
Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra var spurð út í stöðu Grindvíkinga gagnvart lánastofnunum í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir minntist yfirlýsinga ráðherrans um að lánastofnanir hefðu ekki sýnt samfélagslega ábyrgð með því að ætla að leggja fulla vexti og verðtryggingu á skuldir Grindvíkinga í neyð.

„Hvernig ætlar ráðherrann að taka á þessu? Ætlar hún að grípa til einhverra aðgerða eða ætlar hún að láta sér nægja að biðla til samfélagslegrar ábyrgðarkenndar bankastofna og vona hið besta,“ spurði Þórhildur Sunna.
„Ég hef lýst því yfir að ég telji að fjármálastofnanir séu ekki að sýna fulla samfélagslega ábyrgð með því að rukka vexti og verðbætur. Skilaboðin sem Grindvíkingar fengu í síðustu viku voru býsna köld,“ sagði Lilja.

Stjórnvöld væru núna í samtali við fjármálastofnanir og hún gerði fastlega ráð fyrir að aðgerðir litu dagsins ljós í þessari viku
„Sjáum við ekki frekari aðgerðir núna á allra næstu dögum verðum við auðvitað að grípa til þeirra ráða sem við höfum hér. Og ég útiloka ekki að það verði býsna hressilegt,“ sagði viðskiptaráðherra.

Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði aðdáunarvert hvernig Grindvíkingar hefðu tekist á við ástandið í nær óbærilegri óvissu. Þeir þyrftu að fá svör.
„Til hvaða hressilegu aðgerða er ráðherra tilbúin til að grípa,“ spurði Oddný.
Viðskiptaráðherra sagði fjármálaráðherra hafa verið í viðræðum við fjármálastofnanir um helgina. Sjálf hefði hún einnig fengið þær upplýsingar frábankastjórum að von væri á svörum fljótlega.
„Þannig að ég held að við ættum líka að gefa þessu smá tíma. En ekki of mikinn tíma og við leggjum auðvitað öll mjög mikla áherslu á að Grindvíkingar fái mjög skýr skilaboð sem fyrst,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir.