Enski boltinn

Enginn aðfangadagsleikur á næsta tíma­bili

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Enska úrvalsdeildin hefur hlustað á gagnrýni sem hún hlaut fyrir að færa leik Chelsea og Wolves frá Þorláksmessu yfir á aðfangadag.
Enska úrvalsdeildin hefur hlustað á gagnrýni sem hún hlaut fyrir að færa leik Chelsea og Wolves frá Þorláksmessu yfir á aðfangadag. Visionhaus/Getty Images

Almanak ensku úrvalsdeildarinnar fyrir tímabilið 2024/25 var gefið út fyrr í dag, það hefst þann 17. ágúst 2024, 90 dögum eftir að núverandi keppnistímabili lýkur og rétt rúmum mánuði eftir að úrslitaleikur EM fer fram. Tímabilinu lýkur svo með heilli umferð þann 25. maí 2025. 

Úrvalsdeildin hefur ákveðið að hafa ekki leik þann 24. desember 2024. Fyrr á tímabilinu var ákveðið að Wolves skyldi taka á móti Chelsea næstkomandi aðfangadag en ákvörðunin naut ekki góðs hljómgrunns meðal leikmanna og þjálfara sem þrá hvíld yfir hátíðarnar, sem og stuðningsmanna, en almenningssamgöngur eru skertar á aðfangadag og erfitt getur reynst að ferðast að leikstað. 

Litið var á þann leik sem prufukeyrslu og ljóst er að ekki verður haldið áfram með aðfangadagsleiki. Einu sinni áður hefur leikur farið fram á aðfangadag, árið 1995 þegar Leeds United vann 3-1 sigur á Manchester United. 

„Í samræmi við skuldbinginar sem gerðar voru við félögin til að takast á við þétta leikjadagskrá hafa ráðstafanir verið gerðar til að tryggja hvíldartíma leikmanna. Ekkert félag mun leika innan við 60 klukkustundum frá síðasta leik. Enginn leikur mun fara fram 24. desember 2024“ sagði í yfirlýsingu úrvalsdeildarinnar. 

Að venju verða 20 lið í deildinni og 38 umferðir spilaðar. Tímabilinu verður skipt þannig að 33 umferðir fara fram yfir helgi, 4 umferðir í miðri viku og ein umferð á almennum frídegi (e. Bank Holiday). 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×