabilinu.

Ólafur var kynntur til leiks á miðlum þýska liðsins nú í hádeginu.

Ólafur hefur reynslu af þjálfun en hann þjálfaði Valsliðið á sínum tíma og hefur verið aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins sem og aðstoðarmaður hjá þýska liðinu HC-Erlangen.

Ólafur hætti sem aðstoðarþjálfari HC-Erlangen rétt fyrir tímabilið í haust.

„Við erum mjög ánægðir með að fá til okkar í EHV handboltagoðsögn frá Íslandi. Við ræddum tvisvar sinnum við hann og eftir það vorum við sannfærðir um að hann væri rétti maðurinn fyrir okkur. Við erum sannfærðir um með hann sem aðalþjálfara og Philipp Brau sem aðstoðarþjálfara þá getum við náð markmiði okkar að halda okkur í deildinni,“ sagði íþróttastjórinn Stephan Swat í fréttatilkynningu félagsins.

Ólafur gerir sjö mánaða samning við félagið eða út júní næstkomandi.

Íslendingar hafa spilað með EHV Aue í gegnum tíðina en Sveinbjörn Pétursson hefur verið markvörður liðsins frá árinu 2020. Rúnar Sigtryggsson þjálfaði liðið líka í fjögur ár frá 2012 til 2016.

EHV Aue vann sigur á TuS N-Lübbecke um helgina og kom sér þar með af botni B-deildarinnar en þetta var aðeins annar sigur liðsins á tímabilinu. EHV kom upp úr C-deildinni í vor eftir eins árs veru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×