Handbolti

Gríðar­leg spenna í Bundesliga: Sjö liða fallbarátta

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Rúnar Sigtryggsson stýrir Leipzig, einu sjö liða sem flýja fallsæti þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta.
Rúnar Sigtryggsson stýrir Leipzig, einu sjö liða sem flýja fallsæti þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta. Hendrik Schmidt/DPA via Getty Images

Spennan er gríðarmikil í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta, aðeins tveimur stigum munar milli sjö liða sem öll forðast fallsætið. Sex stiga munur er milli 17. sætis og 6. sætis. 

Balingen, félagið sem Oddur Grétarsson og Daníel Ingason leika með, situr í neðsta sæti deildarinnar með 7 stig. Eisenach eru fyrir ofan þá í hinu fallsætinu, með 13 stig, jafnt og Bergischer, Stuttgart og Hamburg í sætunum fyrir ofan. 

Arnór Þór Gunnarsson leikur með Bergischer en Stuttgart og Hamburg hafa engan Íslending innanborðs. 

Þar fyrir ofan eru svo Lemgo og Leipzig með 14 og 15 stig. Tvö stig fást fyrir sigur, eitt fyrir jafntefli og núll fyrir tap. Það munar því ansi mjóu milli liðanna sjö og ekki er langt í næstu lið þar fyrir ofan. Burgdorf, sem situr í 6. sæti deildarinnar, er aðeins með 19 stig.

Leipzig er vel skipað Íslendingum, Viggó Kristjánsson og Andri Már Rúnarsson eru leikmenn liðsins. Faðir Andra, Rúnar Sigtryggsson, er þjálfari Leipzig. 

Flest hafa liðin leikið 19 leiki af 34, að undanskildum Erlangen sem getur jafnað Lemgo og Leipzig að stigum með sigri í næsta leik sínum gegn Lemgo. 

Einn leikur á eftir að spilast þann 31. desember, milli Gummersbach og Kiel sem eru bæði í efri hlutanum, deildin fer svo í langt frí eftir áramót og hefst að nýju þegar heimsmeistaramótinu lýkur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×