Fótbolti

Fundu loks þjálfara og sá er ekki ís­lenskur

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhannes Karl Guðjónsson var einn þeirra sem ræddu við forráðamenn Norrköping í þjálfaraleitinni.
Jóhannes Karl Guðjónsson var einn þeirra sem ræddu við forráðamenn Norrköping í þjálfaraleitinni. Getty/Alex Nicodim

Eftir að hafa mistekist að landa Arnari Gunnlaugssyni sem nýjum þjálfara virðast forráðamenn sænska knattspyrnufélagsins Norrköping nú hafa fundið mann í starfið. Sá er ekki íslenskur.

Arnar var einn þriggja sem efstir voru á lista Norrköping í upphafi þjálfaraleitarinnar sem nú hefur staðið yfir í meira en mánuð. Hinir voru Jóhannes Karl Guðjónsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands, og Peter Wettergren.

Wettergren tók hins vegar að sér starf hjá sænska knattspyrnusambandinu og Norrköping tókst ekki að komast að samkomulagi við Víkinga um kaupverð vegna Arnars, sem á tvö ár eftir af samningi sínum við Íslandsmeistarana.

Og nú virðist svo ljóst að Jóhannes Karl verði ekki heldur næsti þjálfari Norrköping.

Sænskir fjölmiðlar greina nefnilega frá því í dag að Svíinn Andreas Alm, sem lék með Norrköping á árunum 2004-2005, verði næsti þjálfari liðsins. Mögulegt er að hann verði kynntur til leiks í dag.

Andreas Alm var rekinn frá OB í Danmörku í síðasta mánuði.Getty/Rene Schutze

Alm, sem er fimmtugur, hefur áður stýrt sænsku liðunum Eskilstuna City, AIK og Häcken, en var síðast þjálfari OB í Danmörku. Þaðan var hann rekinn í síðasta mánuði.

Með Norrköping leika þeir Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson. Ari Freyr Skúlason er sömuleiðis í starfi hjá félaginu eftir að hafa lagt skóna á hilluna að loknu síðasta tímabili.

Ekki náðist í Jóhannes Karl við vinnslu greinarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×