Kostnaður vegna dagdvalarinnar er í heildina metinn á 5,2 milljónir og að tryggja opnun hennar frá klukkan 14 til 16.30 alla daga yfir köldustu vetrarmánuðina. Gistiskýlin eru opin frá klukkan 17 til tíu á morgnana þannig fólk getur leitað í dagdvölina á meðan þar er lokað yfir daginn. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, sagði fyrir helgi að Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) yrði boðið að taka þátt gegn hlutdeild í kostnaði.
Sigurbjörg Fjölnisdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs hjá Mosfellsbæ og formaður samráðshóps velferðarsvið á höfuðborgarsvæðinu sem starfar í umboði SSH, segir að gert sé ráð fyrir því að kostnaður vegna dagdvalarinnar deilist á öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.
„Við vissum af því að það væri á leiðinni tillaga frá Samhjálp um opnun á dagsetri þessa köldustu mánuði á deginum til fyrir þennan hóp. Samhjálp er að fara inn í þetta verkefni þekkjandi hópinn okkar ágætlega,“ segir Sigurbjörg og að sveitarfélögin vilji vera með í verkefninu.
„Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vilja sannarlega taka þátt í þessu og erum búin að ræða þetta í hópi velferðarsviða á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin eru mjög jákvæð að taka þátt í þessu verkefni.“
Flestir í Kópavogi
Samkvæmt úttekt SSH frá því í mars á þessu ári um heimilislausa í sveitarfélögunum utan Reykjavíkur voru 76 heimilislausir í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, utan Reykjavíkur. Rúmur helmingur eða 55 prósent, voru skráð í Kópavogi, 24 prósent í Hafnarfirði, 14 prósent í Garðabæ og sjö prósent í Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi. Mikill meirihluti eru karlmenn, eða 76 prósent og langflestir íslenskir ríkisborgarar. Flestir voru á aldursbilinu 21 til 40 ára. Í skýrslunni var meðal annars lagt til að opnað yrði dagsetur fyrir heimilislausa og að samtökin ættu að koma að því verkefni.
Fjallað er um það í skýrslunni að samkvæmt úttekt Reykjavíkur frá árinu 2021 voru 301 sagðir heimilislausir en af þeim aðeins 120 skráðir í þjónustu Reykjavíkurborgar.
Mikil þörf síðasta vetur
Sigurbjörg sagði það ekki hafa rætt meðal hópsins hvort þau verði með einhverja fasta viðveru félagsráðgjafa eins og REykjavíkurborg sér fram á, en að þau séu opin fyrir því að ræða það ef þörf er á.
Hún segir að með dagdvölinni sé verið að mæta þörf sem kom upp síðasta vetur. Þá þurfti að virkja neyðaráætlun 21 sinni og halda neyðarskýlum opnum allan sólarhringinn vegna mikils kulda. Gistiskýlin eru allajafna opin frá klukkan 17 til tíu á morgnana.
„Við sjáum alveg að það kom vetur í fyrra þar sem reyndi svo sannarlega á þetta og þá sáum við þörfina fyrir að vera með eitthvað úrræði yfir daginn þegar köldustu dagarnir eru þá og ég tel þetta gott skref fyrir hópinn sem þarf sannarlega á þessu að halda.“
Hún segir það til skoðunar að opna varanlegra úrræði, dagsetur, fyrir þennan hóp.
„Sveitarfélögin, eða velferðarsviðin, eru búin að fjalla um það og það er sannarlega verið að skoða það, að horfa á varanlegra úrræði, eins og dagsetur sem er til lengri tíma,“ segir Sigurbjörg að lokum.