Handbolti

Stjarnan lyftir sér frá fall­svæðinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Starri Friðriksson átti góðan leik í kvöld.
Starri Friðriksson átti góðan leik í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Stjarnan vann mikilvægan sigur á Haukum í Olís deild karla í handbolta í kvöld. Þá vann Afturelding góðan sigur sem og Grótta.

Stjarnan fékk Hauka í heimsókn og vann með minnsta mun, lokatölur 23-22. Starri Friðriksson var markahæstur í liði Stjörnunnar með 7 mörk. Þar á eftir kom Hergeir Grímsson með 6 mörk. Í markinu varði Sigurður Dan Óskarsson 12 skot. Össur Haraldsson var markahæstur í liði Hauka, einnig með 7 mörk.

Eftir sigur kvöldsins er Stjarnan með 9 stig í 9. sæti, þremur frá fallsæti. Haukar eru í 6. sæti með 12 stig.

Afturelding heldur í við Val sem situr í 2. sæti eftir þægilegan sigur á Selfossi, lokatölur 28-33. Gunnar Kári Bragason var markahæstur í liði heimamanna með 5 mörk á meðan Árni Bragi Eyjólfsson og Birkir Benediktsson skoruðu báðir 7 mörk í liði Aftureldingar.

Mosfellingar eru í 3. sæti með 17 stig eftir leik kvöldsins. Selfoss er áfram á botni deildarinnar með 6 stig.

Grótta vann þá botnlið HK með þriggja marka mun í Kópavogi, lokatölur 23-26. Atli Steinn Arnarson var markahæstur hjá HK með 7 mörk. Ágúst Emil Grétarson var markahæstur hjá Gróttu með 6 mörk.

HK er með 7 stig í 10. sæti en Grótta lyfti sér upp í 7. sæti með 10 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×